Er betra að nota smjör eða smjörlíki í bakstur? Um þetta eru skiptar skoðanir og þessi umræða skýtur gjarnan upp kollinum í kringum jólin og smákökubakstur nær hámarki.
Smjör er náttúruleg afurð á meðan smjörlíki er unnin vara, samsett úr jurtaolíu, vatni, bindiefnum, bragðefnum og litarefnum o.fl. Þar af leiðandi er smjör viðkvæmara, það þolir t.d. ekki eins mikinn hita og smjörlíki og því vilja sumir meina að smjörlíki henti t.d. betur til steikingar þar sem brennslumark þess er hærra en smjörs.
Lengi vel var smjörlíki í flestum kökuuppskriftum, mögulega af því að það var ódýrara, en í seinni tíð hefur notkun þess minnkað til muna. Í raun og veru snýst málið um bragð og hollustu. Smjör er óneitanlega hollara og bragðbetra en smjörlíki, en þó eru sumir sem fullyrða að uppáhaldssmákakan breytist ef smjörlíkinu er skipt út fyrir smjör. Þá er um að gera að nota það sem fólk kýs frekar.
Eins má færa rök fyrir því að smjör þráni frekar en smjörlíki þannig að ef ætlunin er að geyma smákökurnar lengi getur smjörlíki hentað betur. Þetta skiptir þó ekki máli ef smákökurnar eru settar í frysti fram að jólum.
Mynd / Hallur Karlsson