2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Klikkað góðar kjötbollur sem þú verður að smakka – fljótlegt og einfalt

Þessar kjötbollur eru bornar fram í pylsubrauði en það er einmitt sniðugt að nýta pylsubrauðin í eitthvað allt annað en hina hefðbundnu pylsu. Við erum flest okkar meira heima við á þessum tímum og um að gera að nýta tímann til að prófa nýjar uppskriftir, við getum svo sannarlega mælt með þessari.

 

Asískar kjötbollur með sýrðum gulrótum og hoisin-sósu
fyrir 4

1 rautt chili-aldin, fræhreinsað og skorið í þunnar sneiðar
ferskur kóríander, til að bera fram með pylsunum
4 stk. pylsubrauð að eigin vali, hér er gott að nota brioche-pylsubrauð

Sýrðar gulrætur
2 stórar gulrætur
80 ml hvítvínsedik
25 g sykur

AUGLÝSING


Afhýðið gulræturnar og skerið þær í þunnar lengjur. Gott er að skera þær í mandólíni en ef það er ekki til er gott að byrja á því að skera gulræturnar eftir endilöngu í sneiðar og skera þær því næst í þunnar ræmur.

Setjið gulræturnar í skál og blandið saman við edikið og sykurinn. Hrærið í þeim af og til og leyfið að standa í 20 mínútur í ediksleginum. Sigtið því næst gulræturnar frá vökvanum.

Sósa

125 g japanskt majónes, eða annað gott majónes
2 msk. hoisin-sósa

Blandið majónesinu og hoisin-sósunni saman í skál og setjið til hliðar.

Kjötbollur

Þessar kjötbollur er bragðsterkar. Ef þið viljið hafa þær mildari er hægt að minnka magnið af sriracha-sósunni eða sleppa henni alveg.

500 g svínahakk
1 stk. sítrónugras, hvíti parturinn fínt saxaður
2 skalotlaukar, afhýddir og saxaðir fínt
3 ½ msk. sriracha-sósa, hér er hægt að nota aðra chili-sósu ef sriracha-sósa finnst ekki
1 tsk. sjávarsalt
2 msk. olía til steikingar

Setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman með höndunum. Takið 1 msk. af svínahakkinu í einu og mótið kjötbollur með höndunum.

Hitið pönnu á miðlungshita með 2 msk. af olíu og steikið kjötbollurnar á öllum hliðum þar til þær eru byrjaðar að brúnast og eru eldaðar í gegn, u.þ.b. 8-10 mínútur. Setjið kjötbollurnar á disk með eldhúspappír til að taka frá olíuna.

Endurtakið ferlið þar til allar kjötbollurnar eru steiktar.

Setjið sósu í pylsubrauðin og fyllið þau með gulrótunum og kjötbollunum. Berið fram með ferskum kóríander, chili-aldini og meiri hoisin-sósu.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni