Morgunverður í hinni seiðandi Amsterdam

Deila

- Auglýsing -

Amsterdam er afar sjarmerandi borg sem gaman er heim að sækja enda hefur hún upp á ótal margt að bjóða fyrir alla aldurshópa. Þar er gott að versla, gaman að hjóla og svo eru söfnin ekki af verri endanum. Það eru ekki bara listasöfn í Amsterdam, hver vill t.d. ekki fara á safn um töskur og veski, tassenmuseum.nl, eða jafnvel á brúarbyggingarsafnið, hetgrachtenhuis.nl?

 

Amsterdam er sérlega afslöppuð og þægileg og í raun er hægt að komast allt fótgangandi, í sporvagni, nú eða á hjóli fyrir þá sem treysta sér út á hjólastígana. Einstaklega gaman er að sigla um síkin og horfa á gamlar hollenskar byggingarnar sem bera sögunni glöggt merki og auðvelt er að ímynda sér hvernig lífið var á blómaskeiði þessarar þjóðar. Amsterdam er mikil matarborg og þar er hægt að finna fjölbreytta og áhugaverða matsölustaði, bari og kaffihús í öllum verðflokkum og víða eru skemmtilegir matarmarkaðir. Hér bendi ég á nokkra góða og vinsæla morgunverðarstaði í hjólaborginni Amsterdam.

Morgunverðarstaðir

The Breakfast Club

The Breakfast Club

Eins og nafnið gefur til kynna þá snýst allt um morgunverð á The Breakfast Club og hann er í boði allan daginn. Réttirnir á seðlinum eru margir og fjölbreyttir en þeir eru innblásnir frá hinum ýmsu heimshornum. Hægt er að fá mexíkóska baunarétti með avókadó en einnig er boðið upp á hefðbundnari morgunverð, eins og amerískar pönnukökur, múslí og bökur, svo fátt eitt sé nefnt. Hér er notað fyrsta flokks hráefni, mest úr nærumhverfinu. The Breakfast Club er á fjórum stöðum í borginni og er opinn frá kl. 8-16 eða 18, svolítið misjafnt eftir stöðum.

Vefsíða: thebreakfastclub.nl.

Little Collins

Little Collins

Þetta er með vinsælli morgunverðarstöðunum í borginni og þarf engan að undra þar sem réttirnir eru hver öðrum betri og hægt að panta nokkra litla rétti sem hægt er að deila. Réttirnir eru innblásnir frá hinum ýmsu heimshornum og svo er hægt að skola matnum niður með spennandi morgunverðarkokteilum eða góðu tei eða kaffi. Prófið Melbourne-karamellubanana-brioche eða hleypt egg með hollandaise-sósu og grænkáli, svo dæmi séu tekin. Um helgar er ekki óalgengt að sjá langa röð yfir utan staðinn, hægt er að bóka borð en þó ekki á hvaða dögum sem er, sjá vefsíðu.

Vefsíða: littlecollins.nl.

Bakers & Roasters

Bakers & Roasters

Skemmtileg saga er á bak við tilurð þessa staðar en eigendurnir, annar frá Brasilíu og hinn frá Nýja-Sjálandi, kynntust í West Hollywood og fengu hugmyndina um að opna dag einn stað með öllu því sem þeir söknuðu frá heimalöndum sínum, eins og götumatnum, eldamennskunni frá mæðrum sínum og góða kaffinu. Þessi hugmynd varð að veruleika og þeir opnuðu Bakers & Roasters sem er staðsettur á tveimur stöðum í Amsterdam. Hér eru afar skemmtilegir og svolítið frumlegir morgunverðarréttir sem gaman er að smakka. Bakkelsið er bakað á staðnum og kaffið er alltaf með tvöföldum kaffiskotum.

Vefsíða: bakersandroasters.com.

Gs Brunch

Gs Brunch

Gs Brunch er á tveimur stöðum í Amsterdam en í rauninni má segja að hann sé á þremur því boðið er upp á brönssiglingar á síkjum borgarinnar sem er vinsælt. Lesa má um hina ýmsu matarbáta inni á vefsíðunni okkar, www.gestgjafinn.is. Gs Brunch er sennilega eini brönsbáturinn í heiminum en þeir eru einna þekktastir fyrir morgunverðardrykki á borð við Blóð-Maríu sem þeir gera afskaplega vel. Þetta er töff inn-staður sem gaman er að koma á. Á hvorugum staðnum er tekið við bókunum svo stundum þarf að bíða í röð en sé ætlunin að borða í bátnum, sem reyndar er bara hægt um helgar, verður að bóka borð.

Vefsíða: reallyniceplace.com.

Omelegg

Omelegg

Hér eru egg vissulega í aðalhlutverki eins og auðvelt er að álykta út frá nafninu, sumir segja að þetta sé besti staðurinn til að fara á með mikla timburmenn. Gott úrval er af alls konar skemmtilegum og frumlegum eggjakökum sem bornar eru fram með brauði og salati. Hægt að velja sitt eigið álegg á eggjakökuna, og einnig er hægt að fá croissant og samlokur og fleira í morgunverðaranda. Omelegg er á tveimur stöðum í borginni, sjá vefsíðu.

Vefsíða: omelegg.com.

- Advertisement -

Athugasemdir