2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Bath – seiðmögnuð og töfrandi söguborg fyrir sælkera

Bath er talin meðal fallegustu borga í Englandi en hún er staðsett í Somerset-héraði í suðvesturhluta landsins. Andrúmsloftið er einstaklega afslappað og borgin er sjarmerandi með litlum þröngum götum, búðum, veitingastöðum og fallegum gömlum byggingum.

Í raun má segja að það sé eins og að stíga aftur í tímann þegar gengið er um göturnar enda sagan nánast við hvert fótmál. Gömul böð frá tímum Rómverja er það sem borgin er einna þekktust fyrir og þaðan dregur hún einmitt nafn sitt en eins og flestir vita þýðir bath bað á íslensku. Borgin var stofnuð árið 70 eftir Krist af Rómverjum sem sóttu í böðin en síðar varð hún vinsæl meðal yfirstéttarfólks í Evrópu sem trúði á lækningamátt baðanna. Fallegir garðar eru í borginni og áin Avon er undurfögur þegar hún rennur í gegnum bogana á Pulteney-brúnni sem byggð var árið 1774. Gaman er að geta þess að rómversku böðin eru á heimsminjaskrá UNESCO og allir ættu að skoða þau vel og vandlega.

Margar fleiri gamlar byggingar er að finna í borginni og er Bath Abbey, sem er kirkja í dag, ein þeirra en hún er staðsett við hliðina á böðunum og er einstaklega falleg í gotneskum byggingarstíl. Óhætt er að segja að allt áhugafólk um sögu muni því njóta dvalarinnar en ekki síður sælkerar og mataráhugafólk því gott úrval er af góðum matsölustöðum, krám og kaffihúsum í borginni. Lestarferð til Bath frá London tekur ekki nema rúmar tvær klukkustundir og það er skemmtileg tilbreyting frá stórborginni að gista eina helgi og upplifa svolitla breska sveitarómantík. Bristol sem við höfum áður fjallað um í Mannlífi er steinsnar frá Bath og ekki tekur nema 12 mínútur að fara á milli borganna með lest. Hér bendi ég á nokkrar góðar sælkerabúðir og góða staði til að njóta hinnar bresku high tea-hefðar en fáir staðir á Bretlandseyjum eru betur til þess fallnir en einmitt Bath.

High tea

BAth *** Local Caption *** Bath

AUGLÝSING


Tehefðin er rík í Bretlandi en síðdegiste, eða high tea, var hefð sem skapaðist í kringum efri stéttina. High tea er yfirleitt borið fram upp úr klukkan þrjú og þá er boðið upp á te með mat, eins og samlokum, bökum og smáréttum ásamt skonsum, kökum og kexi. Í dag er vinsælt að gæða sér á kampavínsglasi í high tea. Í Bath er þessari hefð vel viðhaldið, enda búa margir efnameiri Bretar á svæðinu og þeir gera kröfur um gæði. Það ætti því enginn að koma til Bath nema að fara í alvöru-high tea þar sem maturinn er borinn fram á þriggja hæða fallegum diskum með ekta servíettum og silfurborðbúnaði. High tea er dásamlegt.

Pump Room

Gamalt tehús staðsett við hliðina á rómversku böðunum á Stall Street. Pump Room var byggt að mestu á 18. öld. Þar er hátt til lofts og hægt að sjá yfir rómversku böðin út um gluggana vinstra megin í salnum. Hægt er að fá sér ágætis high tea í Pump Room og stemningin er góð og staðurinn sögufrægur enda var hann vinsæll meðal efnameira fólks hér áður fyrr. Hingað sótti Jane Austen og er Pump Room getið í a.m.k. þremur skáldsögum hennar. Rýmið er stórt og hátt er til lofts og því hljóðbært. Oft er lifandi tónlist í salnum sem eykur á stemninguna.

Vefsíða: thepumproombath.co.uk

The Francis Hotel

Þetta hótel er fjögurra stjörnu lúxushótel sem býður upp á hágæða high tea á milli 12 og 17 á kvöldin. Veitingarnar eru bornar fram í fallegri stofu, eða „salon“, þar sem setið er í sófum. Leirtauið er ekta enskt með rauðbleiku mynstri, tesíurnar eru gylltar og orkídeur á borðum. Þetta er staður sem ég mæli með, samlokurnar og bökurnar þarna eru algert lostæti. Ég mæli eindregið með því að panta high tea á teseðlinum. Hér er vissara að panta borð.

Vefsíða: http://francishotel.com

The Royal Crescent Hotel

Þetta er sennilega eitt fínasta og frægasta hótelið í Bath, þótt víðar væri leitað. Hótelið er í hinni frægu Royal Crescent-byggingu sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Hótelið er vel falið því reglur kveða á um að ekkert skilti megi menga útlit byggingarinnar. Hér er tilvalið að fá sér high tea í hæsta gæðaflokki. Hótelgarðurinn er einstaklega rólegur og fallegur og þar er einmitt tilvalið að njóta eftirmiðdags í góðu veðri og gera vel við sig, jafnvel þótt herlegheitin kosti svolítið þá er það vel þess virði. Á hótelinu er einnig einstaklega góður matsölustaður sem hefur hlotið verðlaun en hótelið er í hinni virtu Relais&Chateau-keðju. Hér er nauðsynlegt að panta borð með fyrirvara. Herbergin á Royal Crescent eru gjörsamlega dásamleg og ævintýri líkast að gista á hótelinu og engin herbergi eru eins. Ég hvet alla hótelnörda til að gista hér eða í það minnsta að skoða vefsíðuna og láta sig dreyma.

Vefsíða: royalcrescent.co.uk

Sally Lunn´s

Þetta er elsta húsið í Bath, byggt árið 1482, en í því er starfrækt eitt frægasta mat- og tehúsið í borginni. Nafnið dregur húsið af Sally Lunn sem bjó í því árið 1680 en hún ku hafa verið ofsótt í Frakklandi. Hún flúði því til Bath þar sem hún hóf að baka bollur í húsinu, sem urðu afar vinsælar. Sennilega hefur Sally verið að reyna að baka hið franska brioche-brauð því bollurnar líkjast því, léttar og vel sætar. Þessar bollur eru þekktar víða um heim en þær kallast einmitt „Sally Lunn Bun“. Í þessu elsta húsi Bath er hægt að fá síðdegiste og hina frægu bollu en einnig er ýmislegt annað matarkyns á boðstólum og ýmsir sögulegir réttir sem unnir eru að mestu úr hráefni úr nærumhverfinu. Þarna er líka safn þar sem hægt er að skoða upprunalega bakaríið sem Sally starfaði í.

Vefsíða: sallylunns.co.uk

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum