2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjórir spennandi barir – til að væta kverkarnar í London

London er meðal mestu matarborga í heiminum í dag og þar spretta upp nýir staðir nánast daglega. Ég hef verið dugleg að benda á góða veitingastaði í þessari skemmtilegu og vinsælu borg enda fer ég þangað nokkrum sinnum á ári í matsölustaða- og barrannsóknarvinnu.

Ég fer ávallt á nokkra staði á hverjum degi til að upplifa og sjá sem mest enda stoppa ég oft stutt og þess vegna reyni ég a.m.k. að fara á einn bar áður en haldið er á veitingastaðinn. Vandamálið í stórborgum eins og London er að velja úr öllum þeim aragrúa staða sem þar eru, því staðreyndin er sú að margir eru afar óáhugaverðir túristastaðir. Hér bendi ég á nokkra skemmtilega bari og pöbba sem ég prófaði nýlega og get mælt með.

The Wigmore – Marylebone

AUGLÝSING


Þetta er nýi uppáhaldspöbbinn minn í Marylebone en hann er samt sem áður fremur ólíkur hefðbundnum breskum pöbbum. Húsnæðið sem barinn er í var eitt sinn banki enda er sérlega hátt til lofts og gömul há borð þar sem menn fylltu áður út eyðublöð setja svip sinn á staðinn en þar er nú drukkinn bjór sem er öllu skemmtilegra. The Wigmore er málaður í sérlega fallegum smaragðsgrænum lit sem minnir óneitanlega á fimmta áratug síðustu aldar. Þetta er flottur og vinalegur pöbb sem staðsettur er á horni Regent Street og Wigmore Street og því tilvalinn til að hoppa inn á í drykk til að hvíla sig frá skarkalanum á Oxford Street. Gott úrval er af kokteilum og ágætt af bjór en einnig er hægt að fá góðan breskan mat í nútímabúningi á staðnum en það er hinn þekkti kokkur Michel Roux sem hefur umsjón með matnum.

Vefsíða: the-wigmore.co.uk.

Fitz´s á Kimpton Fitzroy – Russel Square

Einstakur kokteilbar á einu fallegasta hótelinu í London, Kipton Fitzroy, sem staðsett er á Russel Square og alveg þess virði að hoppa upp í svartan leigubíl og fara þangað í fordrykk. Þegar inn er komið blasa við svartir veggir með gylltum römmum, plussklæddir formfagrir sófar, appelsínulitaður baklýstur bar með risadiskókúlu sem trónir yfir miðjum staðnum, svona rétt til að minna okkur á nútímann. Þarna er einstaklega gott úrval af kokteilum sem í er lagður mikill metnaður, ég smakkaði tvo og þeir voru hvor öðrum betri. Barinn opnar kl. fjögur á daginn og er opinn fram á kvöld.

Vefsíða: fitzs.co.uk.

Opium – Soho

Þessi bar og dim sum-staður er verulega frábrugðinn öðrum börum en hann er staðsettur í aðalgötunni í China Town en samt sem áður getur verið svolítið erfitt að finna hann enda er hann í hinum vinsæla speak easy-stíl og því vel falinn. Lítið merki með nafni staðarins er fyrir framan græna hurð og þar er bjalla en Opium opnar ekki fyrr en kl. fimm á eftirmiðdögum og betra er að panta borð til að losna við að standa í röð sem myndast stundum. Þrír barir, hver á sinni hæðinni, eru í húsinu sem er mjótt og ganga þarf upp viðarstiga. Þegar komið er á barina er tilfinningin eins og gengið hafi verið inn í sett á bíómynd frá nýlendutímanum í Shanghai. Andrúmsloftið er afslappað á öllum hæðum og það er eins og ópíumandinn svífi yfir vötnum. Verulega gott úrval af handverkskokteilum. Á The Apothecary prýða lyfjaglös barinn en þar er líka hægt að panta dim sum-smárétti. Academy er á efstu hæðinni og þar er eins konar setustofa eða lounge sem er afskaplega afslappandi að sitja í og dreypa á góðum kokteil. Peony er vel falinn en er meira hugsaður fyrir sérhópa og hann er með frábrugðinn kokteilaseðil, þetta þykir einn rómantískasti barinn á staðnum, hægt er að bóka hann fyrir hópa en hann tekur mest 30 manns.

Vefsíða: opiumchinatown.com.

Ham Yard Hotel – Soho

Neðarlega í Soho er einkar snoturt lúxushótel í breskum sveitastíl en það var hannað af Kit Kemp. Gaman er að lauma sér inn á barinn sem er stór og fallegur enda er hann veruleg andstæða við hverfið sjálft og kærkominn hvíldarstaður til dæmis fyrir þá sem hafa verið að þramma í búðir í hverfinu. Úrvalið af kokteilum og drykkjum er afar gott og Bretar sækja mikið á þetta hótel og því gaman að horfa á mannlífið með góðan kokteil í hönd. Einnig er vinsælt að borða á veitingastaðnum þeirra og inn af barnum er hægt að fara í „hight tea“ í einskonar litlum garðskálum sem eru verulega notalegir.

Vefsíða: firmdalehotels.com.

Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Úr safni og frá stöðum

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum