Les Passages – Faldar perlur Parísarborgar

Deila

- Auglýsing -

París hefur að geyma mikla og fjölskrúðuga sögu og í raun má segja að borgin sé hálfgert safn í sjálfu sér. Minnismerki og tígulegar byggingar tróna yfir borginni hvert sem litið er og í sumum hlutum er auðvelt að fá á tilfinninguna að farið sé aftur í tímann um nokkur hundruð ár. Flestir flykkjast á vinsælustu ferðamannastaðina eins og Eiffelturninn, Louvre-safnið og Sigurbogann en ýmsar faldar perlur er víða að finna í borginni, eins hin heillandi verslunargöng sem voru mörg hver byggð upp úr aldamótunum 1800.

Göngin voru hugsuð fyrir fínni borgara til að komast úr skarkalanum á útimörkuðum sem almúginn sótti, þar var hlýrra á veturna og kaldara á sumrin og göngin veittu fínt skjól fyrir ofankomu. Verslunargöng af þessum toga eru nefnd passage eða galerie á frönsku og eru talin hafa verið í kringum 150 talsins í kringum 1850 en í dag eru þau einungis um 25, sum hver mjög lítil en önnur lengri og stórfenglegri. Hér bendi ég mín uppáhalds-passage í borg ástarinnar en þess má geta að passage þýðir líka hjáleið og því oft er hægt að stytta sér leið með því að nota göngin. 

Passage des panoramas

Þessi verslunargöng eru í níunda hverfi ekki langt frá Galeries Lafayette en hægt er að ganga inn um þau á mismunandi stöðum. Göngin voru byggð árið 1799 og eru talin þau elstu af sinni gerð í  París. Þau eru afar falleg með glerþaki og fögrum súlum sem endurspegla söguna í þessum mjóu göngum. Göngin telja 133 metra og teljast til þjóðargersema Frakka „Monument historique“ og eru friðuð að einhverju leyti. Þarna eru áhugaverðir ekta franskir matsölustaðir og vínbarir ásamt skemmtilegum litlum búðum þar sem hægt er að finna bæði gamalt og nýtt dót en margir safnarar borgarinnar sækja í göngin.

Galerie Vivienne

Fáir ferðamenn eiga leið um þessi göng sem eru aftur á móti vinsæl meðal heimamanna. Þau eru afar falleg enda var lúxus hafður að leiðarljósi þegar þau voru byggð árið 1823 en það var arkitektinn François-Jean Delannoy sem hannaði göngin sem voru friðuð árið 1974. Galerie Vivienne-verslunargöngin eru 176 metra löng með gleryfirbyggingu og gólfið er sérlega fallegt með mósaíkflísum frá tímanum þegar þau voru byggð. Þarna eru yfir 20 verslanir sem eru skemmtilegar og frekar fínar en einnig eru nokkrir góðir franskir matsölustaðir. Ég mæli með Bistrot Vivienne sem er ekta franskur bistrot-staður með ferskt hráefni en hann hefur verið vinsæll af hverfisbúum um árabil. Vefsíða: galerie-vivienne.com (vefsíðan er á frönsku).

Passage du Grand Cerf

Einstaklega falleg göng í öðru hverfi ekki langt frá Montorgueil-matargötunni frægu. Göngin eru mjög mjó með mikla lofthæð eða 12 metra. Þakið er gert úr járni og gleri þannig að dagsljósið varpar fallegri birtu á göngin sem voru byggð árið 1825 en þá voru þessi yfirbyggðu verslunargöng í tísku og mörg fleiri byggð á þessum tíma sem því miður hafa ekki varðveist. Skemmtilegar og fallegar sérbúðir eru sitt hvorum megin í göngunum en þar er hægt að finna handgerða skartgripi og húsgögnm svo fátt eitt sé nefnt. Ég mæli með að þeir sem eiga leið um Hallirnar taki krók og hoppi inn í þessi fallegu göng til að hvíla sig frá skarkalanum en það er svolítið eins og að fara aftur í tímann að ganga þarna um.

Passage Choiseul

Þessi göng eru í Óperuhverfinun ekki langt frá Galerie Viviennen og því tilvalið að skoða þau í sömu ferð. Eins og mörg af þessara fallegu verslunargöngum er Passage Choiseul friðað en það var byggt árið 1825. Hátt er til lofts og mikið af búðum og þá sérstaklega bókabúðum. Þessi göng eru og voru aldrei eins fín og t.d. nágrannagöngin Galerie Vivienne en gaman er að koma í þau og ýmislegt hægt að fá að borða þar.

Galerie Vero-Dodat

Þessi göng eru í fyrsta hverfi Parísarborgar rétt hjá Louvre-safninu og ekki langt frá Palais Royal. Göngin eru ekki löng en í afar fallegum nýklassískum stíl, takið eftir svörtu og hvítu flísunum sem eru eintaklega fallegar. Loftið er að hluta gler og að hluta steypa á milli en sá hluti loftsins er fagurlega skreyttur. Göngin voru byggð árið 1826 en viðarumgjarðirnar utan um búðirnar eru í fallegum brúnum litum og flestar upprunalegar. Þarna er mikið af flottum búðum og galleríum eins og hljóðfærabúð, húsgagnabúðir og matsölustaðir en Café de l´Epoque er gott brasserie þar sem tilvalið er að drekka í sig rólega og gamla menningu borgarinnar.

 

- Advertisement -

Athugasemdir