2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fjölbreyttar og fróðlegar

Metnaðarfullum sælkerum finnst fátt skemmtilegra en að eignast góða matreiðslubók og hér bendi ég á nokkrar áhugaverðar og vandaðar bækur sem eru á óskalistanum okkar hér á Gestgjafanum. Sumar bókanna fást í Eymundsson en allar er hægt að panta á Netinu.

NOTHING FANCY – THE ART OF HAVING PEOPLE OVER

Alison Roman

Einstaklega góð bók sem margir matarnördar hafa beðið eftir. Alison Roman er mögum kunn enda skrifar hún fyrir ýmis þekkt tímarit en hún gaf einnig út bókina Dining in. Bókin hefur verið tilnefnd sem besta bók haustsins af Food & Wine, Vogue, The New York Times, Formges og Bon Appétit svo eitthvað sé nefnt. Nothing Fancy hefur að geyma fjöldann allan af uppskriftum sem henta fyrir afslöppuð og hversdagsleg matarboð. Mjög nútímaleg og góð bók fyrir þá sem þykir gaman að bjóða fólki í mat án þess að það sé of formlegt eða flókið.

AUGLÝSING


DISHOOM

Shamil Thakrar, Kavi Thakrar og Naved Nasir

Indverskur matur hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi og því ekki úr vegi að banda á eina frábæra indverska matreiðslubók sem er reyndar í senn unaður fyrir augað því hún er full af lifandi og skemmtilegum myndum frá Mumbai. Bókin er byggð upp út frá degi í borginni, svo hér gefur að líta morgunmat, miðmorgunverðarhressingu, hádegisrétti, kvöldverði og kvöldsnarl svo fátt eitt sé nefnt. Bókin er gefin út af hinum vinsæla veitingastað Dishoom en fyrsti slíki staðurinn var opnaður í Coven Garden árið 2010 en hann þykir með þeim betri á sínu sviði í Bretlandi.

WHEN PIES FLY

Cathy Barrow

Fátt er skemmtilegra en að baka góða böku, hvort sem hún er sæt eða ósæt. Bökuuppskriftir þurfa að vera nákvæmar og góðar og því miður eru þær ekki allar þannig en When Pies Fly er einstaklega vel gerð bók með nákvæmum útskýringum um deigið, undirstöðuatriðið í öllum bökum. Hér eru allskonar bökur, gallettes, tartes og philo-deig svo fátt eitt sé nefnt. Mælieiningarnar í bókinni eru amerískar þar sem hún er gefin út í Bandaríkjunum en henni fylgir tafla til að umreikna í evrópskar mælieiningar.

WOK ON – DELICIOUSLY BALANCED MEALS IN 30 MINUTES OR LESS

Ching-He Huang

Nútímaleg og aðgengileg bók þar sem wok-pannan er í aðalhlutverki. Uppskriftirnar eru ferskar, fljótlegar og fjölbreyttar þar sem matagerð frá ýmsum löndum í Asíu kemur við sögu og mætti nefna rétti frá Hong Kong, Malasíu, Taívan og Víetnam. Bókin er bæði notendavæn og aðgengileg með ýmsum fróðleik. Margar uppskriftanna innihalda mikið af grænmeti og því ættu grænkerar að finna eitthvað við sitt hæfi.

THE JEWISH COOKBOOK

Leah Koenig

Miðausturlenskt og Miðjarðarhafsmataræði hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár með Ottolenghi í fararbroddi. Þessi bók er einstaklega efnismikil en hún hefur að geyma yfir 400 uppskriftir sem endurspegla fjölbreytileikann í matargerð gyðinga um víða veröld og sýnir hvernig búseta á mismunandi svæðum í heiminum hafði áhrif á matargerð þeirra. Vel má sjá áhrif frá Mið-Austurlöndum, Afríku, Asíu, Ameríku og Evrópu í sumum uppskriftunum. Bókin er einstaklega aðgengileg og stílhrein.

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum