2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sælkerasiglingar í Amsterdam

Amsterdam er einna þekktust fyrir síki og það er einmitt þess vegna sem borgin er stundum kölluð Feneyjar Norðursins. Því er eiginlega skylda að fara í siglingu.

Undanfarin ár hefur úrvalið af skemmtilegum og fjölbreyttum bátsferðum verið að aukast og nokkrir bátar bjóða upp á skemmtilegar matarupplifanir.

Margt er í boði þegar kemur að því að sigla um síkin og mörg fyrirtæki sem slást um farþegana. Undanfarin ár hefur úrvalið af skemmtilegum og fjölbreyttum bátsferðum verið að aukast og nokkrir bátar bjóða upp á skemmtilegar matarupplifanir. Hér eru nokkrar slíkar sem við bendum lesendum á en listinn er þó ekki tæmandi.

Blue Pepper
Indónesískt rijsttafel er afar þekkt í Amsterdam og þar eru þónokkuð margir slíkir staðir og af hverju ekki að njóta þessa matar um borð í báti? Blue Pepper er einn af fáum matarbátum þar sem allt er eldað um borð fyrir framan farþega, eða skal heldur segja matargesti? Umhverfið er rómantískt og hlýlegt og borðin eru uppdúkuð með kertum út við glugga sem gaman er að horfa út um á meðan maturinn gælir við bragðlaukana. En vert er að hafa í huga að panta með góðum fyrirvara þar sem einungis er siglt einu sinni í viku, oftast á sunnudögum, en þess má geta að hægt er að panta bátinn fyrir hópa og fyrirtæki á öðrum tímum svona ef einhver er að skipuleggja árshátíðarferðir.
Vefsíða: restaurantbluepepper.com/dinner-cruise-amsterdam.

Gs brunch boat
Þessi bátur ku vera eini brönsbáturinn í heiminum, eða svo segir á vefsíðunni þeirra, en hann siglir um stræti borgarinnar um helgar. Báturinn er gerður út um helgar af matsölustaðnum Gs Really Nice Place sem er vinsæll og býður upp á fjölbreytta og góða rétti og mætti nefna egg Benedict, beyglur, vöfflur og klassíska morgunverðarkokteila eins og blóðuga Maríu og mimosu svo fátt eitt sé nefnt.
Vefsíða: reallyniceplace.com/brunch-boat.

AUGLÝSING


De Pannenkoekenboot
Langar þig í hollenskar pönnukökur eins og þú getur í þig látið? Ef svarið er já, þá er þessi bátur fyrir þig. Á meðan siglt er um höfnina geta farþegar gætt sér á ótakmörkuðu magni af pönnukökum „all you can eat“-hlaðborð og valið sér mismunandi hráefni til að setja ofan á hverja pönnuköku. Þetta er ekta bátsferð til að fara í með börnum og líka fyrir pönnukökuunnendur.
Vefsíða: amsterdam.pannenkoekenboot.nl/en.

Lovers canal cruises
Þetta bátafyrirtæki er með fjölbreyttar ferðir um síkin og meðal þeirra eru matarferðir. Sú sem er kannski einna mest spennandi er angus-nautakjötshamborgaraferðin, eða Amsterdam Burger Cruise, eins og ferðin heitir. Ferðirnar eru um kvöld og siglt fram hjá þekktustu og fallegustu kennileitum borgarinnar á meðan farþegar geta drukkið eins og þeir vilja og gætt sér á gómsætum grilluðum hamborgurum.
Vefsíða: lovers.nl/en/food-beverage/amsterdam-burger-cruise.

Plastic whale – veiðibátsferð
Hér er öðruvísi bátsferð á ferðinni sem á ekkert skylt við mat heldur umhverfisvernd. Farþegar fá háfa til að veiða plast upp úr síkjum Hollands og plastið er síðan notað til að búa til báta sem eru svo aftur notaðir til að veiða meira plast, því meira plast, því fleiri bátar. Afar metnaðarfullt og skemmtilegt verkefni sem hægt er að lesa nánar um á vefsíðunni þeirra. Einstaklingar geta farið í þessa ferð og líka hópar og hér er því kannski komin árshátíðarbátsferðin fyrir Sorpu eða Endurvinnsluna.
Vefsíða: plasticwhale.com.

Skemmtilegar tölulegar staðreyndir um Amsterdam

  • Áætlað er að í borginni séu u.þ.b. 881.000 reiðhjól og talið er að 58% borgarbúa hjóli daglega.
    2.500 húsbátar eru á hinum mörgu síkjum sem eru 165 talsins.
  • Yfir 8,863 byggingar frá sextándu, sautjándu og átjándu öld, hver með sinn sjarma, skreyta bæði síki, stræti og torg.
  • Hvorki meira né minna en 1.515 kaffihús og barir eru í þessari fallegu síkjaborg og því ætti enginn að verða þyrstur.
  • Amsterdam er mikil matarborg og þar eru hvorki meira né minna en 1.325 veitingastaðir og því getur getur verið erfitt að velja úr.
  • Hótel eru algengasti gistimáti ferðalanga en þau telja 634 og þar af eru 14 fimm stjörnu hótel.
  • 207 málverk eftir Van Gogh eru í Amsterdam en einungis 23 eftir Rembrant.
  • Þótt eitt helsta kennileiti Hollands sé vindmyllur þá eru einungis 8 slíkar í höfuðborginni.
  • Tölur sýna að íbúar Amsterdam séu samansettir úr 180 þjóðernum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni