2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

London – óþrjótandi uppspretta fyrir sælkera

Matsölustaðirnir í London eru óteljandi allt frá litlum ódýrum upp í Michelinstjörnustaði og allt þar á milli.

London er sennilega sú borg sem hefur notið hvað mestra vinsælda meðal íslenskra ferðalanga í gegnum tíðina og gerir enn. Engan þarf að undra því borgin hefur upp á margt að bjóða, áhugaverð söfn, leikhús, frábærar verslanir, fallega garða og byggingar og síðast en ekki síst er borgin ævintýraland fyrir sælkera.

Í raun er mesti höfuðverkurinn að velja góða staði við hæfi og smekk þegar skroppið er yfir hafið í þriggja til fjögurra nótta ferð eins og vinsælt er meðal landans. Ég ákvað því að afmarka mig og velja eitt hverfi til að borða í og stúdera. Fyrir valinu varð hið notalega og heimilislega Marylebone-hverfi.

Á Roux er þjónustan er eins og hún gerist best, hellt í glösin og gætt að öllum smáatriðum, vínlistinn er spennandi fyrir vínáhugafólk.

ROUX AT THE LANDAU
Þetta er staður fyrir þá sem vilja hefðbundna klassíska gæðamatargerð í dásamlegu umhverfi. Staðurinn er á hinu fallega 5 stjörnu hóteli The Langham sem staðsett er á 1C Portland Place í Marylebone. Hér er fólk snyrtilegt til fara, falleg blóm prýða borðin sem eru með hvítum stífuðum dúkum og allur borðbúnaður er ekta, ég mæli með borði við gluggann innst í salnum. Matargerðin er sambland af franskri og breskri matargerð og framsetningin er einstaklega falleg. Þjónustan er eins og hún gerist best, hellt í glösin og gætt að öllum smáatriðum, vínlistinn er spennandi fyrir vínáhugafólk. Roux at the Landau er fremur dýr en oft er ódýrara að fara út að borða á fína staði í hádeginu því margir þeirra bjóða upp á tilbúna matseðla „set menu“. Þetta er staður sem gaman er að fara á við sérstök tilefni en nauðsynlegt er að panta borð, hægt er að gera það í gegnum vefsíðu þeirra.
Vefsíða rouxatthelandau.com.

AUGLÝSING


_______________________________________________________________

Royal China Club er þekktur fyrir gott dim sum og því er vissara að panta borð, sérstaklega um helgar.

ROYAL CHINA CLUB
Þessi kínverski staður er vinsæll meðal Kínverja sem búa í London og segir það ýmislegt um staðinn sem lætur ekki mikið yfir sér að utan en að innan er hann fallega viðarskreyttur og hlýlegur. Royal China Club er þekktur fyrir gott dim sum (kínverskir smáréttir) og því er vissara að panta borð, sérstaklega um helgar. Matseð­illinn er stór svo úrvalið er mikið eins og oft á kínverskum stöðum en það kemur ekki niður á gæðum matarins sem eru mjög góð ég mæli t.d. með önd í pönnuköku eða „Classic Crispy Aromatic Duck“. Í sömu keðju á sömu götu er annar staður sem heitir Royal China, hann er einnig góður en ekki eins góður að mínu mati, svo passið ykkur að rugla þeim ekki saman. Royal China Club er á 40-42 Baker Street.
Vefsíða theroyalchina.co.uk.

_______________________________________________________________

Þetta er fallegur og hlýlegur staður
þar sem vínflöskum er raðað upp um alla veggi.

SOCIAL WINE & TAPAS
Tapasstaðir njóta víða vinsælda enda fátt skemmtilegra en að borða smárétti og dreypa á góðu víni og af þeim er af nægu að taka enda vínúrvalið breitt og spennandi. Þetta er fallegur og hlýlegur staður þar sem vínflöskum er raðað upp um alla veggi. Eldhúsið er opið og gaman að sitja á barnum og horfa á kokkana töfra fram hvern smáréttinn á fætur öðrum á meðan sötrað er úr vínglasinu. Ég smakkaði 7 rétti sem voru allir góðir en ég var sérstaklega hrifin af grilluðu þistilhjörtunum og bakaða jólasalatinu. Þetta er tilvalinn staður að skjótast inn á í hádeginu en hann er líka skemmtilegur að kvöldi. Staðurinn er á 39 James Street rétt fyrir norðan Oxford Street við hlið Christopher Place.
Vefsíða socialwineandtapas.com.

_______________________________________________________________

Chiltern Firehouse sem einnig er
lúxus hótel er staðsett í afar fallegri byggingu á 1 Chiltern Street.

CHILTERN FIREHOUSE
Chiltern Firehouse er með heitari veitingastöðum Lundúnaborgar enda margt frægt fólk sem sækir
staðinn, svo ef þig langar að hitta Tom Cruise, David Beckham, Emmu Watson eða Nigellu Lawson
þá gæti þetta einmitt verið staðurinn fyrir þig! Umhverfið á Chiltern Firehouse er skemmtilegt,
allt bjart og ljóst, innréttingarnar eru hvítmálaðar og ljós viður með brúnum marmara eins og t.d. á barnum sem tóna vel við ljósa litinn. Eldhúsið er opið og gaman að fylgjast með kokkunum. Ég hafði svolítið á tilfinningunni eins og ég væri í lokuðum fínum klúbbi enda ekki hlaupið að því að fá borð. Hér er ekki hverjum sem er hleypt inn svo vissara er að panta borð með góðum fyrirvara og vera fínn til fara. Maturinn er góður en svolítið dýr miðað við það sem þú færð, þetta er staður sem þú ferð á meira upp á stemninguna en ostrurnar eru góðar. Á þennan stað er líka tilvalið að koma og fá sér góðan drykk á undan eða eftir mat. Chiltern Firehouse sem einnig er lúxus hótel er staðsett í afar fallegri byggingu á 1 Chiltern Street.
Vefsíða chilternfirehouse.com.

_______________________________________________________________

Indverskur matur er saðsamur og það á líka við um matinn á Trishna svo ágætt er að passa sig að panta ekki of mikið.

TRISHNA – INDVERKUR MEÐ MICHELIN-STJÖRNU
Sjaldgæft er að asískir staðir fái Michelin-stjörnu en Trishna er einmitt með eina slíka og því vakti hann forvitni mína. Staðurinn kúrir í rólegri hliðargötu út frá Thayer Street, hann er fremur lítill, huggulegur og afslappaður en það er svolítill asi í þjónustunni. Maturinn var afar góður en ekkert sérlega sterkur á indverskan mælikvarða. Mikið af nýju og spennandi hráefni og aðrir bragðtónar en af flestum indverskum mat sem ég hef smakkað, það skýrist af því, samkvæmt þjóninum, að eldamennskan er frá suðurströnd Indlands. Indverskur matur er saðsamur og það á líka við um matinn á Trishna svo ágætt er að passa sig að panta ekki of mikið. Ég mæli sannarlega með Trishna en þetta er eftirsóttur staður svo miklvægt er að panta borð í tíma, jafnvel áður en haldið er að heiman. Trishna er á 15-17 Blandford Street.
Vefsíða trishnalondon.com.

_______________________________________________________________

Á The Ivy Café er maturinn í anda klassískrar brasserímatargerðar, einfaldur, fín hráefni og þjónustan góð.

THE IVY CAFÉ
The Ivy í Covent Garden er með þekktari matsölustöðunum í London en hann var stofnaður árið 1917 og við munum fjalla um hann síðar en í sömu keðju er The Ivy Café sem einmitt er staðsettur í Marylebone. Sá staður er mun afslappaðri og ekki eins fínn og The Ivy og vel þess virði að borða á. Ég var hrifnust af umgjörðinni og útlitinu á þessum stað, það er óskaplega notalegt að borða á The Ivy Café og stemningin er afslöppuð, elegant og töff. Veggirnir eru djúpljósbláir, kúlulaga ljós í Art Deco stíl hanga niður úr loftunum, vínrauðir bekkir með stífuðum hvítum dúkum og fallegur bar setja svip sinn á staðinn. Tilfinningin á The Ivy Café var svolítið eins og ég væri á frönsku Parísarbrasseríi árið 1930, verulega skemmtilegt umhverfi. Maturinn var líka í anda klassískrar brasserímatargerðar, einfaldur, fín hráefni og þjónustan góð. Á þessum stað var eftirrétturinn eftirminnilegastur, flamberuð eplakaka með ís! Hér er hægt að detta inn allan daginn, þeir bjóða upp á morgunmat, hábít, hádegismat, eftirmið­ dagste og kvöldmat. The Ivy Café er á 96 Marylebone Lane.
Vefsíða theivycafemarylebone.com.

_______________________________________________________________

Notalegt er að fara á Fischer’s hvort sem er í morgunmat, hádegismat, kvöldmat eða bara til að fá sér gott kaffi og köku yfir miðjan daginn.

FISCHER’S
Þessi austuríski staður minnir á Vínarborg á fyrri huta 20. aldarinnar, hvort sem er að utan eða innan. Veggir staðarins eru þaktir gulum flísum sem tóna vel við dökkar viðarinnréttingarnar, bekkir og stólar eru klæddir með svörtu leðri, fjöldi málverka í gullrömmum setja svip sinn á Fischer’s og stór klukka trónir yfir öllu. Allt þetta gerir það að verkum að birtan á staðnum er gul og afar hlýleg. Þetta er notalegur staður sem stendur fyrir sínu, þarna er afslöppuð en góð þjónusta og matseðillinn er stór. Það er notalegt að fara á Fischer’s hvort sem er í morgunmat, hádegismat, kvöldmat eða bara til að fá sér gott kaffi og köku yfir miðjan daginn. Ég mæli með schnitzel og Kaiserschmarrn-pönnukökum. Fischer’s er á 50 Marylebone High Street og vissara er að panta borð þar sem staðurinn er vinsæll meðal íbúa í Marylebone.
Vefsíða fischers.co.uk.

Texti og myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni