Amerísk ömmukaka

Deila

- Auglýsing -

Sannkölluð sælkerakaka með fjölskyldusögu sem Ella Fanna byrjaði að baka 10 ára gömu.

Þegar Elín Fanney Guðmundsdóttir er ekki að baka, mála eða hekla vinnur hún í Ástund í Austurveri. Hún segist hafa byrjað að baka 10 ára gömul. „Ég var svolítill sælkeri og byrjaði því snemma að baka. Á laugardögum bakaði ég alltaf tvær tegundir, marmaraköku og svo þessa ömmusúkkulaðiköku,“ segir hún um kökuna sem hún mælir með að lesendur spreyti sig á fyrir jólin.

„Kakan sem ég gef ykkur uppskrift að hér var oft á boðstólum á æskuheimili mínu en það var einmitt þessi kaka sem ég bakaði fyrst 10 ára og hef gert reglulega síðan þá, svo börnin mín og barnabörn þekkja hana vel.

„Kakan sem ég gef ykkur uppskrift að hér var oft á boðstólum á æskuheimili mínu en það var einmitt þessi kaka sem ég bakaði fyrst 10 ára og hef gert reglulega síðan þá, svo börnin mín og barnabörn þekkja hana vel.“

Mamma hafði á henni karamellukrem en ég breytti því fljótt, enda finnst mér súkkulaðikremið betra. Hún bar kökuna alltaf fram á þessum brúna handmálaða diski sem foreldrar mínir fengu í brúðargjöf 21. október 1944. Dúkinn saumaði mamma út og kökuhnífurinn er erfðagripur frá henni. Þetta er því sannkölluð ömmukaka með sögu.Verði ykkur að góðu.“

Amerísk uppskrift

Þar sem uppskriftin er upprunalega frá Ameríku eru öll mál gefin upp í amerískum bollamálum.

Botnar:
½ bolli smjör, við stofuhita
1 ¼ bolli sykur
½ tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
2 egg, við stofuhita
1 ¾ bolli hveiti frá Pilsburys
1 tsk.matarsódi
⅓ bolli gæðakakó
1 bolli mjólk

Hitið bakarofninn í 180°C, notið undir- og yfirhita. Smyrjið vel tvö 24 cm kringlótt form. Setjið smjörið í hrærivél og hrærið í 1-2 mínútur með hræraranum, ekki þeytaranum. Setjið þá sykur út í og hrærið í 5-6 mínútur eða þar til blandan verður létt og ljós. Setjið eitt egg út í, hrærið í smástund og bætið næsta eggi saman við og hrærið áfram í nokkrar mínútur. Blandan á að vera létt og loftkennd.

Sigtið þurrefnin saman í skál og blandið varlega saman við smjörblönduna með sleif. Bætið síðan mjólkinni og vanilludropunum saman við. Setjið deigið í formin og bakið í 15-20 mínútur, gott er að stinga hnífi eða prjóni í miðjuna á botninum og sjá hvort hann kemur hreinn út.

Passið að baka kökuna ekki of lengi. Takið botnana út, látið þá kólna í u.þ.b. 2-3 mínútur og hvolfið þeim svo á grind og kælið alveg. Smyrjið kreminu á milli botnanna og á alla kökuna.

Kakan er góð ein sér en toppurinn er að bera fram með henni smávegis af rjóma og ískalt mjólkurglas. Mamma gerði stundum tvöfalda uppskrift að botninum og bakaði í ferköntuðu formi, síðan setti hún hvítt vanillusmjörkrem á milli og bjó þannig til sína útgáfu að lagköku, þetta geri ég líka stundum fyrir jólin.

Krem:
2 ½ bolli flórsykur
2 msk. smjör, við stofuhita
¼ bolli kakó
4 msk. gott kaffi (má vera skyndikaffi)
½ tsk. vanilludropar
2-3 msk.mjólk

Blandið öllu hráefninu saman í stórri skál og hrærið vel saman. Passið að kremið verði ekki of þunnt, ef það gerist þarf að bæta við smávegis flórsykri.

Höfundur / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir.

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir