Montréal – krassandi áfangastaður fyrir mataráhugafólk

Deila

- Auglýsing -

Montréal er einkar lifandi og áhugaverð borg í Québec Kanada sem er frönskumælandi hluti landsins. Þótt yfirbragðið sé að miklu leyti nútímalegt þá er skemmtilegt hvernig gamlar byggingar blandast við skýjakljúfa og framúrstefnulegar byggingar og listaverk, sér í lagi í gamla hlutanum eða vieux Montréal eins og hann kallast á máli heimamanna.

Götumaturinn er verulega spennandi fyrir matarperra og sælkera. Mynd / Micheile Henderson

Montréal er þekkt fyrir fjölbreyttar hátíðir og spennandi menningarviðburði og því mikilvægt að kynna sér vel hvað er í gangi hverju sinni áður en farið er af stað. Íbúarnir eru sérlega vinalegir og afslappaðir eins og reyndar borgin sjálf en ég heillaðist af þessari skemmtilegu blöndu af frönskum og amerískum áhrifum. Þó fannst mér áhugaverðast hversu mikið er af frábærum veitingastöðum þar sem menningarstraumar hvaðanæva af úr heiminum blandast saman við franskan fínleika og ameríska matarmenningu eins og hún gerist best. Borgin er nokkuð gömul miðað við aðrar í þessum heimshluta og fagnar í ár 377 ára afmæli.

Götumatur í Montréal – sælkeraævintýri
Íbúar borgarinnar eru afar sólgnir í götumat sem seldur er í matartrukkum sem hringsóla um borgina frá 1. apríl til 31. október og leggja hér og þar. Maturinn í þessum trukkum er einstaklega góður og spennandi en hægt er að finna eitthvað að borða frá hinum ýmsu heimshornum, þetta er verulega spennandi fyrir matarperra og sælkera. Hefð er fyrir því að bílarnir leggi fyrir utan Olympíuleikvanginn, nánar tiltekið við Esplanade Financière Sun Life, fyrsta föstudag í hverjum mánuði á þessu sjö mánaða tímabili. Á þessari vefsíðu er hægt að skoða úrvalið og finna út hvaða bílar eru hvar hverju sinni en hafið í huga að tímabilið hefst ekki fyrr en í apríl svo bílarnir eru ekki komnir inn í kerfið. www.cuisinederue.org.

3 sjóðandi heitir staðir í Montréal

Toqué
Veitingastaðurinn Toqué er afar vinsæll meðal heimamanna en hann var kosinn meðal 100 bestu veitingastaða í Kanada árið 2016 en staðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 1993. Það er hinn virti matreiðslumeistari Normand Laprise sem stýrir staðnum en hann leggur áherslu á fyrsta flokks kanadískt hráefni, helst úr nærumhverfinu, sem hann færir í frumlegan búning. Má til að mynda nefna geitaostaís sem er afar áhugaverður ef hann er enn á seðli. Úrvalið af vínum er einstaklega gott enda er vínkjallari á staðnum með um 600 tegundir svo hér ættu allir að finna vín við hæfi. Ég mæli með því að fólk prófi smakk-matseðilinn til að fá fjölbreytnina en mjög mikilvægt er að panta borð í tíma á þessum stað og ódýrara er að fara í hádeginu.
Vefsíða: restaurant-toque.com.

Le Serpent býður upp á nútímalega bistro-matargerð.
Mynd / James Brittain

Le Serpant
Hér er á ferðinni einstaklega áhugaverður og töff staður sem staðsettur er í The Darling Foundry sem er listamiðstöð þar sem er að finna listaverkstæði, stúdíó og gallerí. Skemmtilega og flotta iðnaðarútlitið á staðnum býður upp á nútímalega bistro-matargerð en þar gætir svolítið ítalskra áhrifa en einnig má finna daður við Asíu í sumum réttum. Ég mæli með risotto með humri eða með kálfakjötstartalettunum (tartalette de ris de veau au comté). Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda síðan hann opnaði árið 2013 og vissara að bóka borð en gaman er að sitja á barnum.
Vefsíða: leserpent.ca.

Hà Vieux-Montréal og Nhau bar
Hà er góður víetnamskur matsölustaður þar sem hægt er að fá fyrsta flokks mat á mjög sanngjörnu verði, gaman er að sitja við barinn en á sumrin er hægt að sitja úti. Í kjallaranum er nýlegur og afar vinsæll bar í svokölluðum speakeasy-stíl sem heitir Nhau bar en þar er hægt að fá afar fjölbreytta kokteila í sérlega fallegu, dulúðlegu og svolítið rómantísku umhverfi. Hingað verða allir barnördar að koma.
Vefsíður: restaurantha.com og restaurantha.com/nhau-bar.

Ferðamáti
WOW air flýgur til Montréal allt árið um kring. Verð frá 15.499 kr. aðra leið með sköttum.

Skemmtilegar staðreyndir
1,7 milljónir búa í borginni en 4 milljónir séu úthverfin talin með
Áætlað er að um 25 þúsund hótelherbergi séu í Montréal
Meira en 50 söfn er að finna í borginni
1/3 hluti borgarbúa talar 3 tungumál
110 hátíðir eru haldnar í Montréal
Stærsta jazz-hátíð í heimi er haldin í borginni
800 almenningslistaverk eru á svæðinu
370 matsölustaðir sem má koma með sitt eigið vín
69 matsölustaðir eru á hverjum km2
40 matarhátíðir eru haldnar á ári hverju

Aðalmynd / Sebastien Cordat

 

- Advertisement -

Athugasemdir