Notalegur kjúklingapottréttur á fínlegum nótum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Pottréttir eru afar notalegir á þessum árstíma þegar dimmt og kalt er í veðri. Það er því tilvalið að láta góðan pottrétt malla á eldavélarhellunni á meðan við kúrum undir teppi og lesum góða bók.

Pottréttir eru líka frábærir daginn eftir að þeir hafa verið eldaðir og því mæli ég oft með að fólk geri stóra skammta og ekki spillir fyrir að þeir eru jafnvel betri daginn eftir. Fyrst þegar ég gerði þennan klassíska rétt coq au vin eða kjúkling í víni notaði ég alltaf rauðvín en þannig er þessi réttur oftast gerður en í dag finnst mér líka gaman að nota hvítvín og gera réttinn með svolítið nýju tvisti. Margir eru hræddir við að nota svona mikið vín í mat en það er óþarfi þar sem alkóhólið gufar allt upp í eldamennskunni. Þó að þessi uppskrift flokkist undir svokallaðan „comfort food“ sem við höfum ýmist þýtt sem notalegan mat eða vetrarmat þá er hann samt afar fínlegur og því tilvalinn í vetrarleg matarboð. Ég mæli alltaf með að fólk smakki matinn til og bragðbæti eftir smekk, þannig tryggjum við bestu útkomuna.

Coq au vin blanc með fáfnisgrasi
fyrir 4-6
1 askja blandaðir kjúklingabitar á beini (u.þ.b. 2 kg)
1 msk. paprikuduft
Maldon-salt
svartur nýmalaður pipar
5 msk. ólífuolía
3 skalotlaukar, saxaðir
5 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
4 sneiðar gæðabeikon, skorið í bita
4 gulrætur, skornar í bita
2 sellerístilkar, skornir í þunnar sneiðar
3 lárviðarlauf
1 ½ msk. herbes de Provence
3-4 tímíangreinar
2/3 dl Marsala-vín (má sleppa)
700 ml hvítvín
700 ml kjúklingasoð
2 ½ dl matreiðslurjómi
1 grein ferskt fáfnisgras

Kryddið kjúklinginn með paprikuduftinu og pipar og saltið hann. Hitið olíuna í stórum potti, helst pottjárnspotti. Setjið skalotlaukinn út í og látið krauma í 1-2 mínútur, bætið hvítlauknum saman við en passið að laukurinn brúnist ekki. Setjið beikonið út í og steikið þar til það er brúnt og stökkt. Setjið gulræturnar, selleríið, lárviðarlaufin og kryddjurtirnar í pottinn og steikið í nokkrar mínútur. Hellið innihaldinu úr pottinum, steikið kjúklinginn á öllum hliðum og bætið síðan grænmetinu og beikoninu aftur út í pottinn. Hellið Marsala-víninu saman við og látið það sjóða þar til það hefur minnkað um helming. Hellið hvítvíninu og kjúklingasoðinu saman við og látið réttinn eldast við fremur lágan hita í u.þ.b. 30-40 mínútur með loki, hrærið í annað slagið. Saxið blöðin af fáfnisgrasgreininni mjög gróft og setjið út í um leið og rjómann. Bragðbætið með pipar og salti ef þarf og berið fram með hrísgrjónum.

Mynd / Karl Petersen

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -