Matarmikil minsestrone-súpa sem gefur yl í kroppinn

Deila

- Auglýsing -

Þessi árstími býður upp á mat sem gefur yl í kroppinn og hvað er betra en einmitt matarmiklar súpur sem bornar eru fram með heitu nýbökuðu brauði. Hér kemur ein góð.

 

Minsestrone-súpa
fyrir 8

4 sneiðar beikon, skorið í litla bita (má sleppa)
2 rauðlaukar, afhýddir og saxaðir smátt
2 hvítlauksgeirar, afhýddir og saxaðir smátt
2 gulrætur, afhýddar og skornar í um 1 cm bita
2 sellerístönglar, skornir í um 1 cm bita
1 stk. fenníka, skorin í um 1 cm bita
½ hnefafylli basilíka, laufin tekin af og stilkarnir skornir smátt
ólífuolía
125 ml rauðvín, má nota rauðvínsedik og nota þá helmingi minna með vatni á móti
2 kúrbítar
300 g blöðrukál, ef það finnst ekki er hægt að nota grænkál eða hvítkál
800 g plómutómatar í krukku
300 g smjörbaunir í dós
800 ml grænmetissoð eða kjúklingasoð
70 g þurrt pasta, til dæmis macaroni eða gnocchi
salt
pipar
parmesanostur, til að bera fram
basilpestó, til að bera fram (má sleppa)

Hitið 2 msk. ólífuolíu í miðlungsstórum potti á meðalháum hita, steikið beikonið þar til það er orðið aðeins stökkt. Bætið skorna grænmetinu, basilíkulaufum og stilkum saman við og eldið í um 15-20 mín. eða þar til allt grænmetið hefur mýkst en er ekki byrjað að brúnast. Setjið basilíkulaufin til hliðar.

Skerið kúrbítinn í tvennt langsum á meðan grænmetið eldast í pottinum og skerið í sneiðar. Skerið kjarnann úr blöðrukálinu, ef það er notað, og skerið harða kjarnann frá laufunum, saxið síðan laufin í þunnar sneiðar og setjið til hliðar. Hellið rauðvíni saman við grænmetið í pottinum og komið upp að suðu.

Hellið plómutómötum saman við grænmetið og maukið tómatana örlítið með gaffli. Setjið kúrbítinn saman við og látið malla við væga suðu í 15 mín. Hrærið blöðrukálinu, baununum og soðinu saman við. Það er í lagi að setja safann af baununum saman við súpuna. Komið súpunni upp að suðu og hellið pastanu saman við.

Sjóðið súpuna þar til pastað er soðið. Ef súpan verður of þykk er í lagi að setja örlítið meira af soði eða vatni saman við. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Setjið súpuna í skálar og berið fram með ferskum basillaufum, rifnum parmesanosti og basilpestói.

Svo er ómissandi að borða nýbakað brauð með súpunni. Hér er uppskrift að einu góðu: Geggjað gróft pottbrauð með hnetum og rúsínum

Stílisti / Bríet Ósk Guðrúnardóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

- Advertisement -

Athugasemdir