Á eftir góðri máltíð er fátt betra en sætur og frískandi eftirréttur. Þetta ávaxtasalat er einstaklega gott og ferskt og svo er það í hollari kantinum. Hægt er að bera það fram eitt og sér í skálum en það hentar einnig með franskri súkkulaðiköku eða með vanilluostaköku svo dæmi sé tekið.
Magnið af sætu fer svolítið eftir því hversu náttúrulega sætar appelsínurnar eru, ef þær eru súrar gæti þurft meira síróp. Það er lykilatriði í þessu ávaxtasalati að skera laufin innan úr appelsínunni, það gerir salatið svo fínlegt og lekkert. Í myndbandinu er sýnt hvernig er best að ná laufunum úr.
JARÐARBERJA- OG SÍTRUSSALAT MEÐ KANIL
fyrir 4
3 meðalstórar appelsínur
1/2 bleikt greipaldin, má sleppa og hafa 4 appelsínur
safi úr 2 appelsínum, (u.þ.b. 2 dl appelsínusafi)
2 öskur gæða jarðarber
u.þ.b. 8 fersk myntulauf, söxuð
4-5 msk. hlynsíróp, (má líka nota hunang)
2 msk. appelsínulíkjör, t.d. Cointreau (má sleppa)
½ – 1 tsk. kanill, betra að setja lítið fyrst og smakka svo til myntulauf til skrauts
Afhýðið appelsínurnar og greipaldin. Fjarlægið einnig hvíta hlutann og losið appelsínurnar sundur í lauf, best er að halda á appelsínunni í annarri hendi og skera í kringum laufin með litlum beittum hníf. Setjið í stóra skál. Skerið jarðarberin í sneiðar og bætið þeim í skálina ásamt saxaðri myntunni. Setjið appelsínusafann, hlynsírópið, líkjörinn og kanilinn út í og blandið öllu vel saman. Gætið þess að hræra varlega. Kælið í a.m.k. 1 klst. Sítrusávextir eru missætir og því getur þurft að bæta við meira hlynsírópi eða meiri líkjör eftir smekk.
Gestgjafinn er fagtímarit um mat, vín og ferðalög. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun.