Þriðjudagur 19. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Myndband – Skotheld uppskrift að hinum fullkomnu vatnsdeigsbollum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fátt er betra en heimabakaðar rjómabollur með sultu enda er bolludagurinn bara einu sinni á ári. Það eru því eflaust margir sem ætla að nota helgina til að baka svo hægt sé raða í sig bollum á sjálfan bolludaginn og kannski eitthvað aðeins lengur. Hér sýnum við í skrefum hvernig á að gera vatnsdeig með tveimur ferskum og góðum fyllingum þar sem rjómi og sulta koma við sögu.

 

Vatnsdeigsbollur

grunnuppskrift u.þ.b. 10 meðalstórar bollur eða 25 litlar bollur

250 g vatn
125 g smjör
1 tsk. salt
140 g hveiti
3-4 egg, 3 ef þau eru stór eða 4 ef þau eru lítil

Hitið ofn í 200°C. Setjið vatn og smjör í pott ásamt salti og setjið yfir miðlungsháan hita. Hrærið reglulega í pottinum, hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og látið hveitið ofan í. Hrærið saman þar til deigið verður kekkjalaust. Setjið þá aftur yfir hitann og hrærið í 1-2 mín. eða þar til deigið verður mjúkt og losnar frá börmum pottsins.

- Auglýsing -

Deigið á að vera gljáandi en ekki matt því þá er það of þurrt. Deigið er orðið passlega þurrt þegar filma myndast í botni pottsins eins og sést í myndbandinu. Látið deigið í hrærivélarskál og þeytið með spaðanum í 30 sek. til að kæla deigið. Setjið eggin út í, eitt í einu, hrærið vel á milli.

Deigið er tilbúið þegar það er slétt, gljáandi og teygjanlegt. Prófið að dýfa spaðanum ofan í deigið og tosa upp, ef það festist líkt og skegg á spaðanum þá er deigið tilbúið. Mótið bollur með tveimur skeiðum eða setjið í sprautupoka og sprautið á smjörpappírsklædda bökunarplötu, passið að hafa bil á milli.

Bakið í u.þ.b. 25 mín., ekki opna ofninn fyrstu 15 mín. Eftir fyrstu 15 mín. má taka eina köku út og setja hana á grind, ef hún fellur ekki þegar hún fer að kólna þá eru bollurnar tilbúnar.

- Auglýsing -

Vanillurjómafylling með jarðarberja- og rabarbarasultu

500 ml laktósalaus G-rjómi, mjög kaldur
50 g flórsykur
1 vanillustöng, skorin í tvennt langsum
flórsykur til að dusta yfir
jarðarberja- og rabarbarasulta frá St. Dalfour
1 askja jarðarber, skorin í sneiðar

Skafið fræin úr vanillustönginni. Setjið rjóma og flórsykur í hrærivélarskál ásamt fræjunum. Hrærið á miðlungshraða í 1-2 mín. Aukið hraðann og hrærið í 3-4 mín. eða þar til rjóminn byrjar að þykkna, þetta er hægt að gera bæði í höndunum eða í hrærivél, passið þá að ofþeyta rjómann ekki. Skerið bollurnar og setjið sultu, rjóma og jarðarber inn í bollurnar, setið toppinn á og sáldrið flórsykri yfir.

Hindberjarjómafylling með sultu og súkkulaði

200 g hindber
3 msk. flórsykur
2 dl laktósalaus G-rjómi
jarðarberja- og rabarbarasulta frá St. Dalfour

Setjið hindberin í skál og kremjið með gaffli. Þeytið rjómann með flórsykrinum og hrærið hinberin saman við.

Súkkulaðiglassúr með ljósu súkkulaði

100 g dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði, saxað
1 dl rjómi
saxaðar heslihnetur, til að sáldra yfir bollurnar

Setjið súkkulaði í skál. Hellið rjómanum í lítinn pott og hitið upp að suðumarki, hellið yfir súkkulaðið. Látið standa í nokkrar mínútur og hrærið síðan saman. Skerið bollurnar og setjið sultu, rjóma og nokkur hindber, setjið toppinn á og hellið súkkulaðinu og sáldrið heslihnetum yfir.

Matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir
Myndataka og klipping / Hákon Davíð Björnsson
Stílisering og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -