Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Lostæti í næsta nágrenni – staðir sem bjóða upp á þjóðlegt góðgæti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú er hægt að nálgast á einum stað ítarlegt yfirlit yfir veitingahús, matsölustaði og kaffihús sem leggja áherslu á þjóðlega rétti og mat úr héraði. Vefsíðan Ekta vísar ferðalöngum á lostæti í næsta nágrenni.

Guðný Hilmarsdóttir, ljósmyndari, ferðaþjónustufrömuður og stofnandi Ekta.

„Þetta eru allt frá því að vera staðir sem bjóða kaffi og með því upp í mat af fínustu gerð. Þannig að þetta eru fjölbreyttir og ólíkir staðir sem eiga það þó sameiginlega að leggja áherslu á íslenska rétti og íslenskt hráefni,“ lýsir Guðný Hilmarsdóttir, ljósmyndari, ferðaþjónustufrömuður og stofnandi Ekta, nýrrar vefsíðu sem vísar ferðamönnum á matsölustaði þar sem íslensk matarmenning er í hávegum höfð.

Guðný segir að til þess að komast á lista þurfi staðirnir einfaldlega að uppfylla fyrrnefnd skilyrði. „Staðurinn þarf að bjóða rétti sem teljast þjóðlegir eða bjóða mat úr héraði til að teljast gjaldgengur. Við valið styðst ég við matseðla og reyni að heimsækja staðina þegar ég get komið því við. Hins vegar forðast ég staði sem leggja áherslur á pítsur, hamborgara og annan skyndibita, þótt inn á milli séu vissulega matsölustaðir sem bjóða slíkt í bland við hitt, þetta íslenska og þjóðlega. Þetta er ekki alveg klippt og skorið.“

„Staðir og matseðlar geta auðvitað breyst, þannig að einhverjir geta dottið út og aðrir bæst við og ég tek vel á móti ábendingum frá fólki sem finnst að tiltekinn stað vanti eða að einhver staður eigi ekki heima þarna.“

Hún tekur fram að listinn sé heldur ekki tæmandi. „Nei, hann er alls ekki meitlaður í stein. Staðir og matseðlar geta auðvitað breyst, þannig að einhverjir geta dottið út og aðrir bæst við og ég tek vel á móti ábendingum frá fólki sem finnst að tiltekinn stað vanti eða að einhver staður eigi ekki heima þarna. Þetta á að vera lifandi listi.“

Vill halda uppi heiðri íslenskrar matarmenningar

Sjálf segist Guðný vera mikil áhugamanneskja um íslenska matargerð og það hafi átt stóran þátt í því að hún opnaði Ekta. „Já, ég er mjög áhugasöm um hana og reyndar bara matarmenningu yfirleitt. Ég bjó til dæmis á Spáni í fimmtán ár og er mjög hrifin af Miðjarðarhafsmataræði en nú bý ég á Íslandi og mig langar til að halda uppi heiðri íslenskrar matarmenningar og koma henni á framfæri,“ segir hún. „Mér finnst bara mikilvægt að bæði þjóðin og ferðamenn fái að njóta hennar því hún hefur tekið jákvæðum breytingum á síðustu árum og áratugum, án þess þó að missa einkenni sín, og það er svo margt gott í boði.“

- Auglýsing -

Eins og er eru allar upplýsingar á vefnum á íslensku, en Guðný segir að þær komi einnig til með að verða á ensku þegar erlendir ferðamenn fara aftur að koma til landsins í einhverjum mæli. Innan tíðar muni svo birtast á Ekta sérstök kort sem auðveldi notendum að finna þá staði sem fjallað er um á vefsíðunni.

Hugmyndin kviknaði í náminu

Vefsíðan Ekta vísar ferðalöngum á lostæti í næsta nágrenni. Mynd / Fiskfélagið

En hvernig skyldi hugmyndin að síðunni hafa kviknað? „Hún byrjaði sem meistaraverkefni þegar ég lagði stund á menningarstjórnun við Bifrost,“ svarar Guðný. „Í náminu einblíndi ég mikið á menningartengda ferðaþjónustu, enda búin að starfa í þeim geira í rúman áratug, og skoðaði alls konar menningartengda þætti. Svo fór ég að grúska í alls konar gögnum um íslenska matarmenningu og smám saman rann upp fyrir mér að það var auðveldara að hafa uppi á benínstöðvum sem gera út á skyndbita en að finna staði sem bjóða upp á ósvikinn íslenskan mat. Það vantaði alveg almennilegt yfirlit yfir slíka staði.“

- Auglýsing -

Meistarverkefnið var viðskiptaáætlun fyrir Ekta Iceandic food experience og fór svo að það var valið til þátttöku í Virkjum hugvitið á vegum Íslenska ferðaklasans, atvinnuvegaráðuneytisins, Icelandic Startups, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Ferðamálastofu, sem Guðný segir að hafi verið sér mikil hvatning.

„Það var auðveldara að hafa uppi á benínstöðvum sem gera út á skyndbita en að finna staði sem bjóða upp á ósvikinn íslenskan mat.“

Vefsíðan var níu mánuði í vinnslu, eða sem samvarar einni meðgöngu eins og hún orðar það, og ekki gekk átakalaust fyrir sig að koma henni í loftið. „Satt besta að segja kom mér á óvart hversu erfitt var að fá svör frá eigendum og rekstraraðilum staðanna. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað séríslenskt dæmi, en það tók alveg tíma að hafa uppi á fólki og fá viðbrögð, þannig að það var svolítil vinna í kringum þetta. Ég tek þó fram að auðvitað á það alls ekki við alla, sumir tóku strax við sér og voru mjög jákvæðir fyrir þessu.“

Þurfum öll að hjálpast að

Guðný getur þess að kórónuveirufaraldurinn hafi líka sett strik í reikninginn. „Upphaflega hugmyndin með vefsíðunni var til dæmis að skapa verkefni sem ég gæti ekki endilega lifað af en haft smá tekjur af með samstarfi við veitingastaði og aðra staði sem uppfylla þessi áðurnefndu skilyrði. En í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem er komin upp innan ferðaþjónustunnar og veitingageirans á Íslandi vegna COVID-19 ákvað ég að fara af stað án þess að rukka þá staði, sem er getið á vefsíðunni. Þannig ætla ég að hafa það fyrst um sinn. Svo sjáum við bara til hvernig ég útfæri þann hluta þegar aftur fer að birta til í samfélaginu. Eins og staðan er þurfum við öll að hjálpast að þar til við komumst út úr þessu ástandi.“

Nánar á ektaiceland.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -