2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sælkerabúðir í Bath

Bath er gríðarlega mikið sælkerasvæði og þar er hægt að fá verulega góð brauð og eins er mikið af góðum ostum frá þessu svæði.

Tilvalið er að kaupa sér brauð, osta og vín til að njóta annaðhvort á hótelherberginu, í Victoria Park eða á bökkum árinnar Avon.

The Thoughtful Bread Co
Gott verðlaunahandverksbakarí, kaffihús og bakaraskóli. Þarna er hægt að fá gæðabrauð sem allir sælkerar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Úrvalið af brauði er mjög gott, súrdeigsbrauðin eru sérlega góð en einnig var ég einstaklega hrifin af rauðrófubrauðinu þeirra. Hér er tilvalið að fara á brauðnámskeið og læra grundvallaratriði í brauðgerð á einum degi.
Vefsíða: thoughtfulbakery.co.uk.

The Bertinet Bakery
Hér er á ferðinni frábært handverksbakarí með miklu og góðu úrvali af bæði brauðum og bakkelsi. Bertinet byrjaði sem bakaraskóli en varð svo bakarí árið 2007. Hægt að fara á bakaranámskeið í Bertinet bakery fyrir áhugasama en Richard Bertinet hefur gefið út fimm vinsælar bækur um bakstur en hann er nokkuð þekktur í bakarageiranum í Bretlandi og víðar. Tvö Bertinet-bakarí eru í Bath, annað á 1 New Bond Street Place og hitt á The Vault, 2 Brunel Square.
Vefsíða: bertinet.com.

The Fine Cheese Co
Þessi ostabúð er hreint frábær en þar er hægt fá dásamlega osta sem allir eru handgerðir og frá litlum framleiðslubúum, s.s. ekkert verksmiðjuframleitt hér. Ég held að ég geti fullyrt að þarna sé hægt að fá bestu osta Bretlands. Í ostabúðinni er rekið kaffihús og því hægt að gæða sér á mörgum ostanna á staðnum en einnig er hægt að kaupa þá og taka með sér heim. Yndisleg búð sem enginn sælkeri ætti að láta fram hjá sér fara.
Vefsíða: finecheese.co.uk.

AUGLÝSING


Paxton & Whitfield
Ein elsta ostabúð í Bretlandi sem er reyndar staðsett í London líka en þau eru með útibú í Bath, á 1 John Street. Þarna er mikið úrval af frábærum gæðaostum en einnig er hægt að kaupa ýmsar aðrar sælkeravörur, eins og vín, kex, kökur og mauk. www.paxtonandwhitfield.co.uk

Kitchen Cookshop
Það er ekki hægt að fjalla um matarmenninguna í Bath nema nefna þessa frábæru kokkabúð sem er á þremur hæðum. Þarna er hægt að fá allt milli himins og jarðar í eldhúsið: hnífa, kaffivélar, kökuform, svuntur og allt þar á milli. Búðin gengur um þessar mundir í gegnum breytingar og er lokuð en mun opna aftur seinna á árinu undir öðru nafni sem enn hefur ekki verið gefið upp. Kitchen Cookshop er á 5 Quiet Street.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum