2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skotheldur tex-mex réttur – Geggjað góður og fljótlegur

Stundum getur kvöldmaturinn verið svolítill hausverkur sérstaklega þegar tíminn er naumur. Réttir sem krefjast bara einnar pönnu til eldunar geta verið mjög þægilegir og enn betra er að þá þarf lítið að vaska upp.

 

Hér gefum við ykkur eina skothelda uppskrift að geggjuðum tex-mex rétti. Sósan er einstaklega góð en ef tíminn er rosalega naumur má líka alltaf kaupa einhverja góða tilbúna sósu til að stytta sér leið.

Tex mex-panna
fyrir 2-4

450 g kjúklingalundir
2 tsk. laukduft
1 tsk. kumminduft
1 tsk. chili-duft
1 tsk. paprika
½ tsk. reykt paprika
nýmalaður svartur pipar
gróft sjávarsalt
olía til steikingar
½ rauðlaukur, sneiddur fínt
1-2 paprikur, skornar í strimla
4-6 tortillur

AUGLÝSING


Skerið lundirnar gjarnan í tvennt eftir endilöngu, gott er að skera sinina sem er í lundunum burt þegar þetta er gert. Blandið saman við kryddið, athugið að ef þið ætlið að geyma kjúklinginn í kryddblöndunni er betra að setja saltið ekki saman við, heldur salta kjúklinginn á pönnunni þegar hann er steiktur.

Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í nokkrar mín. eða þar til hann er eldaður í gegn. Bætið þá lauk og papriku á pönnuna og steikið í 2-4 mín. Raðið tortillunum þvers og kruss yfir pönnuna þannig að þær hitni aðeins og mýkist. Setjið lárperurjómaostasósu á tortillurnar og fyllið með kjúklingi og grænmeti.

Avókadó-rjómaostasósa

2 lárperur
safi úr 1 límónu
4 msk. rjómaostur
3 msk. sýrður rjómi
1 vorlaukur
hnefafylli ferskur kóríander
½ hvítlauksgeiri, rifinn fínt
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Setjið allt í matvinnsluvél eða blandara og maukið vel. Bragðbætið með salti og pipar eða límónusafa ef þarf. Geymið í lokaðri krukku.

Uppskrift / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni