Síðasta bókabúðin – The Last Book Store í Los Angeles

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Musteri grúskara og bókaorma.

Blaðamaður og ljósmyndari Mannlífs voru á ferðalagi um Los Angeles á dögunum og römbuðu inn í afar áhugverða og skemmtilega bókabúð sem auðvelt er að gleyma sér í enda er hún full af bæði notuðum og nýjum bókum ásamt gömlum vínylplötum. Að sögn eigandans, Josh Spencer, var nafnið búið til í hálfgerðri kaldhæðni en á samt svo vel við þar sem bókabúðir víða um heim hafa, því miður, átt undir högg að sækja. Það á þó ekki við um þessa búð sem opnaði dyr sínar á litlu lofti í Springs Art Tower-byggingunni í miðbæ LA árið 2005.

Plássið sem búðin er í hefur stækkað ört frá opnun og er nú í rúmlega 2000 fermetra rými. Yfir 250.000 nýir bókatitlar kúra í hillunum ásamt vínylplötum og notuðum bókum, á efri hæðinni eru lítil listagallerí og búðir sem gaman er að skoða. Þægilegir sófar prýða miðrými fyrstu hæðarinnar þar sem hægt er að sitja og skoða bækur í notalegu umhverfi og auðvelt er að gleyma sér í þessum ævintýraheimi.

Velgengni The Last Book Store má að vissu leyti rekja til snjallrar hönnunar en á nokkrum stöðum hefur bókum verið raðað á myndrænan hátt svo gestir geti myndað sig, t.d. í bókagati og undir einskonar bókaboga. Margir ferðalangar leggja því leið sína í búðina til þess eins að taka mynd af sér í gegnum bókagatið sem er orðið frægt á samskiptamiðlinum Instagram og þannig fær verslunin ókeypis auglýsingar um heim allan.

Við skulum samt vona að flestir sem leggja leið sína í þessa skemmtilegu bókabúð séu þangað komnir til að upphefja andann og fjárfesti í innihaldsríkri bók.

____________________________________________________________

Þrjú góð svæði til að versla í Los Angeles

Montana Avenue og Santa Monica Place
Santa Monica Place er einskonar verslunarkjarni undir beru lofti rétt fyrir ofan Santa Monica-ströndina. Þarna eru öll helstu merkin, allt frá Uniqlo að Louis Vuitton og einnig eru stór vöruhús eins og Nordsrom og Bloomingdale´s. Aðeins norðar er Montana Avenue þar sem eru um 150 litlar skemmtilegar sérverslanir og veitingahús, þangað fara margir íbúar hverfisins til að versla.

The Grove
Þetta er eitt vinsælasta og þekktasta verslunarsvæðið í Los Angeles en það er í Beverly Grove-hverfinu á Third Street og Farifax Avenue. The Grove er einstaklega fallegt og skemmtilegt svæði með mikið af verslunum, veitingastöðum, gosbrunnum og torgum. Þarna eru merki á borð við Michael Kors, Anthropologie og Sephora, svo fátt eitt sé nefnt. Rétt hjá The Grove, á horninu á W 3rd St. og Fairfax Avenue, er frábær bændamarkaður sem gaman er að rölta um.

Melrose Avenue
Sumir segja að bestu búðirnar í Los Angeles séu á Melrose Avenue en þar eru aðallega litlar sérverslanir eða svokallaðar boutiques. Þarna eru til dæmis merki eins og Vivienne Westwood, Vera Vang og Helmut Lang, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta svæði er líka skemmtilegt til að smella af sér nokkrum Instagram-myndum enda víða fallegar veggmyndir. Melrose Avenue er í West Hollywood.

Ferðamáti
WOW air flýgur til Los Angeles allan ársins hring. Verð frá 16.499 kr. aðra leiðina með sköttum.

Myndir: Aldís Pálsdóttir

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira