2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

París – nokkrar skemmtilegar staðreyndir um vinsæla ferðamannastaði

París er ein mest sótta ferðamannaborg í heimi en árið 2018 var hún númer þrjú, Bankok var í fyrsta sæti og London í öðru. París hefur upp á margt að bjóða og jafnvel Parísarbúar sjálfir komast ekki yfir nema lítið brot hvort sem um söfn, sýningar, matsölustaði eða annað er að ræða en það er einmitt þess vegna sem hægt er að heimsækja borgina mörgum sinnum á lífsleiðinni.

París á sér lagna og áhugaverða sögu þótt hún hafi kannski ekki alltaf verið beint falleg og til dæmis er enn hægt að sjá móta fyrir því hvar fallöxin stóð fyrir framan fangelsið La petit Roquette í 11. hverfi þar sem göturnar Rue de la Roquette og Rue de la Croix Faubin mætast en þar voru margir teknir af lífi. Hér eru skemmtilegir sögumolar og staðreyndir um nokkra af vinsælustu ferðamannastöðunum í borginni.

Stærsta safn í heimi

Louvre var opnað árið 1793 og er stærsta safn í heimi bæði hvað varðar stærð í fermetrum talið og einnig ef horft er til hversu margir sækja safnið heim en á ári hverju koma u.þ.b. 10 milljónir manna. Safnið sem er 782,910 fermetrar að stærð hefur að geyma ótrúlega fjölbreytt listaverk frá nánast öllum menningarsamfélögum og tímabilum í sögunni. Listmunirnir í eigu safnsins eru u.þ.b. 460.000 en einungis er hægt að skoða 35.000.

AUGLÝSING


Þrátt fyrir þetta koma flestir til að berja hina frægu Mona Lisu augum en færri vita að málverkið hans Leonardo da Vinci er ekki nema 53 x 73 cm sem er svipað að stærð og A2 blað og í raun er margt annað mun áhugaverðara en blessuð Mona Lisa. Ef ætlunin er að skoða alla munina á safninu þá myndi það taka 35 daga sé miðað við að dvelja einungis í 30 sekúndur við hvern mun.

Vefsíða: louvre.fr

Umdeildi járnturninn

Effelturninn frægi sem er þekktasta kennileiti borgarinnar var smíðaður fyrir heimssýninguna árið 1889 í tilefni að því að 100 ár voru liðin frá frönsku byltingunni. Eftir sýninguna átti að rífa hann niður enda fannst mörgum þessi járnturn afar ljótur en til allrar hamingju var horfið frá þeirri ákvörðun. Einn af þeim sem þoldi ekki járnklumpinn svokallaða var rithöfundurinn Guy de Maupassant. Hann borðaði á veitingastaðnum í turninum á hverjum degi og gaf þá útskýringu að það væri eini staðurinn í París þar sem hann þyrfti ekki að horfa á þennan ljóta turn.

Adolf Hitler kom til borgarinnar í júní árið 1940 en þá var París hernumin af Þjóðverjum. Hitler var mikill listunnandi og heimsótti m.a. óperuhúsið og Invalides-bygginguna en þegar hann ætlaði að fara upp í Effelturninn virkuðu ekki lyfturnar þar sem skorið hafði verið á lyftukaplana kvöldinu áður. Það að Hitler hafi ekki komist upp í Effelturninn er talið vera mjög táknrænt og úthugsað hjá þeim sem þar voru að verki enda turninn tákngerfingur fyrir Frakkland sjálft.

Vefsíða: toureiffel.paris/fr

Neðanjarðar-París

Stundum er sagt að París sé eins og ostur undir yfirborðinu því þar er flókið lestarkerfi, stórt holræsakerfi og svokallaðar katakombur en það eru göng full af beinum og hauskúpum úr gömlum kirkjugörðum borgarinnar. Bein þessi voru grafin upp og flutt í göngin á 17. öld en þá voru kirkjugarðarnir víða orðnir yfirfullir með tilheyrandi lykt og óþrifnaði. Þarna er stærsta „beinasafn“ í heimi en talið er að nokkrar milljónir Parísarbúa hvíli í göngunum.

Hægt er að skoða katakomburnar sem eru staðsettar í suður-París en þess skal geta að heimsóknin er ekki fyrir viðkvæma eða fólk með innilokunarkennd. Löng biðröð getur myndast og því mikilvægt að mæta snemma að morgni en hleypt er inn í hollum þar sem göngin þola engan troðning og kannski sem betur fer því það er sennilega ekki notaleg tilfinning að klessast upp við gamlar hauskúpur í rökkri. Þeir sem þora og ætla í göngin þurfa samt að skoða vefsíðna hjá þeim því stundum hefur göngunum verið lokað í langan tíma vegna raka eða flóða, göngin eru jú neðanjarðar. Vefsíða: catacombes.paris.fr

Margt skrítið og skemmtilegt hefur gerst undir götum Parísar og ýmsar flökku- og draugasögur verið á kreiki, kannski ekki allar sannar en ein ótrúleg saga er þó sönn. Það var árið 1984 að holræsastarfsmenn komu auga á eitthvert langt dýr sem synti í göngunum og kallað var á slökkviliðið sem sér um slík verk. Kom þá í ljós að þarna var sprelllifandi krókódíll á ferðinni, metri að lengd og ættaður frá Nile. Krókódíllinn fékk heimili í dýragarðinum í Vannes.

Notre-Dame

Flestir halda að Effelturninn sé vinsælasti ferðamannastaðurinn í borginni en það er rangt því Frúarkirkjan trónir á toppnum en þangað koma 12 milljónir ár hvert á meðan turninn er ekki með nema u.þ.b. 7 milljónir. Dómkirkja þessi sem er í gotneskum stíl var reist á árunum 1163-1257 en henni var á þeim tíma ætlað að rúma alla íbúa Parísarborgar. Kirkjan er einna frægust fyrir steindu rósargluggana sem eru 10 metrar í þvermál.

Það kostar ekkert inn í kirkjuna en hefð er fyrir því að kaupa kerti eða setja svolítinn pening í söfnunarbauka. Hægt er að fara upp í turnana tvo yfir sumartímann en þá er farið inn norðan megin í kirkjuna og gengið upp mjög margar tröppur og því ekki verra að vera í ágætu formi en það er vel þess virði þar sem útsýnið er afar gott. Í suðurturninum er kirkjuklukka sem nefnd er Emmanuel en hún vegur heil 13 tonn. Sögusvið einnar frægustu skáldsögu Victor Hugo, Hringjarinn frá Notre-dame, er einmitt í kirkjunni.

Vefsíða: notredamedeparis.fr

Ferðamáti:
WOW air flýgur til Parísar allt árið um kring. Verð frá 6.999 kr. aðra leið með sköttum.

Aðalmynd / Chris Karidis
Myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og úr safni

Lestu meira

Annað áhugavert efni