Pistasíuhnetu-kanilhorn sem gleðja augað og bragðlaukana

Deila

- Auglýsing -

Pistasíur eru einstaklega bragðgóðar og mildar og gefa gott bit í baksturinn séu þær notaðar heilar eða gróft saxaðar. Ekki spillir fyrir að þetta ljúfa hráefni er hollt og því auka þær á hollustuna í kökunum.

Pistasíuhnetu-kanilhorn

40-45 lítil horn

225 g smjör
230 rjómaostur, við stofuhita
1 msk. sykur
1 tsk. vanilludropar
240 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
1 eggjarauða
150 g pistasíuhnetur, saxaðar
115 g ljós púðusykur
2 tsk. kanill
1 egg, til að pensla með
100 g dökkt súkkulaði, brætt yfir vatnsbaði

Hitið ofn í 180°C. Setjið smjör, rjómaost, sykur og vanilludropa í skál og hnoðið vel saman annað hvort í hrærivél eða í höndum.

Bætið hveiti, lyftidufti, salti og eggjarauðu saman við og hnoðið þar til deigið er orðið slétt og fínt. Pakkið í plastfilmu og geymið í ísskáp í 30 mín. Skiptið deiginu í 3 jafna hluta og fletjið út á hveitistráð borð.

Blandið pistasíuhnetum, púðursykri og kanil í skál. Skerið í ferhyrninga um 9×9 cm og stráið pistasíuhnetublöndunni á og rúllið upp. Klípið hornin saman og sveigið þau aðeins til. Raðið á bökunarplötu, úr deiginu fást um 45 lítil horn, sláið eggið saman í lítilli skál og penslið hornin létt.

Bakið í 20­25 mín. eða þar til hornin verða gullinbrún. Látið kólna og skreytið með bræddu súkkulaði.

Yfirleitt er nýbakað bakkelsi alltaf best en það er eitthvað við þessi horn að þau eru eiginlega betri köld og þess vegna fín daginn eftir. Svo er alltaf sniðugt að baka tvöfalda uppskrift og frysta.

Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson

 

- Advertisement -

Athugasemdir