New York – bestu barirnir og skemmtileg hverfi

Deila

- Auglýsing -

New York er ein af þessum borgum sem hægt er að heimsækja mörgum sinnum og alltaf upplifa eitthvað nýtt og spennandi í hvert skipti.

Iðandi mannlíf, gulir leigubílar, stórfenglegar brýr og tignarleg háhýsi einkenna borgina sem gaman er að heimsækja allt árið um kring. New York samanstendur af mörgum hverfum sem hafa öll sín skemmtilegu sérkenni. Það er afskaplega gaman að heimsækja öll frábæru söfnin í borginni eins og Metropolitan Museum of Art og Museum of Modern Art, MOMA, og hoppa svo á næsta bar og fá sér einn Manhattan áður en skutlast er á spennandi veitingastað til að koma bragðlaukunum á óvart og enda svo á því að hverfa inn í djazzbúllu þegar nóttin færist yfir. New York er tvímælalaust borg fyrir sælkera enda er þar að finna yfir 20.000 veitingahús, fjölbreytta bari, matarmarkaði og sælkerabúðir er einnig víða að finna og þá eru ekki upptalin öll bakaríin, kaffihúsin og götubúllurnar í borginni.

________________________________________________________________

Bestu barirnir með útsýni
Center Bar
Center Bar er staðsettur á fjórðu hæð í Time Warner Center á Columbus Circle. Stórir gluggar veita útsýni á Columbus Circle, suðurhluta Central Park og háhýsin á miðhluta Manhattan. Vefsíða: centerbarnyc.com.

Bar Sixtyfive
Bar Sixtyfive er á 65. hæð í Rockerfeller-byggingunni. Útsýnið er stórkostlegt og gluggar eru til norður, suðurs og vesturs. Panta þarf fyrir fram og gott er að vita að snyrtilegur klæðnaður er skylda.
Vefsíða: rockefellercenter.com/food-and-drink/sixtyfive.

Pod Hotel Rooftop
Barinn er svokallaður „rooftop bar“ og eins og nafnið gefur til kynna er það bar sem er utandyra ofan á þaki byggingar. Barinn á hótelinu Pod 39 er efst á vernduðu 19. aldar húsi og umhverfið er einstaklega fallegt – bogagöng og múrsteinssúlur ramma inn staðinn. Ekki spillir fyrir að hægt er að panta mat frá Michelin-kokkinum April Bloomfield til að nasla með drykknum á meðan maður nýtur útsýnisins. Staðurinn er lokaður yfir vetrarmánuðina.
Vefsíða: thepodhotel.com/pod-39/pod-hotel-rooftop.

1 Rooftop
Annar „rooftop bar“ með ótrúlegu útsýni yfir Brooklyn-brúnna og suðurhluta Manhattan. Barinn er á 1 hótelinu í Brooklyn við hina frægu Brooklyn-brú. Tilvalið er að koma við á barnum á fallegum degi eftir göngutúr yfir Brooklyn-brúna. Barinn er lokaður yfir vetrarmánuðina en er opnaður strax og fer að hlýna að veðri.
Vefsíða: 1hotels.com/brooklyn-bridge/1-rooftop.

________________________________________________________________

Skemmtileg hverfi

Chelsea Market
Chelsea Market er stór matar- og verslunarmarkaður í Chelsea-hverfinu. Þar er hægt að velja um ótalmarga veitingstaði á hvaða tíma dags sem er. Þar eru einnig nokkrar góðar og skemmtilegar sérverslanir, stór fiskbúð, áhugaverð vínbúð og ein besta búsáhaldabúð borgarinnar. Markaðurinn er við Highline sem skemmtilegt er að ganga eftir að máltíð lokinni og búðarápi.
Vefsíða: chelseamarket.com.

Bændamarkaðurinn á Union Square
Markaðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 1976 en hefur stækkað ört síðan. Í dag er markaðurinn stór og einstaklega skemmtilegt að ganga milli básanna þar sem ýmiskonar varningur er til sölu en þar má meðal annars finna ferskt grænmeti, fisk, kjöt, osta, brauð, blóm og margt fleira. Markaðurinn er opinn mánudaga, miðvikudaga, föstudaga og laugardaga.

Eataly
Eataly er ítalskur markaður sem staðsettur er í Flatiron-hverfinu og í nýju World Trade Center- byggingunni neðarlega á Manhattan. Eataly blandar saman verslunum, vínbörum og veitingastöðum sem leggja öll áherslu á ítalskan mat, framleiðslu og menningu.
Vefsíða: eataly.com.

Ferðamáti
WOW air flýgur til New York allt árið um kring. Verð frá 12.499 aðra leið með sköttum.
Auðvelt er að ferðast á milli staða í New York með neðanjarðarlestakerfinu og leigubílum. Einnig virkar Uber mjög vel í borginni og er þægilegur ferðamáti.

 

- Advertisement -

Athugasemdir