2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Frábærar og frægar ostabúðir í París

Þótt París sé oftast kölluð borg elskenda sjá sumir hana meira fyrir sér sem borg sælkera enda gómsætar kræsingar nánast á hverju götuhorni. Hér eru til að mynda nokkrar fyrirtaks ostabúðir sem tilvalið er að kíkja í ef til stendur að lyfta sér upp í skammdeginu og gera sér ferð til Parísar.

 

Charles de Gaulle hershöfðingi sagði einu sinni: „Comment voulez-vous gouverner un pays où il existe 258 variétés de framage?“ sem þýðir, hvernig er hægt að stjórna landi sem er með 258 tegundir af ostum? Eflaust hefði De Gaulle fallist hendur hefði hann vitað að tegundirnar yrðu u.þ.b. 1.200 árið 2019, þegar allt er talið. Af þessum gríðarlega fjölda eru þó einungis 45 tegundir með einkaleyfi og 9 eru með svokallað svæðiseinkaleyfi, en þá geta bara framleiðendur frá því landsvæði gert tilkall til að nota nafnið á svæðinu.

Þótt sérbúðir með mat eigi víða undir högg að sækja og hafi látið í minni pokann fyrir stórmörkuðum eru Frakkar enn með margar slíkar búðir og ef eitthvað er þá eru þær að verða vinsælar aftur. Mér finnst fátt skemmtilegra en að kaupa góðgæti í slíkum búðum, það er rómantískt, vörurnar eru vandaðar og spennandi og yndislegt að geta fengið persónulega fagþjónustu og ráðleggingar.

Hér bendi ég á nokkrar af bestu ostabúðum Parísarborgar, þær eru vissulega á víð og dreif en það er alveg þess virði að leggja á sig lítinn krók með fallega körfu eða taupoka og næla sér tvo, þrjá eða fjóra yndislega osta. Þeir sem hafa lítinn tíma en vilja samt kaupa góða osta og aðrar sælkeravörur geta skroppið í Galeries Lafayette Gourmet-búðina og einnig mæli ég með La Grande Épicerie de Paris en úrvalið af sælkeravörum og ostum í báðum þessum verslunum er sérlega gott en kaupið ostana samt sem áður frekar í ostaborðinu, og já, ostur á frönsku er fromage!

Androuët

AUGLÝSING


Hér er merkileg ostabúð sem hefur verið starfrækt allt frá árinu 1909 og er þekkt fyrir vel þroskaða osta hvaðanæva að í Frakklandi. Upprunalega búðin var í 9. hverfi en í dag eru þær víða, sjá vefsíðu. Sú sem er á hinni frægu markaðsgötu Mouffetard í 5. hverfi er sérlega skemmtileg en þær eru allar góðar.

Það var Henri Androuët sem hóf reksturinn en markmið hans var að bjóða Parísarbúum upp á osta frá öllum héruðum Frakklands. Prófið Brie Noir-kúaostinn frá Nanteuil, hér eru líka góðir Tomme de Savoie-ostar, svo fátt eitt sé nefnt.

Androuët.

Chez Virginie

Í þessu húsnæði hefur verið rekin ostabúð frá árinu 1900 en þessi yndislega búð var sett á laggirnar árið 1946 og er talin með þeim allra bestu í borginni og vel ferðarinnar virði en hún er í 18. hverfi, ekki langt frá Montmartre-hæðinni. Eigandi búðarinnar, hún Virginie, er einkar hjálpleg og sérlega fróð um ostana sína en hún tók við rekstrinum af föður sínum. Hér gildir að láta afgreiðslufólkið hjálpa til því úrvalið er mikið og auðvelt að fá valkvíða.

Alléosse

Hér er einstaklega góð fjölskyldurekin búð þar sem hugað er að hverju smáatriði til að ostarnir séu sem allra bestir. Í nágrenni búðarinnar eru fjórir kjallarar með réttu hita- og rakastigi fyrir hverja tegund svo það þarf kannski ekki að koma á óvart að ostarnir sem Hollande bauð Obama upp á í heimsókn hans hafi verið keyptir í Alléosse-ostabúðinni! Þessi ostabúð er svolítið öðruvísi en margar aðrar í París þar sem hún er sérlega stílhrein og öllu raðað snyrtilega og vel.

Alléosse.

Jouannault

Skemmtileg og góð ostabúð í líflegu hverfi Mýrinnar. Þjónustan er yfirleitt góð og oft hægt að fá að smakka á ostunum sem er reyndar hægt í flestum ostabúðum í borginni. Oft er boðið upp á nokkra árstíðabundna osta sem eru tilgreindir á svartri töflu, alla vega síðast þegar ég fór. Hér eru nokkuð margir góðir, t.d. Saint-Marcellin, og geitaostaúrvalið er einnig gott.

Nokkrir af þekktustu ostum Frakklands

Camembert de Normandie,
Brie de Meaux, Comté,
Reblochon, Gruyère, Emmental,
Roquefort, Tomme de Savoie,
Saint-nectaire, Cantal,
Raclette, Beaufort,
Bleu d´Auvergne, Maroilles,
Morbier.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum