Sítrus-kjúklingapottréttur – einfaldur og sjúklega góður

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Pottréttir eru oft flokkaðir sem vetrarmatur og er það að mörgu leyti skiljanlegt þar sem þeir eru oft kraftmiklir og næringarríkir en þannig mat sækjum við einmitt í á þessum árstíma þegar kalt og dimmt er. Sítruskjúklingurinn hér er sérlega áhugaverður og sparilegur. Látið ykkur ekki fallast hendur þótt hráefnislýsingin sé löng, hann er ekki flókinn í eldamennsku og svo er hann ferlega góður.

Sítrus-kjúklingapottréttur með spínati
fyrir 4

4-5 msk. bragðlítil olía t.d. sólblómaolía
2 laukar, saxaðir
3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 bakki (500 g) úrbeinuð kjúklingalæri
3-4 msk. púrtvín eða marsalavín
300 ml kjúklingasoð
1 tsk. túrmerik
1/2 tsk. kummin
kanill á hnífsoddi
chili-duft á hnífsoddi
sjávarsalt og svartur pipar
1/2 tsk. saffranþræðir
600 g spínat
1 dós (400 g) niðursoðnar kjúklingabaunir
1 1/2 lítil sítróna, safi úr báðum en börkur af einni
1 appelsína, safi og börkur
100 g sveskjur
50 g apríkósur
3 msk. möndluflögur, þurrristaðar á pönnu
3 tsk. sesamfræ (má sleppa) þurrristuð á pönnu í stuttan tíma
1 hnefafylli kóríander

Hitið olíuna í stórum potti og steikið laukinn á meðalhita í u.þ.b. 20 mín. eða þar til hann fer að brúnast, bætið þá hvítlauknum saman við og steikið áfram í 2-3 mín. Takið laukinn úr pottinum, hækkið hitann og steikið kjúklinginn þar til hann hefur brúnast vel alls staðar. Bætið lauknum aftur saman við og setjið púrtvínið út í og látið malla í u.þ.b. 4-5 mín. Hellið soðinu saman við og bætið túrmeriki, kummini, kanil og chili-aldini út í ásamt u.þ.b. 1 ½ tsk. af salti og ½ af pipar, setjið lokið á og sjóðið í u.þ.b. 30 mín. Setjið saffranþræðina í 2 msk. af soðnu vatni og látið liggja í á meðan kjúklingurinn sýður. Setjið spínatið í stórt sigti og hellið soðnu vatni yfir það í skömmtum og vindið svo allan vökvann úr þegar það hefur kólnað aðeins, saxið það gróflega og setjið út í réttinn ásamt sítrussafanum og berkinum. Geymið nokkra þræði af sítrusberki til að skreyta þegar rétturinn er borinn fram. Sjóðið í u.þ.b. 10 mín. með loki. Skolið kjúklingabaunirnar og bætið út í réttinn. Setjið 2 msk. af olíu á litla pönnu og steikið þurrkuðu ávextina í um 3-4 mín. og setjið svo út í réttinn. Látið allt malla saman í u.þ.b. 5 mín. smakkið réttinn og bætið við salti eða pipar ef þarf. Sáldrið möndluflögunum og sesamfræjunum yfir og skreytið með sítrusberki og kóríander. Ég set einungis hluta af möndluflögunum út á réttinn og hef svo restina í skál með. Berið fram með kúskúsi eða hrísgrjónum.

Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -