Sælkeraréttur úr afgöngum helgarinnar

Deila

- Auglýsing -

Oft lumum við á ýmsu góðgæti í eldhúsinu eftir helgina sem við vitum ekki alveg hvernig hægt er að nýta í góða máltíð. Hér er einföld og sniðug uppskrift úr afgöngum sem ætti að gleðja bragðlaukana.

Tilvalið er að nýta allt hráefni eins og hægt er og sporna þannig við matarsóun og spara pening í leiðinni. Flestir eiga tómata og paprikur og oft eru afgangar af ostum og kryddjurtum til í ísskápnum eftir helgina. Hér er einföld og sniðug uppskrift sem flestir ættu að geta gert án þess að koma við í búðinni. Auðvelt er að breyta uppskriftinni og hafa t.d. meira af tómötum eða nota annan ost, einnig má skipta kryddjurtunum út og leika sér að því að blanda þeim saman svo fátt eitt sé nefnt.

Bruchettur með paprikum og tómötum

4 brauðsneiðar, helst úr súrdegi
4 msk. ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, maukaður
1 rauð paprika
1 gul paprika
½ askja kirsuberjatómatar
2 dl rifinn mozzarella-ostur
15-20 svartar gæðaólífur (má sleppa)
10-15 lauf af basilíku, söxuð
svartur pipar
salt

Blandið olíunni og hvítlauknum saman og penslið á brauðsneiðarnar. Skerið paprikurnar í teninga og látið malla á grillpönnu við vægan hita í u.þ.b. 10-15 mín. eða þar til þær hafa mýkst vel og brúnast. Skerið tómatana í tvo hluta og bætið út á pönnuna og látið malla í u.þ.b. 5 mínútur, kryddið með pipar og saltið. Setjið paprikurnar og tómatana ofan á brauðið og látið ostinn yfir ásamt helmingnum af basilíkunni. Stillið ofninn á grillið og setjið brauðið á grind í miðjan ofninn og bakið í u.þ.b. 5 mínútur eða þar til osturinn hefur brúnast aðeins. Dreypið svolítið af ólífuolíu yfir brauðið, ásamt restinni af basilíkunni, kryddið með pipar og saltið.

Hvers vegna að grilla paprikuna? Paprika er eiginlega eins og tvennskonar hráefni því bragðið af henni gerbreytist við eldun. Með því að grilla paprikurnar í ofni eða á pönnu verða þær bæði mjúkar og sérlega sætar og bragðgóðar.

Texti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd/Ernir Eyjólfsson

- Advertisement -

Athugasemdir