2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sælkeraborgin París

Nokkrir af elstu og frægustu veitinga-stöðum Parísarborgar.

París er án efa ein mesta sælkeraborg heims en hún varð það ekki á einni nóttu. Borgin byggir frægð sína á göml­um grunni og margir staðir sem opnuðu dyr sínar fyrir nokkrum öldum síðan eru enn starfandi. Sagt er til að mynda að La Tour d´Argent-veitinga­staðurinn hafi opnað dyr sínar árið 1582 þó svo að ekki séu til fyrir því neinar haldbærar sannanir og eins hafa eig­­­endur ­­Le Procope sem opnaði árið 1686 viljað eigna sér heiðurinn af því að vera elsti staður borgarinnar en fleiri hafa verið orðaðir við þann heiður eins og t.d. La Petite Chaise sem er sagður hafa opnað árið 1680. Í raun skipt­ir kannski ekki öllu máli hver er elstur, þeir eru allir gamlir, hver með sinn sjarma og misfínir. Hér bendum við á nokkra gamla og fræga staði sem gaman er að koma á.

Bofinger er ekta Parísar-brasserie í belle époque-stíl.

Bofinger 1864
Bofinger er ekta Parísar-brasserie í belle époque-stíl sem var ríkjandi í byrjun 20. aldar í Frakklandi og þykir með fallegri brasserie-stöðum borgarinnar. Maturinn á Bofinger er innblásinn af Alsace-héraði og mætti nefna rétti eins og sauerkraut, pylsur og skinku ásamt klassískum frönskum eftirréttum eins og creme brulée og Paris-Brest. Hann var sá fyrsti í borginni til að bjóða upp á bjór á krana. Staðurinn hefur eðlilega gengið í gegnum margar breytingar á þeim 154 árum sem hann hefur starfað. Bofinger er staðsettur í 4. hverfi á 5-7, Rue de la Bastille.

Le Grand Véfour var og er meðal fínni staða í borginni

AUGLÝSING


Le grand Véfour 1784
Le Grand Véfour var og er meðal fínni staða í borginni en hann er staðsettur undir bogunum í Le Palais Royal. Meðal frægra sem sóttu staðinn hér áður fyrr -mætti nefna Viktor Hugo, Sartre og Simone de Beauvoir. Staðurinn er afar fallegur í vínrauðum og gylltum litum með fallega máluðum veggmyndum. Lengi vel var hann með 3 Michelin-stjörnur en missti eina árið 2008, svo nú er hann BARA með tvær. Matargerðin er frönsk og skapandi en eldhúsinu stjórnar Guy Martin. Staðurinn er með þeim dýrari í borginni og hér þarf að vera snyrtilega klæddur og panta borð. Le Grand Véfour er á 17 Rue de Beaujolais

Veitingastaðurinn Bláa lestin eða Le Train Bleu er staðsettur á lestarstöðinni Gare de Lyon.

Le train bleu 1901
Veitingastaðurinn Bláa lestin eða Le Train Bleu er staðsettur á lestarstöðinni Gare de Lyon en þegar stöðin var byggð rétt á eftir Saint-Lazare-lestarstöðinni átti hún að vera eins og höll og var hönnuð af arkitektinum Marius Toudoire. Paris-Lyon-Marseille-lestarfélagið vildi byggja góðan veitingastað á stöðinni sem endurspeglaði ferðalög, tæknilegar framfarir, þægindi og lúxus. Óhætt er að segja að þeim hafi tekist ætlunarverkið enda er staðurinn eins og höll og skráð sem söguleg bygging og friðuð af franska ríkinu. Þegar inn er komið blasa við vegg- og loftmyndir, gylltir flúraðir veggir með fallega bláum bekkjum og risa kristalsljósakróna trónir yfir miðjum salnum. Meðal frægra sem stunduðu staðinn má nefna Coco Chanel, Brigitte Bardot og Jean Cocteau en margir þekkja Le Train Blue af þekktu atriði í „Mr. Bean í sumarfíi“. Matargerðin á Le Train Bleu er ekta frönsk. Maturinn er svo sem ekki í neinum sælkeraflokki en þangað er samt virkilega gaman að koma. Staðurinn er eins og áður segir í Gare de Lyon við Place Louis-Armand.

Benoit er ekta Parísar-bistro eins og þau gerast best.

Benoit 1912
Benoit er ekta Parísar-bistro eins og þau gerast best, staður þar sem gaman er að verja góðri stundu og drekka í sig söguna og andrúmsloftið. Þessi staður er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég mæli með að borða þar í hádeginu, það er einhver sjarmi við það! Benoit er með eina Michelin-stjörnu en hann er nú í eigu Alain Ducasse sem er sennilega einn frægasti matreiðslumeistari Frakka. Benoit hafði áður verið í sömu fjölskyldu í 93 ár en það var árið 2005 sem Ducasse keypti staðinn. Þá óttuðust margir breytingar en sem betur fer er staðurinn nákvæmlega eins og hann hefur verið í gegnum árin. Matargerðin er ekta bistro-matargerð þó með nútímalegu ívafi. Ég mæli sérstaklega með að fólk panti rétti dagsins, þeir eru alltaf búnir til úr ferskasta fáanlega hráefni hvers dags og klikka sjaldan. Benoit er í 4. hverfi á Rue Saint Martin.

Þessi staður er skemmtilegur fyrir þær sakir að sérhæfa sig í einu þjóðarhráefni Frakka, sniglum!

L´escargot Montorgueil 1832
Þessi staður er með þeim eldri í borginni en hann er skemmtilegur fyrir þær sakir að sérhæfa sig í einu þjóðarhráefni Frakka, sniglum! L´Escargot Montorgueil er með dökkar innréttingar og dumbrauðar sessur og gardínur, staðurinn hefur verið flokkaður sem sögulegur. Hér er eðlilega mælt með sniglum með smjöri og hvítlauk en einnig er hægt að fá fleira franskt á þess-um gamla stað. L´Escargot Montorgueil er á 38 Rue-Montorgueil í 1. hverfi. Frh. á næstu síðu.

Le Procope er gamalt og rótgróið brasserie.

Le Procope 1686
Le Procope er gamalt og rótgróið brasserie og hefur stundum verið orðað við elsta kaffihúsið í París en ís og kaffi varð einmitt vinsælt á staðnum sem er í Latínuhverfinu hjá Saint-Germain-des-Prés. Margir frægir hafa borðað á Le Procope og mætti nefna Napoleon Bonaparte og Benjamin Franklin. Matargerðin er hefðbundin og frönsk en þess ber að geta að þetta er ekki staðurinn til að fara á til að gæla við bragðlaukana því í dag er Le Procope túristastaður. Ég mæli með einum góðum kaffibolla eða drykk hér og ef borðað er á staðnum þá er coq au vin-rétturinn ágætur. Staðurinn er á 13 Rue de l´Ancienne Comédie í 6. hverfi.

Café de la Paix er með þekktari kaffihúsum í París.

Café de la Paix 1862
Café de la Paix er með þekktari kaffihúsum í París en það er staðsett á breiðgötunni Boulevard des -Capucines. Staðurinn, sem opnaði dyr sínar fyrir 156 árum, er í keisarastíl og hefur ekki mikið breyst síðan en hann varð strax vinsæll meðal elítunnar og bæði Victor Hugo og Émile Zola sóttu staðinn. Á seinni árum hefur hann verið sóttur af Christian Lacroix, John Travolta og John Galliano svo nokkrir séu nefndir. Árið 2003 var Café de la Paix gert upp og gyllt með fínu gulli. Kaffihúsið er fremur dýrt en afar skemmtilegt er að koma þangað og horfa yfir óperutorg-i-ð og gæða sér t.d. á ostrum eða góðum drykk. Café de la Paix er í 9. hverfi á 5 Place de l´Opéra.

Á La Petite Chaise er hægt að fá klassíska rétti eins og franska lauksúpu og buff tartar.

La petite chaise 1680
Þessi staður, sem gefur sig út fyrir að vera elsti staður Parísarborgar, er sagður hafa verið starfandi síðan 1680. La Petite Chaise þýðir litli stóllinn og innréttingarnar eru einfaldar með gömlum myndum á veggjum. Þetta er ekki staður sem sóttur er af heimamönnum sem gefur ákveðnar vísbendingar um matinn en þarna er hægt að fá klassíska rétti eins og franska lauksúpu og buff tartar. Staðurinn er í 7. hverfi á 36 Rue de Grenelle.

WOW air flýgur til Parísar tvisvar sinnum á dag, allan ársins hring. Verð frá 6.044 kr. Aðra leiðina með sköttum.

Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni