2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Nokkurs konar frönsk útgáfa af „naglasúpu“

Hin franska Julie Coadou hefur búið á Íslandi í fjölda ára. Upphaflega kom hún hingað í nám en það æxlaðist þannig að hana langaði að fara eitthvað erlendis til að skrifa masters-ritgerðina en vissi ekki hvert. Hún opnaði því heimskort og lokaði augunum og setti puttann á kortið og þegar hún opnaði augun hafði fingurinn lent í Atlandshafinu en þar var Ísland næst svo hún valdi það.

 

Síðar kynnist hún eiginmanni sínum, Árna Frey Stefánssyni, sem vinnur í samgönguráðuneytinu og saman eiga þau tvö börn. Julie sagði okkur skemmtilega sögu um hvernig rétturinn sem hún gefur okkur uppskrift að varð til.

„Ég dvaldi nánast öll sumur á Korsíku í minni æsku og pabbi var vanur að koma alltaf með fisk heim í hádeginu sem mamma eldaði nema að einn daginn var engan fisk að fá á höfninni og þá voru góð ráð dýr því allar búðir voru lokaðar í hádeginu á milli 12 og 14. Mamma reyndi að tína allt sem til var í skápunum og við áttum litla flís af kálfakjöti, púrrulauk, smjör og hvítvín.

Mamma nýtti þetta hráefni og útkoman varð svo góð að við erum enn að elda réttinn í dag. Ég hef aðeins breytt honum, enda var hann gerður úr hvítvíni frá Korsíku sem er fremur sætt og þess vegna bætti ég til dæmis við hunanginu.“

AUGLÝSING


Kálfakjöt á la Korsíka. Mynd/Hallur Karlsson

Kálfakjöt á la Korsíka

fyrir 4-5

750 g kálfalund (u.þ.b. 150 g á mann)
4 blaðlaukar, skolaðir og skornir smátt
1 hvítvínsflaska, t.d. chardonnay
u.þ.b. 2 msk. ósaltað smjör og meira ef vill
½ msk. bragðlítil olía
1-2 msk. hunang
sjávarsalt
nýmalaður pipar

Látið 1 msk. af smjöri í djúpan þykkbotna pott og stillið á háan hita og bætið nokkrum dropum af olíu saman við svo smjörið brenni ekki. Saltið kálfalundina og kryddið með pipar og brúnið á öllum hliðum.

Takið lundina úr pottinum og látið hvíla. Látið 1 msk. af smjöri í pottinn sem lundin var steikt í og alls ekki þrífa á milli. Steikið blaðlaukinn þar til hann er mjúkur og bragðbætið með pipar og salti. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur, bætið þá hunanginu saman við. Skerið lundina í 2 cm þykkar sneiðar og bætið út í pottinn. Hellið hvítvíninu í pottinn og látið suðuna koma upp svo áfengið gufi upp, u.þ.b. 4-5 mín.

Lækkið hitann og bætið við smjöri ef vill (það er aldrei of mikið smjör), setjið lokið á og sjóðið við vægan hita í 45 mín. Mér finnst gott að mauka aðeins sósuna með töfrasprota til að fá þykkari áferð. Berið fram með hrísgrjónum og grænmeti, t.d. gulrótum og brokkólí en ekki neinu súru eins og tómötum.

Þessi réttur er eiginlega betri hitaður upp daginn eftir en hann má líka laga fyrr um daginn og hita upp um kvöldið.

Sjá einnig: „Frönsk matargerð þarf alls ekki að vera flókin“

Lestu meira

Annað áhugavert efni