2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skemmtilegir og einfaldir hátíðarsmáréttir

Fátt er smartara en að byrja matarboð á lokkandi smárétt á meðan skálað er fyrir jólum eða áramótum. Þessir tveir réttir eru á léttum nótum til að taka ekki pláss frá stórsteikunum og svo eru þeir afar bragðgóðir og auðveldlega má t.d. breyta risarækjuréttinum í forrétt og hafa þá rækjurnar þrjár talsins.

Hjúpaðar risarækjur með kóríander-chili-mauki

20-25 risarækjur
1 egg
3 msk. hveiti
1 msk. engifer, fínt saxaður
30 g kókosmjöl
30 sesamfræ
4-5 msk. olía
salt
nýmalaður svartur pipar

Hreinsið skelina af risarækjunum en skiljið halann eftir. Setjið hveitið á disk, sláið eggið í skál ásamt smávegis af salti og pipar og blandið saman í annarri skál engifer, kókosmjöli og sesamfræjum. Veltið rækjunum upp úr hveiti, síðan eggi og að lokum kókosblöndunni. Hitið olíuna á pönnu við háan hita og steikið rækjurnar, snúið þeim einu sinni þannig að hjúpurinn brúnist á báðum hliðum. Rækjurnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar vel bleikar að lit. Takið rækjurnar af með gataspaða og leggið á eldhúsrúllu. Setjið kóríander-chili-maukið í lítil glös og eina til tvær rækjur í hvert glas.

Kóríander-chili-mauk geymist í nokkra daga í ísskáp og er tilvalið t.d. með indverskum mat.

AUGLÝSING


Kóríander-chili-mauk

1 búnt ferskur kóríander (u.þ.b. 3 dl)
1 dl fersk mynta
1 dl kalt vatn
2 msk. olía
2-4 chili-aldin
1 msk. engifer, gróft saxað
2 tsk. sykur
2 msk. límónusafi
salt

Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél eða notið töfrasprota og maukið þar til myndast hefur þunnfljótandi mauk.

Agúrka með mangó

Agúrka með mangó.

1 agúrka, skorin í þykkar sneiðar
1 þroskað mangó, smátt skorið
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1 msk. engifer, smátt saxað
1 msk. rautt chili-aldin, saxað
1 dl salthnetur, saxaðar
2 msk. kóríander, saxaður
2 msk. límónusafi
1 ½  msk. hunang
nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu hráefninu saman í skál, nema agúrkunum, og bragðbætið eftir smekk. Takið innan úr agúrkusneiðunum með teskeið til að búa til pláss fyrir mangóblönduna.

Setjið eina matskeið af mangóblöndu ofan í hverja agúrkusneið. Fallegt að er að sáldra smávegis af hnetum eða kóríander yfir diskinn eða bakkann sem rétturinn er borinn fram á. Agúrkur eru misstórar svo að vel getur verið að mangóblandan dugi á fleiri agúrkur.

Texti og stílisering / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Karl Petersson

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni