• Orðrómur

„Mest í ítalskri og indverskri matargerð“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikkona heillaði þjóðina með söng sínum á fjölum Borgarleikhússins þar sem hún fór með aðalhlutverið í leiksýningunni um hina ástsælu söngkonu Elly Vilhjálms en sýningum lauk fyrir skömmu. Katrín segist eflaust hafa orðið kokkur ef hún hefði ekki farið í söng- og leiklistarnám en hún er mikill sælkeri, áhugamanneskja um mat og finnst gaman að bjóða fólki í mat og læra nýjar uppskriftir.

 

Hver er þín fyrsta matarminning?

„Ég man eftir ofboðslega góðu lasagna sem mamma gerði alltaf fyrir fjölskylduna.“

- Auglýsing -

Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað?

„Svikinn héri. Þá vondu ofnkássu sem ég skil ekki hver fann upp á eða hverjum finnst góð.“

Hver er uppáhaldsmatargerðin þín?

- Auglýsing -

„Ég er með mjög fjölbreyttan alþjóðlegan smekk en ætli ég sé ekki mest í ítalskri og indverskri matargerð.

Hver er uppáhaldseldhúsgræjan þín?

„Ég er eldhúsgræjusjúk og á svo mikið af eldhúsgræjum að ég gæti í alvörunni opnað iðnaðareldhús heima. Ég get ómögulega valið á milli Vitamix-blandarans, Magimix-matvinnsluvélarinnar, KitchenAid-hrærivélarinnar eða Excalibur-þurrkofnsins. Allt saman mikið notað.“

- Auglýsing -

Hvaða tónlist seturðu á fóninn með góðri máltíð?

„Ég set oftast einhverja góða jazz-plötu á fóninn í matarboðum.“

Uppáhaldsmaturinn þinn?

„Ég elska andabringu, hvort sem hún er elduð eða í salati. Hún er það besta sem ég fæ.“

Hvaða þrjú hráefni tækirðu með þér á eyðieyju?

„Súkkulaði, sæta kartöflu, rjóma og kóríander … úbbs, fjögur.“

Hvað er alltaf til í eldhúsinu þínu?

„Ég á alltaf til möndlur og döðlur.“

Hvaða mat myndirðu elda fyrir leikstjóra sem þú ætlaðir að ganga í augun á?

„Ég myndi elda pestófylltar kjúklingabringur með sætkartöflumús og hafa heimagerðan ís í eftirrétt.“

Hvað er oftast í matinn hjá þér á virkum dögum?

„Ég er mikið með kjúkling í minni eldamennsku, hvort sem hann er í súpum, ofnréttum eða salati. Mér finnst gaman að prófa nýjar uppskriftir.“

Er eitthvað sem pirrar þig við matarmenningu landans? „Já, mér finnst of mikið um unnar kjötvörur. Ég kaupi þær ekki og borða helst ekki, fæ eiginlega bara brjóstsviða af þeim.“

Hver er fyrirmynd þín í eldhúsinu?

„Mamma er mín stærsta fyrirmynd, hún er alveg ótrúlegur kokkur, galdrar fram þvílíkar veislur með annarri hendi. Hrefna mágkona mín er algjör dúndurkokkur og ég myndi segja að ég sé blanda af þeim báðum í minni eldamennsku. Ég tek það besta frá báðum og þá er útkoman ekkert slor.“

Hvað finnst þér gott að borða eftir leiksýningar?

„Ég fæ mér stundum skyr, eitthvað létt þar sem klukkan er orðin svo margt og ekki gott að fara í háttinn með fullan maga.“

Er eitthvað sem þú borðar alls ekki?

„Já, ég borða alls ekki bjúgu og alls ekki rækjur.“

Hefurðu einhvern tíma þurft að borða á leiksviðinu, ef svo er hvað var það?

„Já, þegar ég lék Dollí í Djöflaeyjunni í Þjóðleikhúsinu átti ég að úða í mig nokkrum súkkulaði- og karamellubitum í einni senunni. Þar sem ég sá fram á að enda á því að stækka um nokkrar fatastærðir með þessu áframhaldi allan leikhúsveturinn lét ég skipta karamellunum út fyrir litla hnetubita sem litu út fyrir að vera karamellur.“

Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -