Saltfiskvikan er skemmtileg ný hefð í matarflóru landsins

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Saltfiskvikan er nú að líða undir lok en áhugi fyrir henni hefur verið mikill og vonum við hjá Gestgjafanum að hér sé komin árleg hefð sem á eftir að haldast.

 

Saltfiskvikan opnaði formlega í Salt Eldhúsi og stendur hún yfir dagana 4.-15, september, þar voru samankomnir góðir gestir ásamt erlendum matreiðslumönnum sem allir eiga það sameiginlegt að nota íslenska saltfiskinn á sínum veitingarstöðum.

Matreiðslumennirnir sem heimsækja landið í tilefni saltfiskvikunar koma frá Ítalíu, Spáni og Portúgal en í þeim löndum er íslenski saltfiskurinn í hávegum hafður. Gestakokkarnir matreiða fyrir gesti rétti þar sem íslenski saltfikurinn er notaður og er þar hver réttur öðrum betri.

Hluti af íslenska kokkalandsliðinu tekur einnig þátt í viðburðinum og bjóða meðal annars upp á nýstárlega útfærslu af saltfisk með hamsatólg.

Kokklandsliðið bauð upp á nýstárlega útgáfu af saltfisk með hamsatólg

Markmið Saltfiskviku er að gera saltfisknum hærra undir höfði hér heima og kynna óþrjótandi möguleika, gæði og áhugaverða sögu saltfiskins fyrir íslenskum og erlendum gestum.

Íslenski saltfiskurinn þykir mikill veislumatur víða erlendis en það virðist hafa farið minna fyrir honum undanfarið á veitingarstöðum hérlendis. Löng hefð og saga er fyrir vinnslu saltfisks hér á landi en áður fyrr var öðru fremur notast við saltið til að lengja geymsluþol. Í dag er saltið hins vegar notað til að framleiða sælkeravöru sem nýtur mikilla vinsælda víða um lönd

Frú Eliza Reid ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Gestakokkarnir sem heimsækja landið og taka þátt í saltfiskvikunni eru ekki af verri endanum en þeir skiptu sér einnig á milli veitingastaða sem taka þátt í saltfiskvikunni og elduðu fyrir viðskiptavini.

Lorenzo Alessio frá Ítalíu

Lorenzo Alessio er margverðlaunaður matreiðslumaður og hefur m.a. starfað á Michelin stöðum auk þess að vera meðlimur í ítalska kokkalandsliðinu. Lorenzo er mikill Íslandsvinur en um árabil hefur hann kynnt íslenska saltfiskinn á Ítalíu, m.a. í kokkaskólum og víðar. Lorenzo hefur m.a. sótt Ísland heim oftar en einu sinni þar sem hann hefur ferðast um landið og kynnt sér veiðar og mismunandi vinnsluaðferðir saltfisks hér Lorenzo sagði blaðamanni Gestgjafans að íslenskur saltfiskur væri meðal annasr alltaf borðaður daginn fyrir jól á hans heimili.Frá 2012 hefur Lorenzo stýrt veitingastaðnum á Hotel Roma í Cervia á Ítalíu auk þess sem hann sinnir störfum á vegum Sambands ítalskra matreiðslumanna (Italian Chef´s Federation).

Lorenzo matreiddi uppskrift af steiktum saltfisk frá ömmu sinni sem hann setti í nýstárlegan búning með sítrónugeli og sultuðum rauðlauk. Einnig bauð hann gestum upp á klassískt ítalskt pasta með kremaðri sósu, parmesan osti og var saltfiski blandað saman við pastað.

Carlota Claver frá Spáni

Carlota Claver kemur frá Spáni og býr af mikilli reynslu sem matreiðslumaður þrátt fyrir ungan aldur en að eigin sögn var áhugi hennar á mat og matargerð kveiktur hjá ömmu hennar og móður. Carlota lærði til matreiðslumanns við Hoffman Hospitality School. Carlota stýrði í kjölfarið veitingastöðunum Alba Granados og Alba Paris. Í dag á veitingastaður hennar, La Gormanda, í Barcelona hug hennar og hjarta en þar matreiðir hún m.a. íslenskan saltfisk.

Carlota matreiddi fyrir gesti hennar útgáfu af Churros sem hún fyllti með elduðum saltfisk ásamt snöggsteiktu eggi með saltfisk og lauk.

Diogo Rocha frá Portúgal ásamt aðstoðamanni sínum

Diogo Rocha er þekktur matreiðslumaður í Portúgal. Auk þess að hafa gefið út matreiðslubækur starfar hann í dag á veitingastaðnum Mesa de Lemos í bænum Silgueiros (u.þ.b. 90 km austan við Aveiro). Undanfarin ár hefur Diogo tekið þátt í kynningum á íslenska saltfiskinum í Portúgal. Kom hann m.a. að kynningarviðburði fyrir almenning í El Corte Inglés stórversluninni í Lissabon, auk þess sem hann hefur tekið þátt í fjölmörgum öðrum viðburðum á vegum markaðsverkefninu um saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu sem Íslandsstofa, í félagi við u.þ.b. 25 framleiðendur og sölufyrirtæki á Íslandi, er framkvæmdaaðili að.

Diogo bauð gestum upp á hægeldaðan saltfisk í portúgalskri ólífuolíu með kjúklingabaunum og dilli en einnig útbjó hann steikta saltfisk-og kartöfluklatta sem er klassískur heimilismatur í Portúgal. Með réttunum bar hann fram portúgölsk vín sem pössuðu einstaklega vel með matnum.

Allir matreiðslumennirnir eru með ólíkar útfærslur í matargerð sinni á íslenska saltfiskinum en taka þó allir einhverjar hefðir eða rétti frá sínu heimalandi og setja réttina í nýjan búning þar sem íslenski saltfiskurinn er aðalstjarnan. Mjög fróðlegt var að sjá og smakka þessar ólíku útfærslur á þessu frábæra hráefni sem sýnir hvað hægt er að nota hann á marga vegu.

Vetingastaðirnir sem taka þátt í Saltfiskvikunni voru

 1. Bacalao bar, Hauganesi
 2. Einsi Kaldi, Vestmannaeyjum
 3. Höfnin, Reykjavík
 4. Hótel Selfoss, Selfossi
 5. Icelandair Hotel Reykjavík Natura, Reykjavík
 6. Kaffivagninn, Reykjavík
 7. Krauma, Reykholti
 8. Matur og drykkur, Reykjavík
 9. Rub 23, Akureyri
 10. Salthúsið, Grindavík
 11. Tapasbarinn, Reykjavík
 12. Von Mathús, Hafnarfirði
 13. Báran, Þórshöfn

Ragnar Freyr læknirinn í eldhúsinu ásamt góðum gestum

Djúpsteiktur saltfiskur með sítrónugeli og sultuðum rauðlauk

Sigurjón Bragi þjálfari kokkalandsliðsins ásamt Snædísi og Ísaki meðlimum liðsins

Snædís meðlimur kokkalandsliðsins slær á létta stengi með forsetafrúnni

Mikil ánægja var með opnun Saltfiskvikunar

Myndir / Arnaldur Halldórsson 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -