Sælkerakrásir og skemmtilegar verslanir í Dallas

Deila

- Auglýsing -

Um daginn fjölluðum við um Dallas og bentum á nokkra áhugaverða hluti að gera í þessari skemmtilegu borg. Stór hluti af ferðalögum er að borða matinn frá svæðinu. Dallas er í Texas-fylki sem á landamæri að Mexíkó og matargerðin ber þess glöggt merki. Mikið er um stórar steikur og tacos sem sérlega gott er að skola niður með góðri margarítu. Fáir Íslendingar fara til útlanda án þess að kíkja í búðir og því vel við hæfi að benda á nokkur svæði til að versla, borða og njóta lífsins.

Verslað í Dallas

North Park Center – verslunarmiðstöð
Þessi verslunarmiðstöð, eða Mall eins og Kaninn segir, er ein af þeim fimm bestu í Bandaríkjunum. North Park Center opnaði árið 1965 en þá voru þar einungis fimm stórverslanir og þeirra á meðal Neiman Marcus sem er einmitt frá Texas. Yfir 230 verslanir og 40 matsölustaðir eru í miðstöðinni, sjón er sögu ríkari.

Bishop arts district var einu sinni best geymda leyndarmál Dallas.

Bishop arts district
Þetta er skemmtilegt hverfi með lágreistum amerískum húsum þar sem eru litlar sérverslanir, matsölustaðir og barir sem hafa það að markmiði að selja vörur úr nærumhverfinu og víða er sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Verslanirnar eru margar hverjar í litlum krúttlegum íbúðarhúsum. Hverfið var einu sinni best geymda leyndarmál Dallas en er nú vinsælt meðal heimamanna. Notalegt er að sitja á The Wild Detectives bókakaffinu á 314 W Eight St. og einnig eru góðar bökur á Emporium Pies á 314 N. Bishop Avenue. Hægt er að gæða sér á sérlega góðum eplasíder frá Bishopsider en þeir framleiða allt sjálfir og þar er hægt að fara í eplasídersmökkun.

Wild Bill´s Western Store er með gott úrval af ekta útsaumuðum leðurkúrekastígvélum og höttum.

Wild Bill´s Western Store
Afar skemmtileg kúrekabúð sem er í yfir 100 ára gömlu múrsteinshúsi. Þetta er búð fyrir þá sem ætla að fara alla leið í Texas-menningunni. Í versluninni er gott úrval af ekta útsaumuðum leðurkúrekastígvélum og höttum frá einu þekktasta og virtasta hattamerki í heimi, Stetson, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna er fyrsta flokks þjónusta þar sem hattarnir eru mátaðir á viðskiptavini af fagmennsku og hver veit nema Bill sjálfur segi nokkrar kúrekasögur. Gott er að vita áður en hattur er keyptur að svartur er tákn fyrir vonda karlinn „the bad“ en hvítur fyrir þann góða … ég keypti svartan.

Nokkrir góðir veitingastaðir og kaffihús

Commissary er fyrst og fremst kaffihús og bakarí.

Commissary – kaffihús, bakarí og svo margt fleira
Þessi staður er í miðborg Dallas og því tilvalinn til að hoppa inn og fá sér góðan kaffibolla. Commissary er fyrst og fremst kaffihús og bakarí en þau gera einnig sinn eigin ís sem er sérlega góður og svo selja þau líka kjöt og ýmsar sælkeravörur. Þetta er frábær morgunverðarstaður, ég mæli með grits og avókadóbrauði en margt annað er gott þarna.

Savor er afslappaður staður með nútímalega ameríska matargerð.

Savor Gastropub
Savor er staðsettur í Klyde Warren Park-safnahverfinu sem er skemmtilegt en þar er frábært útisvæði og fallegur garður og gaman að ganga um og njóta veðurblíðunnar. Savor er afslappaður staður með nútímalega ameríska matargerð þar sem lögð er áhersla á ferskt hráefni. Bæði er hægt að sitja úti og inni og ef ekki er of heitt mæli ég með útisvæðinu. Hægt er að fá góð kokteila á Savor.

Design District er góður nútímalegur ítalskur staður sem er vinsæll meðal heimamanna.

Design District
Góður nútímalegur ítalskur staður sem er vinsæll meðal heimamanna. Pastað er allt gert frá grunni, kjötið er unnið, saltað og reykt á staðnum og notast er við ferskt hráefni. Staðurinn er opinn allan daginn og hægt að fá morgunverð, brunch, hádegisverð og kvöldverð. Gott úrval er af vínum og skammtarnir eru fremur litlir miðað við Ameríku. Vissara er að panta borð, sér í lagi á kvöldin og um helgar.

The French Room er í Aldolphus-hótelinu og hefur hlotið lof og umtal ásamt því að vinna til ýmissa verðlauna.

The French Room
Þessi staður er í Aldolphus-hótelinu og hefur hlotið lof og umtal ásamt því að vinna til ýmissa verðlauna. Staðurinn er íburðarmikill og flottur enda fara heimamenn þangað til að fagna merkum áföngum. Matargerðin er með frönsku ívafi en þó með ferskri nálgun.

Bullion er stundum nefndur gullbarinn. Bruno Davaillon sér um eldamennskuna sem er í frönskum stíl.

Bullion
Þessi var kosinn sá flottasti í Dallas árið 2017 en barinn á honum er einstaklega skemmtilegur en hann er stundum nefndur gullbarinn. Bruno Davaillon sér um eldamennskuna sem er í frönskum stíl og hægt er að fá rétti eins og önd og humar svo fátt eitt sé nefnt og svo er nauðsynlegt að fara á barinn.

Á Lockhart Smokehouse er allt kjöt reykt og saltað á staðnum.

Lockhart Smokehouse
Þessi staður er í Bishop Arts District og einskonar skyndibitastaður en þó með svolítið öðru sniði en við eigum að venjast. Á Lockhart er allt kjöt reykt og saltað á staðnum. Gestir fara og velja sér bita af hinu og þessu kjöti og taka meðlæti með sem er í dollum við hliðina á ofninum. Kjötinu er pakkað inn í pappír og svo borða allir af pappírnum, mér fannst það reyndar svolítið erfitt en kjötið var einstaklega gott. Þetta er vinsæll staður meðal heimamanna og allir kjötáhugamenn ættu að fara á Lockhart sem er mjög grófur og í ekta Texas-stíl.

Myndir / Hanna Ingibjörg og frá veitingastöðum

 

- Advertisement -

Athugasemdir