2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Minnkun á matarsóun byrjar hjá okkur

Ýmsar leiðir eru fyrir hendi til að minnka matarsóun.

Matvælaframleiðsla í heiminum í dag er mikil, stór og oft á tíðum flókin. Matvæli eru meðhöndluð í stórum vélum, þvegin, pökkuð og ferðast oft þúsundir kílómetra áður en þau enda í innkaupapokunum okkar. Talið er að 30% af þessari matvælaframleiðslu sé hent. Næstum þriðjungi af allri matvælaframleiðslu í heiminum er semsagt hent en talið að það sé um 1,3 billjónir tonna af mat á hverju ári. Það gerir allt að 45% af öllu grænmeti sem er framleitt og allt að 20% af öllu kjöti sem er framleitt.

Vandamálið liggur ekki aðeins hjá okkur sem neitendum heldur er mikið af matvælaframleiðslu hent í ferlinu sökum mistaka. Veitingahús eru einnig hluti af þessum tölum þar sem miklum matvælum er einnig hent á hverjum degi. Við sem neytendur erum hluti af þessu vandamáli en við getum líka verið hluti af lausninni.

Með því að minnka matarsóun á heimilinu erum við ekki bara að spara pening heldur erum við að taka skref í rétta átt við að hjálpa umhverfinu, jörðinni og samfélaginu okkar í heild. Hver einasta brauðsneið, kjúklingabringa og kartafla skiptir máli þegar kemur að því að sporna við því mikla vandamáli sem matarsóun er orðin. Með því að henda mat sem við kaupum erum við ekki aðeins að henda peningum í ruslið heldur einnig tímanum, orkunni og vatninu sem farið hefur í að búa til þessa matvöru. Ef við öll tileinkum okkur minni matarsóun getum við sem heild haft mikil áhrif.

Góð ráð til að minnka matarsóun á heimilinu

Skoðið magnið
Forðist stórar pakkningar og verið raunsæ með hversu mikinn mat þarf að kaupa inn fyrir vikuna. Matvörubúðir bjóða oft upp á tilboð sem virðast í fyrstu vera mjög hagstæð en þau eru ekki hagstæð ef henda þarf helmingnum af hráefninu í lok vikunnar. Planið máltíðirnar yfir vikuna en hafið þó ákveðið svigrúm fyrir óvæntum uppákomum. Mælið pasta, hrísgrjón og annað kornmeti til að koma í veg fyrir að elda of mikið.

AUGLÝSING


Skipuleggið ísskápinn
Passið að loka vel matvöru sem hefur verið opnuð eins og ost og kjötálegg. Gott er að vefja matvöru fyrst inn í smjörpappír og síðan annaðhvort í rennilásapoka eða setja í loftþétt box. Passið að hafa ísskápinn ekki opinn lengi til að koma í veg fyrir að hitastigið breytist. Með því að hafa ískápinn við rétt hitastig er hægt að koma í veg fyrir að matur skemmist en ef ísskápurinn er örlítið of heitur skemmist matur mun fyrr en ella. Það skiptir einnig máli hvar maturinn er geymdur í ísskápnum. Geymið mat sem er tilbúinn til neyslu í efstu hillunum, geymið hrátt kjöt, kjúkling og fisk í neðstu hillunni og því næst grænmeti og ávexti í grænmetisskúffunum.

Breytið uppskriftum til að nýta það sem til er
Prófið ykkur áfram með uppskriftir, það er oft hægt að breyta uppskriftum til að sníða þær að hráefninu sem til er inn í ísskáp. Notið afganga af ostum til að rífa niður og nota ofan á pasta. Frystið ofþroskaða banana og notið í hristinga eða bakstur. Gerið jógúrtsósu fremur en að láta jógúrt á síðasta snúning fara til spillis. Salatblöð virðast stundum verða út undan og eru ekki með langan líftíma. En gott er að taka þau úr plastpokunum sem þau koma oft í og setja þau í box með votum eldhúspappír undir. Harðgerð salöt er hægt að steikja til dæmis með sojaósu og hvítlauk og hafa sem meðlæti með matnum. Klettasalat er einnig frábært í pestó. Það fer betur með brauð að geyma það á þurrum stað við stofuhita frekar en að setja það inn í kæli. Síðan er gott að setja niðurskorið brauð inn í frysti strax eftir að það var keypt og skella því síðan í brauðristina beint úr frystinum. Það kemur í veg fyrir að brauðið gleymist og skemmist. Ristað gott brauð með steiktu eggi og meðlæti er einnig frábær og fljótlegur kvöldverður í miðri viku.

Frystið afganga og aukamatarinnkaup
Hafið í huga að kæla afganga eins fljótt og hægt er til að lengja líftímann á matnum og koma í veg fyrir bakteríumyndun. Borðið afganga á innan við tveimur dögum eftir að maturinn var eldaður eða frystið afgangana og afþíðið seinna. Munið bara að merkja þá. Ef þið sjáið ekki fram á að borða mat sem er að renna út, frystið hann þá. Síðan er gott að hafa í huga að neyta matarins innan við sólarhrings eftir að hann hefur verið afþíddur.
Athugið að þó að vara sé komin fram yfir síðasta söludag þá þarf hún ekki að vera ónýt, sum matvara lifir lengur ef hún hefur verið vel geymd. Mjólkurvörur er í raun hægt að nota þar til þær byrja að súrna og mjólk sem komin er yfir síðasta söludag er tilvalin í pönnuköku- og vöfflubakstur.
Frystið matarafganga en munið að merkja þá með nafni og dagsetningu. Passið að afgangarnir séu vel innpakkaðir þannig að ekki komi frostbit í matinn. Það getur verið sniðugt að skrá niður það sem fer inn í frysti þannig að matur gleymist ekki eins og vill verða. Verið meðvituð um hvað er til inni í ísskápnum og frystinum. Með því að fara í gegnum ísskápinn og frystinn í hvert sinn sem keypt er inn er hægt að koma í veg fyrir að matur gleymist sem auðveldlega væri hægt að nota. Látið frystinn vinna með ykkur. Ef keyptur er kjúklingur eða fiskur til dæmis er hægt að taka helminginn strax og setja í frystipoka ef ekki þarf að nota allt strax. Brauð, pítubrauð og tortillur er alltaf gott að eiga í frysti og sniðugt að setja strax inn í frystinn til að auka geymsluþolið. Þetta er allt hráefni sem geymist í frystinum og gott til að grípa í. Með því að vera duglegri að nýta frystinn er hægt að spara helling í matarinnkaupum.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni