2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Pittsburgh – fyrir svanga ferðalanga

Stálborgin Pittsburgh í Pennsylvaníu hefur undanfarin ár verið nefnd ein af matarborgum Bandaríkjanna og sælkerar leggja leið sína þangað æ oftar.

Margir kokkar kjósa að opna matsölustaði þar fremur en í New York þar sem það er einfaldlega ódýrara og ungt fólk hefur fært sig til borgarinnar undanfarin misseri. Pittsburgh er meðalstór borg á amerískan mælikvarða með um rúmlega 300.000 íbúa innan borgarmarka en ef úthverfin eru talin með telja þeir um 2,4 milljónir. Borgin er því með allt sem góð stórborg hefur upp á að bjóða án þess að vera yfirþyrmandi. Við fjölluðum um þessa hæðóttu og fallegu borg fyrr í vetur og bentum á nokkra spennandi hluti að gera fyrir ferðamenn, hér fjöllum við um frægan mat frá borginni og bendum á nokkra veitingastaði sem sælkerar ættu að gefa gaum.

Bar Marco
Skemmtilegur bar í Strip district-hverfinu sem óhætt er að mæla með en ýmis matartímarit og -bækur hafa hampað staðnum og talið hann meðal topp bara í Bandaríkjunum en einnig er hægt að fá góðar veitingar á staðnum. Matseðillinn er einfaldur og lítill en hann er mismunandi eftir dögum. Þetta er staður til að fá sér gæðahanastél og létta rétti með. Vefsíða: barmarcopgh.com.

Monterey Bay Fish Grotto er sjávarréttastaður í háum gæðaflokki.

Monterey Bay Fish Grotto
Sjávarréttastaður í háum gæðaflokki þar sem fiskinum er flogið inn daglega og tekið er mið af árstíðum hverju sinni. Staðurinn er í skýjakljúfi efst á Washington-fjalli og útsýnið er algerlega ævintýralegt. Þetta er staður sem ég myndi ráðleggja öllum að fara á þó ekki sé nema fyrir útsýnið! Farið fyrst á barinn í fordrykk því útsýnið er ekki síðra þar og ég mæli með því að fólk upplifi ljósaskiptin þarna. Hér er mikilvægt að panta borð áður en lagt er af stað frá Íslandi því heimamenn sækja staðinn vel og erfitt getur verið að fá borð. Ég mæli með krabbakökunum, þær voru sérlega góðar. Vefsíða: montereybayfishgrotto.com.

AUGLÝSING


Smallman Galley
Þetta er einskonar matarmarkaður sem staðsettur er í hinu vinsæla Strip-hverfi. Þarna eru 4 matsölustaðir, 2 barir og 200 sæti. Heildarhugmyndin er skemmtileg, þarna geta ungir kokkar komið og starfað í ódýru rými, sýnt hæfileika sína og safnað aðdáendum áður en þeir fjárfesta í eigin veitingahúsi, afar áhugavert og skemmtilegt konsept.Vefsíða: smallmangalley.org.

Whitfield
Skemmtilega svalur staður á Ace Hotel í East Liberty-hverfinu. Matseðillinn er bandarískur innblásinn af pólskri, þýskri og ítalskri matargerð svo og matargerð gyðinga. Hráefnið er frá litlum framleiðendum úr nærumhverfinu. Nautakjötið á matseðlinum er látið hanga í 21 dag og einungis er notast við naut sem borða gras. Vefsíða: whitfieldpgh.com.

Pork and Beans
Á þessum stað er bjórgarður þar sem borgað er fyrir reykt og pikklað kjöt eftir kílóavigt. Á klukkutíma fresti er tilkynnt hvers konar kjöt er í sölu, það er selt þar til það klárast og þá er næsta kjöttegund seld. Þetta er skemmtilegur staður fyrir grill og bjóráhugafólk en hægt er að velja úr yfir 100 bjórtegundum frá ýmsum svæðum nær og fjær. Vefsíða: porkandbeanspgh.com.

Besta tacoið í Pittsburgh fæst á Taco, sem er í Cultural-hverfinu.

Taco
Hér er besta tacoið í Pittsburgh en staðurinn er í Cultural-hverfinu. Hér er hægt að fá framúrskarandi og frumlegt taco þar sem blandað er saman hráefni úr öðrum menningarheimum, sérlega skemmtilegt. Mikið úrval er einnig af kokteilum sem gaman er að drekka með matnum en þeir eru eðlilega þekktastir fyrir margarítur. Vefsíða: takopgh.com.

Morcilla
Þessi staður var nýlega kosinn fjórði besti matsölustaðurinn í Bandaríkjunum af matartímaritinu Bon Appetit. Matargerðin er spænsk í baska-tapas-stíl (pintxos and plates) en hráefnið kemur frá litlum býlum í Vestur-Pennslyvaníu. Vínlistinn er sérlega spennandi og úrvalið er gott. Hér er erfitt að fá borð svo nauðsynlegt er að panta með góðum fyrirvara. Vefsíða: morcillapittsburgh.com.

 ________________________________________________________________

Frægur matur frá Pittsburg

Heinz-tómatsósan
Það var H.J. Heinz sem fann upp þessa frægu sósu en Heinz-safnið er einmitt í Pittsburgh.

Skorin skinka – chipped ham
Þessi þunnskorna nánast rifna kryddskinka er meðal frægustu matarafurða frá Pittsburgh en hún var sett á markað árið 1933 af Isaly´s-fyrirtækinu. Þekkt er að brottfluttir Pittsburgh-búar láti senda sér „chipped ham“ þvert yfir landið þegar löngunin gerir vart við sig.

Big Mac!
Big Mac-hamborgarinn var fundinn upp nálægt borginni, af Jim Delligatti, árið 1976 en hann var settur í sölu árið 1968 og fagnar því hálfrar aldar afmæli sínu.

Pittsburger-salat
Settu franskar á hvaða salat sem er og þá er hægt að kalla það Pittsburger-salat!

Primanti Bros.-samloka
Samloka þar sem hrásalati og frönskum kartöflum er troðið inn í samlokuna. Hún var fundin upp í kreppunni miklu árið 1929 og var hugsuð þannig að heil máltíð kæmist fyrir í einni hendi því þá fengu menn einungis vinnu einn og einn dag og gáfu sér lítinn tíma til að borða. Önnur saga segir að samlokan hafi verið hugsuð fyrir vöruflutningamenn sem gátu þá borðað samlokuna með annarri hendi og stýrt með hinni. Hægt er að prófa samlokuna á Primanti Bros. staðnum í Strip-hverfinu. Vefsíða: primantibros.com

The Klondike Bar
Þessi vanilluísstöng sem dýft hefur verið í ekta súkkulaði og pakkað inn í silfurumbúðir er einnig runnin undan rifjum Isaly´s og kostaði „a nickel“ árið 1929 þegar hún kom á markaðinn.

Pierogies
Dumplingar eða deigbollur, fylltar með kartöflum, kjöti eða öðru hráefni. Bollurnar eru eldaðar í smjöri. Pierogies er hægt að fá á mörgum matsölustöðum í Pittsburgh en þær eiga rætur að rekja til pólskra innflytjenda.

Steiktar kúrbítslengjur – fried zucchini strips
Kúrbístlengjurnar eru bragðgóðar og stökkar, þær eru vinsælar meðal heimamanna og eru oft bornar fram sem lystauki með drykkjum eða sem forréttur

Brúðkaupssúpa – wedding soup
Þessa unaðslegu ítölsku súpu er hægt að fá víða í borginni og þá eru yfirleitt litlar kjötbollur í henni ásamt eggja-pastini (smágert pasta).

________________________________________________________________

Gott að vita

Veðurfar
Pittsburgh er talsvert inni í landi svo þar verður vel heitt á sumrin og nokkuð kalt á veturna. Heitustu mánuðirnir eru júlí og ágúst með meðalhita upp á 23°C en köldustu mánuðirnir eru desember, janúar og febrúar og þá fer meðalhitinn niður í -2°C. Búast má við snjókomu yfir köldustu vetrarmánuðina svo mikilvægt er að taka með sér hlýja úlpu, húfu og vettlinga en á sumrin ættu hlýrabolir og stuttbuxur að vera í farteskinu ásamt góðri sólarvörn.

Þjórfé
Mikilvægt er að gefa þjórfé í Pittsburgh þar sem sumt starfsfólk fær hluta launa sinna í gegnum þjórféð, þetta á sérstaklega við um starfsfólk veitingahúsa. Á veitingastöðum og í leigubílum er viðeigandi að bæta 15% ofan á reikninginn. Passið að stundum er búið að setja þjónustugjaldið inn í reikninginn, sér í lagi ef um hópa er að ræða.

Ferðamáti
WOW air flýgur til Pittsburgh allt árið. Verð frá 12.499 kr. aðra leið með sköttum.

Myndir: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Visitpittsburgh

Lestu meira

Annað áhugavert efni