Sælkeraferðaráð úr smiðju Gestgjafans

Deila

- Auglýsing -

Eðli málsins samkvæmt snúast ferðalögin hjá okkur á ritstjórn Gestgjafans svolítið mikið um mat og matarupplifanir. Ég fer til dæmis oft á matarmarkaði og í sælkerabúðir þegar ég er erlendis og kaupi ýmislegt góðgæti. Sumt tek ég með mér heim en oft borða ég líka hluta af góðgætinu uppi á hótelherbergi og þá er gott að hafa nokkra hluti við höndina. Hér eru nokkur sælkeraráð fyrir hótellautarferðir.

Tappatogari
Tappatogari í ferðatöskunni er ómissandi því fátt er meira pirrandi en að geta ekki opnað flöskuna sem keypt var á markaðnum með ostunum þegar komið er upp á hótelherbergi. Best er auðvitað að taka einfalda útgáfu af tappatogara svipaða og notaðir eru á veitingastöðum. Ég er alltaf með sérstakan tappatogara í hliðarvasanum á ferðatöskunni sem ég nota mest. Vissulega er stundum tappatogari inni á herbergjunum en það er misjafnt og því ekki hægt að stóla á það.

Lítill beittur hnífur
Skutlið ávallt litlum beittum hníf ofan í ferðatöskuna (þetta er augljóslega ekki hægt ef einungis er ferðast með handfarangur). Ég hef alltaf vasahnífinn minn frá Opinel með og nota til að skera osta og pylsur og svo er líka hægt að smyrja með honum. Hann kemur til dæmis að mjög góðum notum sé ætlunin að útbúa sælkerasamloku á hótelherberginu með uppáhaldshráefninu sínu eða til að skera osta.

Plastskeiðar og gafflar
Ég verð að viðurkenna að ég kaupi mér mjög oft hreina jógúrt eða súkkulaðimús í útlöndum enda á ég mínar uppáhaldstegundir og þá er nú aldeilis gott að vera með plastskeið í farteskinu. Ég hendi líka oft nokkrum plast- eða pappadiskum niður í tösku.

Fallegar servíettur
Þetta er kannski ekki mikilvægasta ráðið en engu að síður er gott að taka nokkrar fallegar servíettur með enda taka þær ekki mikið pláss í ferðatöskunni en gera upplifunina af hótellautarferðinni betri. Stundum hef ég tekið tvær tauservíettur en oftast tek ég nokkrar fallegar bréfservíettur því að þótt vissulega séu bréfaþurrkur á flestum herbergjum þá er það ekki það sama og fallegar servíettur. Ég kaupi líka oft einn fallegan servíettupakka þegar ég versla inn á markaðnum.

 

- Advertisement -

Athugasemdir