Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Pítsa-polenta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ljúffeng pítsa með sveppum, timían og hvítlauk.

Polenta er nafn á grófmöluðum maís en var upprunalega heiti yfir algengan rétt á Norður-Ítalíu sem er einskonar grautur sem svipar til kartöflustöppu. Þegar polentu-mjöl kólnar verður það þéttara í sér og minnir á brauð, þá er það gjarnan skorið í bita sem eru steiktir og verða þá stökkir og góðir.

Polenta er bragðlítil og á þess vegna vel við bragðsterkan mat. Hún er t.d. borðuð með smjöri og osti eða höfð með pottréttum úr kjöti eða fiski. Grunnurinn er alltaf að bæta vökva saman við mjölið og svo er það hitað í potti. Hrært er stöðugt í blöndunni þar til einskonar deig myndast sem er tilbúið þegar það loðir ekki lengur við hliðar pottsins. Þá er annaðhvort kryddi eða smjöri eða osti blandað saman við og hún borðuð heit sem meðlæti eða sett í  eldfast mót og látin stífna. Þegar hún kólnar er hún skorin í sneiðar, bökuð, grilluð eða steikt.
Í Bandaríkjunum, sérstaklega í Suðurríkjunum, er gjarnan borið fram svokallað „cornbread“ með mat. Brauðinu er dýft í sósur og pottrétti og þykir mörgum það ómissandi með Suðurríkjamat. Það er fljótlegt að baka slíkt brauð enda er lyftiduft yfirleitt notað í stað gers. Notað er grófmalað maísmjöl sem er í raun mjög svipað og polentu-mjölið.
Hér er hún notuð í pítsubotn sem kom ljómandi vel út. Sniðugt fyrir þá sem eru með glútenóþol eða vilja sneiða hjá hveiti.

Polentu-pítsa með sveppum, timían og hvítlauk

fyrir 4-6
170 g polentu-mjöl
4 dl mjólk
50 g pecorino-ostur (má nota annan bragðmikinn harðan ost)
1 tsk. salt
50 g smjör
4 hvítlauksgeirar, sneiddir
200 g sveppir að eigin vali
3 msk. ferskt timían, saxað
200 g mozzarella-ostur
salt og pipar eftir smekk

Hitið ofn í 200°C. Hrærið polentu-mjölið, mjólk, rifinn pecorino-ost og salt saman með sleif. Hnoðið deigið létt með höndunum. Það á að vera hægt að fletja það út með kökukefli en einnig er hægt að nota fingurna og dreifa úr því á smjörpappírinn þannig að úr verði hringlaga kaka, um það bil 1 ½ cm þykk.
Hitið smjörið á pönnu og steikið hvítlauk við vægan hita í nokkrar mínútur og bætið svo sveppunum út í og steikið áfram í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til sveppirnir hafa náð að steikjast aðeins og dökkna. Bragðbætið með timíani, salti og pipar. Setjið hluta af mozzarella-ostinum á polentu-botninn, síðan steiktu sveppina og dreifið að lokum afganginum af ostinum yfir. Bakið í 10 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit. Gott að bera fram með hvítlauksolíu.

Pecorino-ostur er bragðmikill, harður ítalskur ostur úr sauðamjólk. Nafnið er dregið af ítalska orðinu pecora sem þýðir sauðfé.

- Auglýsing -

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -