Franskar eru fyrir löngu orðnar klassískt og ómissandi meðlæti með mörgum mat en hérna gefum við uppskrift að óhefðbundnum frönskum úr rótargrænmeti og polentu sem hentar vel sem spennandi meðlæti.
POLENTU-FRANSKAR MEÐ PARMESAN-OSTI, RÓSMARÍN OG GRÓFRI TÓMATSÓSU
fyrir 4-6
500 ml kjúklingasoð, má nota grænmetissoð
180 g polentumjöl
80 g rifinn parmesan-ostur
25 g smjör
½ hnefafylli rósmarínlauf (u.þ.b. 2 msk.), fínt söxuð
sjávarsalt og nýmalaður
svartur pipar
100 g mascarpone-ostur, við stofuhita
olía til að djúpsteikja
Gróf tómatsósa, til að bera fram, við notuðum Roasted tomato sauce frá Stonewall kitchen
Setjið soðið í víðan djúpan pott og komið upp að suðu. Hellið polentumjölinu rólega saman við og hrærið í allan tímann með písk. Takið af hitanum þegar allt mjölið er komið saman við og hrærið parmesan-ost, smjör og rósamarín út í og bragðbætið með salti og pipar.
Látið polentuna kólna örlítið og hrærið því næst mascarpone-ost saman við. Setjið bökunarpappír í smurt 20 cm form og hellið polentublöndunni í formið. Sléttið úr blöndunni með skeið og setjið í kæli þar til blandan hefur harðnað. Takið úr forminu og skerið í þykkar franskar.
Hitið olíu í djúpsteikingarpotti eða í djúpri pönnu. Olían ætti að vera 190°C þegar frönskurnar eru steiktar. Steikið frönskurnar í skömmtum og leggið á pappír til hliðar á meðan restin er steikt. Frönskurnar ættu að taka u.þ.b. 2-4 mín. í eldun. Setjið frönskurnar á disk og berið fram með grófri tómatsósu. Einnig er hægt að forsteikja frönskurnar og hita þær síðan í 200°C heitum ofni rétt áður en þær eru bornar fram.
Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti / Bergþóra Jónsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson
Gestgjafinn er vandað fagtímarit um mat, vín og ferðalög. Allar uppskriftir í matarþáttum blaðsins eru þróaðar, eldaðar og prófaðar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun.