2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Kræsingar á kökuhlaðborði

Eitt af því notalegasta sem hægt er að gera á Egilsstöðum er að fara í kökuhlaðborð á Bókakaffi en þar var áður rekin bókabúð og ber kaffihúsið þess glöggt merki því enn er hægt að næla sér í nokkrar bækur, hvort sem eru gamlar eða nýjar.

En það eru kökurnar sem laða okkur að kaffihúsinu en á hverjum föstudegi er boðið upp á sannkallaðar kökukræsingar. Alltaf eru tíu sortir í boði, oftast einn eða tveir ósætir réttir eins og brauðterta og heitur réttur en hinar átta sortirnar eru dásamlegar kökur.

Þegar okkur bar að garði svignaði hreinlega borðið undan fallegum og fjölbreyttum kökum. Fast verð er fyrir hlaðborðið en hver og einn getur fengið sér kaffi og með því eins og magamál leyfir.

Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

AUGLÝSING


Skemmtileg stemning myndaðist og þótt kökuhlaðborðið byrjaði ekki fyrr en þrjú var nánast orðið fullt hús fljótlega upp úr tvö. Fastagestir, nokkrar hressar konur á besta aldri, létu sig ekki vanta og sátu og prjónuðu í notalegum stólum innan um bækurnar. Þarna var afslappað andrúmsloft og mikið hlegið og gantast og fólk við eitt borðið spjallaði við fólkið á næsta borði.

Kökuhlaðborð á Bókakaffi ætti að vera skylda fyrir alla sem heimsækja svæðið og endilega setjist hjá konunum í horninu og ræðið við þær. Það er svo yndislegt að hitta fólk og spjalla, eitthvað svo íslenskt.

Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þess má geta að Bókakaffi er opið alla daga vikunnar nema sunnudaga og í hádeginu á miðvikudögum eru íslenskar kótelettur í raspi ávallt á boðstólum og njóta þær mikilla vinsælda hjá heimamönnum.

Myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni