Sjúklega góðar súkkulaðikökur sem bræða alla bragðlauka

Deila

- Auglýsing -

Frakkar eru snillingar þegar kemur að kökum og bakstri og súkkulaði er þeim eiginlega í blóð borið. Hér er dásamleg uppskrift að heitum súkkulaðikökum sem slá alltaf í gegn. Það er vel þess virði er að gera nokkrar tilraunir með bökunartíma á þessum kökum. Þær eiga að vera vel blautar í miðjunni en ekki endilega renna út. Deigið má gera daginn áður en ef það er notað kalt beint úr ísskáp þarf að bæta 2 mín. við bökunartímann. Auðvelt er að margfalda uppskriftina.

Delice aux chocolate
fyrir 6

110 g súkkulaði 70 %
80 g smjör
2 eggjahvítur
2 eggjarauður
50 g flórsykur
20 g hveiti

4-5 msk. fíkjuedik (fæst í Ostabúðinni, Skólavörðustíg)
200 g hindber
½ lítri ís

Hitið ofninn í 210°C, það er ekki gott að nota blástur á þessar kökur. Bræðið súkkulaði og smjör saman í vatnsbaði við mjög vægan hita. Þeytið eggjahvítur þar til þær eru stífar, setjið þær í skál og geymið. Þeytið eggjarauður og flórsykur mjög vel saman, óþarfi er að þvo skálina á milli. Bætið súkkulaðiblöndu og hveiti út í eggjahræruna. Blandið eggjahvítum varlega saman við með sleikju. Smyrjið 6 múffuform (ég notaði sílikonform í venjulegri múffustærð) með smjöri eða olíu. Skiptið blöndunni á milli formanna, þau eiga að vera full, ef þið notið sílikonmúffuform er óþarfi að smyrja þau. Bakið í 8-10 mín. (viðmiðunartími). Finnið út á ykkar eigin ofni hversu lengi kökurnar þurfa að bakast, þær eiga að vera vel blautar í miðjunni. Berið fram volgar með ís, eða vanillusósu, fíkjuediki og hindberjum.

Uppskrift/Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

- Advertisement -

Athugasemdir