2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Nokkur góð ráð til að venja börn á að borða grænmeti

Hér eru níu góð ráð sem nota má til að fá börn til að borða meira grænmeti.

 

Látið alltaf eitthvert grænmeti á diskinn hjá barninu og ekki spyrja viltu þetta eða viltu hitt, leyfið barninu frekar að velja milli tveggja tegunda og spyrjið hvort viltu, þá hefur barnið ekki möguleika á að segja nei.

Reynið að hafa magnið fremur lítið, það er betra að barnið klári enda má alltaf bæta við. Þannig lærir barnið að grænmeti er órjúfanlegur hluti af máltíðinni.

Skemmtilegt

AUGLÝSING


Raðið grænmetinu fallega á diskinn hjá barninu og búið jafnvel til andlit, dýr eða eitthvað sem listrænir hæfileikar ykkar leyfa.

Látið barnið taka þátt í undirbúningnum, t.d. með því að setja salatið eða tómatana í salatskálina. Eldri börn geta skorið niður t.d. agúrku eða papriku. Látið barnið hjálpa til við innkaupin á grænmetinu í búðinni og leyfið því t.d. að hafa litla körfu sjálft.

Verið góð fyrirmynd! Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Hafið það fyrir reglu að láta barnið alltaf smakka eitthvert grænmeti í hverri máltíð jafnvel þó að þau hafi oft smakkað grænmetið áður. Gerið smökkunina skemmtilega og sjáfsagða.

Ekki pína barnið

Aldrei pína barnið til að klára, frekar að fá það til að taka einn eða tvo bita til viðbótar. Margir eiga ömurlegar minningar um mat sem var þvingaður ofan í þá í æsku.

Hrósið og hrósið! Þó bara þegar barnið á það skilið. Það má líka hrósa utan máltíða t.d. þegar talað er við tengdó í símann og barnið heyrir: „Já, hann Davíð er svo duglegur að borða grænmeti.“

Tölum við barnið

Gerið máltíðina skemmtilega, ræðið um mat og mikilvægi hans um leið og börnin hafa þroska til og skilning. Segið skemmtilegar matarsögur um grænmeti, t.d. eitthvað sem þið upplifðuð í æsku, eitthvað jákvætt og uppbyggilegt, jafnvel fyndið. Ræðið um uppáhaldsgrænmeti ykkar og spyrjið börnin hvert sé uppáhaldið þeirra.

Gerið grænmeti aðlaðandi, notið smjör og ost á grænmetið, flest börn eru hrifin af smjöri og osti og ef þetta hráefni er sett á soðið grænmeti bráðnar t.d. smjörið og gerir grænmetið bæði fallegra og bragðmeira.

Ekki gefast upp, þetta er langhlaup og sum börn eru vissulega erfiðari en önnur. Ef mjög illa gengur og barnið virðist innbyrða of lítið grænmeti þá er tilvalið að fela grænmetið í matnum, t.d. með því að elda grænmetisbuff, rífa niður grænmeti út í heimabakað brauð og einnig má t.d. rífa niður grænmeti og setja saman við kjöt- og fiskibollur.

Lestu meira

Annað áhugavert efni