„Maður „dassar“ ekki mikið í læknisfræðinni“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Við fengum nokkra lækna til að segja okkur frá jólahefðum í fjölskyldunni og gefa okkur uppskriftir að uppáhaldsjólaréttunum í jólablað Gestgjafans. Freyr Rúnarsson, sérfræðingur í heimilislækningum, er einn þeirra. Hann slakar á í eldhúsinu eftir erfiðar vaktir. Fyrir nokkrum árum fór hann að fikta við matargerð af einhverju viti. Hann hefur gaman af áskorunum í matargerð.

„Ég hafði lengi vel ekki mikla trú á mér í eldhúsinu en fyrir þremur til fjórum árum fór ég að fikta við matargerð af einhverju viti. Sigrún konan mín sá að mestu leyti um þetta en ég stöku sinnum svona til hátíðabrigða og lagði þá allt í rúst í eldhúsinu. Þetta byrjaði, held ég, þannig að ég fór að apa eftir réttum sem ég sá fólk elda í matarþáttum eins og Masterchef. Ég horfði á menn eins og Gordon Ramsay eða einhvern keppanda elda girnilega rétti og langaði til að prófa sjálfur. Ég hef dálítið gaman af áskorunum, t.d. elda ég ekki mikið það sama,“ segir Freyr.

Freyr hefur einnig mikinn áhuga á bjór og pörun hans við mat og því snýst matseld hans oft um það. En einnig tekur hann mikið af myndum af mat og drykk. Hann heldur úti vefsíðu sem heitir www.bjorogmatur.com sem gengur út á þetta.

„Ég hef mikið dálæti á að kynna víðáttumikinn heim bjórsins og skoða hvernig bjór getur breytt frábærum rétti og töfrað fram eitthvað nýtt og svo öfugt.“

„Í eldhúsinu gerist ekkert svakalegt þótt ég gleymi einhverju hráefni…“

Freyr svarar því til þegar hann er spurður hvort líkja mætti eldamennsku að einhverju leyti við læknisstarfið að líklega mætti sjá einhverja líkingu þar á milli.

„Mér líður best þegar ég get farið eftir uppskriftum þegar ég elda, vinnan er nákvæmisvinna, skammtastærðir og ýmsir verkferlar eru eitthvað sem maður víkur ekki mikið frá í vinnunni. Maður „dassar“ ekki mikið í læknisfræðinni. Þannig að þarna sé ég eitthvað sameiginlegt með vinnu og eldamennsku. Aftur á móti þarf ég 100% einbeitingu í vinnunni og það fer mikil orka í að passa að gera allt rétt og gleyma engu. Í eldhúsinu gerist ekkert svakalegt þótt ég gleymi einhverju hráefni eða sósan sjóði upp úr. Ég finn það líka að þegar ég elda er athyglin alls ekki eins mikil, líklega fæ ég bara ansi góða heilahvíld við þau störf, þannig að því leyti er þetta tvennt alveg ólíkt, læknisfræðin og eldamennskan.“

Fjölskyldan er ekki vön að hafa það sama í matinn á aðfangadagskvöld og þetta árið varð
fyrir valinu lambakórónur eldaðar í anda Gordon Ramsay og í forrétt verður grafinn urriði með ostafyllingu og jólagæsabringa. Freyr var svo góður að deila þessum uppskriftum með okkur lesendum. Við mælum með að þú nælir þér í jólablað Gestgjafans til að nálgast uppskriftirnar.

Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir
Mynd / Hákon Davíð

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -