2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sælkeramolar frá Montréal

Montréal er mikil sælkerborg og þar er úrvalið af veitingastöðum mikið en stundum getur verið erfitt að velja úr allri flórunni. Hér eru þrír staðir sem eru sérlega vinsælir meðal heimamanna.

Le Club Chasse et Peche

Þessi staður er með þeim virtari og þekktari meðal heimamanna. Þarna sameinast haf og hagi í matargerð en nafnið þýðir skot- og fiskveiðiklúbburinn.

Staðurinn er í gamla hlutanum og það fer lítið fyrir innganginum, einskonar „speak easy“-inngangur, staðurinn er mjög dökkur að innan og fremur látlaus en töff. Hér verður að panta borð í tíma og vissara er að vera fínn til fara, þetta er staðurinn sem heimamenn fara á til að fagna ýmsum áföngum í lífinu.

AUGLÝSING


Ég mæli sérstaklega með fiskmetinu á staðnum sem var einstaklega gott og úrvalið af vínum er mjög gott og þarna er þjónustan einkar fagleg.

Vefsíða: leclubchasseetpeche.com

 Au Pied De Cochon

Við fætur svínsins væri íslenska þýðingin á þessum fræga og vinsæla stað í Montréal. Þetta er veitingastaður fyrir forfallnar kjötætur svo ekki biðja um vegan-rétti! Það var Martin Picard sem opnaði dyrnar árið 2001 og hefur hann verið einn af vinsælustu og umtöluðustu stöðum bæjarins síðan.

Frægasti rétturinn á Au Pied De Cochon er án efa svínsfóturinn í fois gras (gæsalifur) sem allir hugrakkir ættu að prófa. Það er gaman að koma á staðinn og andrúmsloftið er lifandi og skemmtilegt. Ég mæli með að panta borð í tíma, sér í lagi um helgar.

Vefsíða: aupieddecochon.ca/en

Perles et Paddock

Skemmtilegur staður í Grifftontown-hverfinu ekki langt frá matarmarkaðnum Atwater sem var opnaður árið 2017 og hefur hlotið lofsamlega dóma. Inngangur staðarins er látlaus en þegar inn er komið blasir fallegur og bjartur salur við gestum með bar í miðjunni og stíllinn minnir svolítið á 6. áratuginn.

Matargerðin er nútímaleg með áherslu á ferskt hráefni úr nærumhverfinu. Bæði er gaman að borða þar í hádeginu og á kvöldin og mikið úrval er af kokteilum sem gaman er að bragða á. Adrien Thomas konditori sér alfarið um eftirréttina sem eru algert sælgæti. Hér er vissara að panta borð í tíma, sérstaklega um helgar.

Vefsíða:perlesetpaddock.com

Sælkeravörur til að koma með heim frá Montréal

Ísvín er frá Kanada en þá eru vínberin tínd frosin jafnvel ekki fyrr en í desember. Ísvín eru drukkin köld og oft höfð með eftirréttum eða fois gras, þau eru fremur sæt en þó missæt eftir tegundum. Farið í vínbúð og fáið að smakka. Einnig er framleitt einkar áhugavert eplasíder-ísvín í héraðinu. Það er einstaklega skemmtilegt, svolítið sérstakt og töluvert súrara en ísvínið, fáið endilega að prófa það líka í vínbúðinni.

Hlynsíróp er sennilega það fyrsta sem kemur upp í hugann í sambandi við matarafurðir frá Kanada og Montreál er engin undantekning þar á. Hægt er að kaupa þetta gyllta sælgæti víða en einnig mæli ég með ýmsum sælkeravörum sem unnar eru úr sírópinu og mætti nefna hlynsírópshjúpaðar möndlur og kryddblöndur.

Talsvert er framleitt af ostum í sveitunum í kringum Montréal enda voru það mest Frakkar sem byggðu svæðið upp á sínum tíma og þeim er ostagerðin í blóð borin. Flestir ostarnir eru gerilsneiddir en þó eru til ógerilsneiddir ostar í einhverjum mæli en þá má því miður ekki koma með þá heim. Fáið aðstoð og skoðið ostana á matarmarkaðnum Atwater.

Ferðamáti

WOW air flýgur til Montréal allt árið um kring. Verð frá 15.999 kr. aðra leið með sköttum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni