• Orðrómur

Leggur áherslu á að velja besta hráefnið „fyrir kroppinn okkar og jörðina“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Arna Engilbertsdóttir opnaði nýverið matarbloggið fræ.com en þar eru uppskriftir að plöntumiðuðum mat í aðalhlutverki. Arna deilir hér með lesendum Gestgjafans tveimur uppskriftum að dásamlega litríkum, hollum og bragðgóðum mat.

Þegar Arna er spurð út í hugmyndina á bak við matavefinn fræ.com segist hún hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum. „Mér fannst vanta heildrænan lífsstílsvettvang með áherslu á góðan grænmetismat og þar sem unnar væru matvörur í lágmarki. Ég byrjaði á því að deila uppskriftum og myndum af mat sem mig langaði sjálf að borða og sá fljótlega að fræ.com var hugmynd sem þyrfti að verða að veruleika.“

Áhugi Örnu á mat og matreiðslu kviknaði á unglingsárunum og hefur síðan þá aukist jafnt og þétt. „Ég er svo heppin að eiga mömmu sem gerir besta matinn og ég lærði mikið af henni. Síðastliðin ár hefur umhverfisvænn lífsstíll verið mér hugleikinn og helst plöntumiðað fæði í hendur við það. Ég hef alltaf haft mikla listræna þörf og hef gaman af öllu sem ég get gert í höndunum, eldamennskan passar sannarlega inn þar.“

„Ég hef alltaf haft mikla listræna þörf og hef gaman af öllu sem ég get gert í höndunum…“

- Auglýsing -

Arna segir uppskriftir sínar vera fyrir alla þá sem langar að borða meira af góðum grænmetismat. Hún leggur áherslu á að leiðbeiningar séu skýrar og uppskriftirnar þannig aðgengilegar fyrir flesta. „Með hverri uppskrift getur lesandinn flett myndum sér til stuðnings í eldamennskunni svo það ætti hver sem er að geta spreytt sig. Ég legg áherslu á að nota íslenskar og lífrænar afurðir, það besta sem við getum valið fyrir kroppinn okkar og jörðina. Það er svo áhugavert að skoða bæði hvaðan fæðan okkar kemur og hvað hún inniheldur. Ég reyni að gefa lesandanum innsýn í uppruna og framleiðsluferli á ýmiss konar sérstöku hráefni til gamans.“

Meðfylgjandi eru uppskriftir Örnu að litríku byggsalati annars vegar og saðsömum kúrbítsrétt hins vegar.

Byggsalat með radísum, rauðrófum og bökuðum valhnetum

150 g rauðrófur
1/2 bolli íslenskt perlubygg
100 g valhnetur
1 msk. ólífuolía
kjarnar úr 1/2 granatepli
125 g radísur
1 askja/50 g asískt bay leaf frá Vaxa
1 askja/30 g klettasalat frá Vaxa
1 msk. ólífuolía
salt og pipar eftir smekk
3-4 fíkjur

Dressing

- Auglýsing -

3 msk ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1 tsk sinnep

Byrjið á því að hita ofninn á 180°C. Sjóðið rauðrófurnar ef þær eru ekki forsoðnar. Sjóðið perlubygg eftir leiðbeiningum. Komið valhnetum fyrir á bökunarpappír og hellið 1 msk. af ólífuolíu yfir þær og saltið og piprið eftir smekk. Bakið í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til þær eru gylltar og ilmandi.

Skerið granateplið og losið kjarnana. Skerið rauðrófur og radísur í þunnar sneiðar. Skerið fíkjur í 4 báta. Blandið kálinu saman við restina af hráefninuunum í salatinu. Blandið ólífuolíu, hvítvínsediki og sinnepi saman fyrir dressingu og setið út á salatið.

- Auglýsing -

Berið fram með ferskum fíkjum.

Fylltur kúrbítur með möndlu-ricotta

6 hvítlauksgeirar
100 g spínat
2 öskjur möndlu-ricotta frá Kite Hill (fæst í Veganbúðinni)
500 g passata eða hrein tómatsósa
2 msk. ítölsk kryddblanda
2 msk. balsamedik
1 stór kúrbítur eða tveir litlir
1 askja / 180 g íslenskir piccolo-tómatar
ferskt garðablóðberg eftir smekk
salt og pipar

Steikið hvítlauk og spínat á pönnu með örlítilli ólífuolíu í nokkrar mínútur. Hvítlaukurinn ilmar og spínatið minnkar töluvert í stærð. Setjið til hliðar. Setjið möndlu-ricotta í skál og stappið saman ásamt hvítlauknum, spínatinu og salti og pipar.

Hitið næst tómatsósuna á vægum hita ásamt ítalskri kryddblöndu og balsamedik á pönnu og setjið lokið á. Látið malla á lágum hita á meðan kúrbíturinn er undirbúinn.

Skerið kúrbítinn í mjög þunnar, jafnþykkar sneiðar. Það kemur sér vel að nota mandólín eða rifjárn til að hafa sneiðarnar jafnar. Raðið kúrbítssneiðum á ofngrind, saltið kúrbítinn og piprið og bakið á 180 gráðum í nokkrar mínútur, það er auðveldara að rúlla þeim upp þegar þær eru orðnar mýkri. Leggið tvær sneiðar niður þannig að önnur fer aðeins ofan á hina.

Setjið u.þ.b. 1-2 msk af ricotta blöndunni neðst á sneiðarnar og rúllið svo upp. Blandan er þykk og ætti að vera auðvelt að rúlla upp.

Skerið piccolo-tómata í tvennt. Raðið rúllunum í sósuna ásamt tómötunum. Toppið með fersku garðablóðbergi og pipar eftir smekk.

Bakið á 180°C í u.þ.b. 25 mínútur eða þar til tómatarnir og efstu rúllurnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Þess má geta að í nýjasta Hús og híbýli kíkjum við í heimsókn til Örnu en hún á fallegt heimili þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum.

Nældu þér í eintak af nýjasta Hús og híbýli, þar finnur þú innlit til Örnu og viðtal við hana.

Myndir / Hákon Davíð

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -