London – fjórir góðir og ódýrir staðir í Marylebone

Deila

- Auglýsing -

Hér er mælt með fjórum áhugaverðum og ódýrum stöðum í hinu skemmtilega Marylebone-hverfi sem er fyrir norðan Oxford-stræti.

Delamina (mynd að ofan)
Sérlega skemmtilegur staður rétt fyrir aftan St. Chrisopher´s Place í lítilli hliðargötu að nafni Marylebone Lane. Bjartur og skemmtilegur staður sem er yfirleitt troðfullur, sérstaklega í hádeginu enda vinsæll af hverfisbúum.

Matargerðin er í Miðjarðarhafs- og Mið-Austurlandastíl, eða allt frá Ítalíu til Ísraels. Gott úrval á matseðli og sérlega gaman að deila réttum og ekki spillir fyrir að maturinn er afar hollur. Munið að betra er að panta borð.
Vefsíða: delaminamarylebone.co.uk.

La Fromagerie er ostagerð og verslun með ýmiss konar sælkeravöru, búsáhöld og svo er gott kaffihús inni í búðinni.

La fromagerie
La Fromagerie er franska og þýðir ostagerðin, hér er þó meira en bara ostagerð á ferðinni því La Fromagerie er einnig verslun með ýmiss konar sælkeravöru, búsáhöld og svo er gott kaffihús inni í búðinni þar sem hægt er að gæða sér á góðum og einföldum réttum allan daginn en þarna er allt gert frá grunni úr gæðahráefni.

Þegar komið er að staðnum minnir inngangurinn einna helst á hlöðu eða port en stemningin er afar afslöppuð og tilgerðarlaus. Það er vel þess virði að fara inn í ostaherbergið, sem er vel afmarkað með gleri, og kaupa sér nokkra sælkeraosta til að taka með heim til Íslands eða bara til að njóta uppi á hótelherbergi. La fromagerie er á 2-6 Moxon Street.
Vefsíða: lafromagerie.co.uk.

Sælkerar ættu ekki að láta Sourced market framhjá sér fara.

Sourced market
Þessi staður býður upp á úrval af sælkerasamlokum og sætabrauði og þarna er hægt að fá gott kaffi bæði til að taka með eða drekka á staðnum. Einnig er hægt að kaupa ýmislegt gott fyrir sælkera, bæði ferskvöru, drykki, osta og ólífur svo fátt eitt sé nefnt.

Staðurinn er skemmtilega innréttaður og tilvalið að hoppa inn á hann í hádeginu til að hvíla sig frá skarkala Oxford-strætis en hann er einmitt staðsettur rétt fyrir aftan það eða á horni Wigmore Street og Marylebone Lane.
Vefsíða: sourcedmarket.com.

Daylesford
Sennilega er Daylesford ein þekktasta bændaverslunin á Englandi en hráefnið og vörurnar koma frá búgörðum Daylesford í Cotswolds og Staffordshire. Þar hefur verið stunduð sjálfbær lífræn ræktun í yfir 35 ár en Daylesford framleiðir brauð og bakkelsi, kjötvörur og fisk, osta og mjólkurvörur; vín, drykki og sultur ásamt ýmsum öðrum spennandi vörum.

Á Daylesford-búgörðunum er hægt að gista og fara á matreiðslunámskeið fyrir áhugasama. Lítil sælkeraverslun frá Daylesford er í Marylebone-hverfinu en þar er hægt að kaupa ýmsar sælkeravörur, gæða sér á kaffi og einnig er hægt að og kaupa tilbúna rétti. Daylesford í Marylebone er staðsett á 6-8 Blandford Street.
Vefsíða: www.daylesford.com.

Ferðamáti:
WOW air flýgur til London allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum frá 5.499 kr.

 

- Advertisement -

Athugasemdir