„Skemmtilegra að elda plöntumiðaðan mat“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Steinunn Steinarsdóttir ákvað að taka þátt í Veganúar árið 2016 eftir að hafa fengið nóg af kjötáti um jólin. Upphaflega ætlaði hún að prófa það í einn mánuð en Steinunn, eiginmaður hennar og dæturnar tvær hafa haldið sig við vegan-mataræðið síðan. Steinunn gefur lesendum hér tvær uppskriftir.

 

Upphaflega ætlaði Steinunn að prófa að vera vegan í einn mánuð.

Steinunn Steinarsdóttir, grænkeri, matarbloggari og leikskólakennari, segir að sér finnist fátt skemmtilegra en að dunda sér í eldhúsinu við að búa til og borða góðan mat. „Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á því að taka myndir og fannst tilvalið að sameina þessi tvö áhugamál í eitt með því að vera matarbloggari.

- Auglýsing -

Þegar við fjölskyldan fluttum til London í júní 2018 ákvað ég að nýta tækifærið á meðan við værum að koma okkur fyrir hér til að einbeita mér svolítið að því að byggja upp bloggið og miðlana í kringum það. Sökkva mér í þetta skemmtilega og krefjandi verkefni að vera matarbloggari í fullu starfi. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt og krefjandi og ég er hvergi nærri hætt.“

Hliðarspor styrkti ákvörðunina

Steinunn og fjölskylda hennar gerðust grænkerar í janúar 2016. „Þá ákváðum við að taka þátt í Veganúar eftir að hafa borðað yfir okkur enn ein jólin. Við vorum í raun enn þá með magapínu eftir jólasteikina þegar ákvörðunin var tekin. Í upphafi átti þetta bara að vera einn mánuður til að prófa en þegar mánuðurinn var liðinn leið okkur mjög vel og tókum þá ákvörðun að halda áfram að borða svona á meðan okkur liði vel og værum heilbrigð. Við tókum eitt hliðarspor á þrettándanum en við áttum eina steik eftir í ísskápnum og elduðum hana þann dag. Skemmst er frá því að segja að það styrkti ákvörðun okkar um að halda áfram í þessum lífsstíl því það eina sem við græddum á að elda steikina var magaverkur og samviskubit.“

- Auglýsing -

Hún segir að eftir því sem tíminn hafi liðið hafi þau farið að tengja meira við velferð dýra. „Við fórum að opna augun fyrir því hversu grimmdarlegt það er, sem siðmenntaðir einstaklingar, að borða aðrar lifandi verur. Plöntumiðað fæði getur veitt okkur alla þá næringu sem við þurfum og höfum við fjölskyldan m.a. fengið það staðfest með blóðprufum að við fáum öll þau næringarefni sem við þurfum.

„Plöntumiðað fæði getur veitt okkur alla þá næringu sem við þurfum.“

Ég vildi endilega láta tékka á þessu, sérstaklega fyrir stelpurnar mínar því ég vil að þær fái alla þá bestu næringu sem völ er á. Við sjáum því enga ástæðu til annars en að borða plöntumiðað fæði og gera okkar besta til að lifa þannig í sátt við menn, dýr og jörðina okkar. Það er óhætt að segja að þetta ferðalag hefur verið stórskemmtilegt og ég er ekki frá því að mér finnist skemmtilegra og áhugaverðara að elda plöntumiðaðan mat.“

Steinunn hefur veitt Vikunni góðfúslegt leyfi fyrir því að birta uppskriftir að alls kyns girnilegum vegan-réttum sem munu birtast hver af annarri á næstu vikum. Hér gefur hún lesendum Vikunnar uppskrift að hummus með hampfræjum og ólífu- og hvítlauksbrauði. Fleiri uppskriftir má finna á síðunni www.steina.is.

- Auglýsing -

Hummus með hampfræjum
Næringarsprengja fyrir húðina

1 dós af kjúklingabaunum
1/3 bolli góð olía
2 msk. vatn
2 msk. hampfræ
1 vel full matskeið af tahini
safi úr hálfu lime
1/8 tsk. cumin
1/8 tsk. hvítlaukssalt
salt og pipar eftir smekk
cayenne-pipar á hnífsodd

Setjið öll hráefnin í blandara eða matvinnslutæki og maukið vel.

Ólífu- og hvítlauksbrauð
u. þ. b. 8 flatbrauð

Þetta brauð er í uppáhaldi hjá Steinunni.

250 g hveiti
150 ml volgt vatn
1 pakki þurrger
¼ tsk salt
1 tsk. ávaxtasíróp
1 hvítlauksgeiri
8-10 ólífur
½ msk. olía + auka til að pensla á flatbrauðin

Pressið hvítlaukinn og setjið í skál til hliðar. Skerið ólífurnar smátt og setjið í skálina með hvítlauknum. Setjið hveitið í skál ásamt salti. Blandið saman volgu vatni, þurrgeri, ávaxtasírópi og olíu. Látið standa í um það bil 5-10 mín. eða þar til gerið hefur myndað froðu ofan á vökvanum. Hellið vökvanum yfir hveitið og hrærið þar til deigið byrjar að mynda kúlu. Hnoðið áfram á hveitistráðu borði þar til deigið er orðið mjúkt og auðvelt að meðhöndla.

Dreifið smávegis olíu í skálina og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, setið síðan diskaþurrku yfir skálina og látið deigið hefast í um það bil 40 mín. eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð. Takið deigið úr skálinni og setjið á hveitistráð borð, hnoðið hvítlauk og ólífum inn í deigið og skiptið því svo í átta jafna búta. Takið hvern bút og fletjið út þar til er um það bil 1 ½ cm að þykkt. Setjið til hliðar og leyfið þeim að hefast í um það bil 10 mín. í viðbót.

Bakið á pönnu á miðlungshita þar til flatbrauðin eru bökuð í gegn. Penslið með olíu um leið og brauðin eru komin af pönnunni.

Þess má geta að Steinunn er matarbloggari og heldur úti síðunni www.steina.is.

Myndir / Steinunn Steinarsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -