Látum ekki markaðsöflin segja okkur hvað við getum og getum ekki

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ritstjórapistill úr 9. tbl. Gestgjafans

Nú líður senn að hausti og laufin farin að taka á sig gylltan blæ. Því fagna eflaust einhverjir enda hefur sumarið verið ótrúlega gott. Í raun svo gott að sumir Íslendingar gleðjast yfir rigningu og roki þótt ótrúlegt megi virðast. En hvað sem því líður þá er haustið ávallt sveipað einhverri rómantík og fátt er notalegra en að kveikja á kertum, elda góðan ofnrétt, hlusta á tónlist og sötra rauðvín á meðan rokið og rigningin dansa tangó í rökkrinu fyrir utan. Eitt af því besta við haustið er þó að margra mati rútínan. Sumarfrelsið getur nefnilega verið þreytandi til lengdar og öll þurfum við ákveðna festu í lífið. Á haustin fer svo margt í gang, skólarnir, námskeiðin og klúbbarnir, að ógleymdri ræktinni sem margir taka föstum tökum á þessum árstíma.

Þetta er líka annasamur tími og oft getur verið snúið að koma öllu fyrir í stundatöflu dagsins. En hvað situr þá á hakanum? Eflaust er það misjafnt en allt of oft er það kvöldmaturinn. Við gefum okkur nefnilega æ minni tíma til að elda og grípum þess í stað með okkur tilbúinn mat eða eitthvað sem hægt er að elda á afar stuttum tíma með lítilli fyrirhöfn.

Í sumarfríinu datt ég inn í afar góðan kanadískan sjónvarpsþátt um heilsu og matarræði Vesturlandabúa sem byggður var á rannsóknum og vísindum. Þar kom fram að mesti heilsuskaðvaldurinn er í raun sú staðreynd að við gefum okkur allt of lítinn tíma til að elda frá grunni. Ef það tekur okkur ekki nema 5 mínútur að elda og aðrar 2-3 mínútur að ganga frá þá borðum við sennilega óhollt. Heimagerður hamborgari og franskar er ekki endilega óhollur matur ef hann er búinn til frá grunni heima. Tilbúin fjöldaframleidd bearnaise-sósa er mun óhollari en heimagerð slík sósa og svo mætti lengi telja. Það sem sló mig samt einna mest var að matvælaframleiðendur hafa í mörg ár markaðssett matvörur sínar á þann hátt að allt þurfi að vera einfalt. Að það sé erfitt að elda og að við séum svo upptekin að við höfum ekki tíma til að standa í slíku og ættum að láta fagmenn sjá um það hvort sem það er í tilbúnum matarpökkum, frosnum pítsum eða skyndibitamat. Markaðsöflin í matnum hafa sem sagt talið okkur trú um að við höfum ekki tíma til að elda og að það sé svo erfitt, eiginlega bara á færi fárra töff og vel útlítandi sjónvarpskokka. En það geta allir eldað sem vilja og nenna að setja það inn í rútínuna.

Í þessum sama sjónvarpsþætti var einnig bent á að í raun þyrftu Vesturlandabúar að hverfa nokkra áratugi aftur í tímann þegar máltíðir voru ávallt gerðar frá grunni heima í eldhúsi og voru hluti af daglegum athöfnum sem sjálfsagt þótti að gefa sér tíma í. Framboðið af tilbúnum mat var líka töluvert minna en við þekkjum í dag. Þá vissi fólk líka hvað var í matnum sem það lagði sér til munns, það er ekki alltaf tilfellið í dag. Eldamennska er ekki á færi fárra, það geta allir eldað! Já, setjum eldamennskuna í rútínuna eins og ræktina eða gerum matseldina hluta af líkamsræktinni.

Njótið haustsins
Hanna Ingibjörg

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Þegar tryggingar snúast um fólk

Tryggingafélagið VÍS hefur nýlega vakið athygli fyrir að boða nýjung á bílatryggingamarkaði, svokallaðan Ökuvísi. Ætlunin er að...