Sinnep – ein af grunnstoðunum í eldamennsku

Deila

- Auglýsing -

Sinnep er flestum sælkerakokkum ómissandi hráefni, enda er það notað sem grunnur í fjöldann allan af réttum og sósum.

Sinnepsplantan er upprunnin fyrir botni Miðjarðarhafs en er nú ræktuð víða um heim. Blóm plöntunnar eru gul að lit en það eru fræin sem notuð eru til sinnepsframleiðslu. Til eru þrjú afbrigði af plöntunni. Hið svarta, brassica nigra, sem gefur af sér afar bragðsterk og kraftmikil svört fræ. Hvíta afbrigði plöntunnar er kallað sinapis alba á latnesku, í því eru gulbrún stór fræ fremur beisk á bragðið og ekki nærri eins kraftmikil og svörtu fræin. Þriðja afbrigðið er kallað indverskt eða grænt, brassica juncea, en það er upprunnið úr hlíðum Himalaya-fjalla. Laufin, stilkarnir og fræin eru æt á þessu afbrigði og blöðin eru oft notuð eins og spínat.

Voru notuð til lækninga
Frægasta tegund sinneps er eflaust frá Dijon-héraði í Frakklandi, enda er sú borg stundum kölluð sinnepshöfuðborgin. Þar er víni, vínberjadjús (verjuice) eða vínediki blandað saman við svört og hvít sinnepsfræ eða gulbrún og kryddi er síðan bætt saman við. Útkoman verður sterkt og bragðmikið gróft sinnep. Bretar hafa annan háttinn á og nota gulbrún og svört fræ sem þeir blanda með vatni og svolitlu túrmeriki sem skýrir heiðgula litinn sem enskt sinnep hefur, það er sterkt og svolítið rammt á bragðið. Þjóðverjar framleiða sína útgáfu af sinnepi sem er mildari og dekkri en hin afbrigðin og það er stundum svolítið súrsætt. Upp á síðkastið hefur það færst í aukana að ýmsum hráefnum er blandað saman við sinnep og mætti nefna krydd, kryddjurtir, ber og trufflur svo fátt eitt sé nefnt. Þess má til gamans geta að minnst er á sinnepsfræ í Biblíunni og talið er að notkun þeirra sé hægt að rekja allt aftur að til Forn-Egypta, Rómverja og Grikkja. Sinnepsfræ voru mikið notuð á miðöldum, bæði sem krydd og til lækninga.

 

- Advertisement -

Athugasemdir