Sögufrægt franskt góðgæti

Deila

- Auglýsing -

Trommarinn Matthías Hemstock bakar hina gómsætu og frægu Paris-Brest köku!

Matthías er þekktari fyrir að slá á trumbur en hann er með betri trommuleikurum landsins. Færri vita að Matti, eins og hann er oftast kallaður, er listakokkur og afbragðsbakari.

En hver er sagan á bak við þessa frönsku köku? „Um það leyti sem við konan mín, Gyða, kynntumst var frábært franskt bakarí á Njálsgötu. Þar var boðið upp á hefðbundið franskt bakkelsi og einmitt þessa köku, Paris-Brest. Þegar bakaríið lokaði leitaði ég að uppskriftum að Paris-Brest. Ég prófaði mig bara áfram og blandaði saman nokkrum uppskriftum með góðum árangri.“

„Ég prófaði mig bara áfram og blandaði saman nokkrum uppskriftum með góðum árangri.“

Hefðbundin Paris-Brest kaka er stór kringlótt vatnsdeigskaka með gati og „pralín“ kremfyllingu en Matti bakar hana reyndar eins og litlar bollur. Paris-Brest kakan var búin til árið 1891 í bakaríi í úthverfi Parísar en þar lá leið hjólreiðakeppni nokkurrar sem háð var milli Parísar og Brest sem er á Bretaníuskaga. Bakarinn vildi búa til eitthvert bakkelsi sem minnti á þessa hjólakeppni og hringurinn er tákn fyrir gjörð á reiðhjóli. Uppskriftin er því orðin býsna lífseig, enda einstaklega bragðgóð kaka hér á ferð.

Paris-Brest kökur

Sykraðar möndlur:
¾ dl sykur
¾ dl vatn
100 g afhýddar möndlur, ristaðar í ofni

Látið sykur og vatn sjóða á pönnu þar til blandan verður sírópskennd og hefur dökknað þó nokkuð. Hrærið möndlunum saman við og hellið á bökunarpappír, látið kólna í frysti eða ísskáp. Myljið vel í matvinnsluvél.

Franskt smjörkrem:
1 dl vatn
70 g sykur
2 eggjarauður
100 g af smjöri, við stofuhita

Setjið sykur og vatn í pott og sjóðið í 10 mínútur eða þar til blandan þykknar. Þeytið eggjarauðurnar og bætið sírópinu saman við í mjórri bunu og þeytið vel þar til blandan verður ljós og stífnar. Bætið smjörinu saman við í smáklípum og bætið svo sykruðu möndlunum saman við.

Vanillukrem:
5dl mjólk
1 dl sykur
1 vanillustöng
6 eggjarauður
1 msk. hveiti
½ dl maizena-mjöl
1 msk. smjör

Hitið mjólk og helming af sykri ásamt vanillustöng varlega að suðu í pönnu. Takið pönnuna af hitanum. Þeytið 6 eggjarauður saman við afganginn af sykrinum á meðan mjólkin er að hitna. Bætið 1 msk. hveiti og maizena-mjölinu út í og hrærið vel saman. Hellið eggjablöndunni út á pönnuna og hitið aftur að suðu, hrærið stöðugt í þar til blandan þykknar og verður kekkjalaus, látið sjóða áfram í 2 mín. Bætið við 1 msk. af smjöri. Setjið í skál með filmu yfir og látið kólna alveg. Smjörkremsblöndunni er síðan hrært varlega út í með sleif.

Vatnsdeig „Chou“
stór uppskrift, notið tvær plötur
½ lítri vatn
salt á hnífsoddi
2 msk. sykur
130 g smjör
250 g hveiti
5 stór egg, eða 6 lítil
50 g möndluflögur

Hitið ofninn í 190°C. Setjið vatn, salt, sykur og smjör á pönnu og bræðið allt saman. Þegar sýður, takið þá pönnuna af hitanum og hrærið hveitið saman við og setjið aftur á helluna. Hrærið í blöndunni þar til hún losnar frá börmum og deigið verður slétt og gljáandi. Takið aftur af hitanum, látið deigið kólna niður svo það sé ekki sjóðandi heitt og bætið eggjum út í, einu í einu, og hrærið á milli. Setjið í sprautupoka og sprautið hringi á stærð við kleinuhring í spíral á bökunarpappír. Dreifið möndluflögum ofan á og bakað í u.þ.b. 20-30 mín. eða þar til bollurnar taka lit, betra að baka þær lengur en skemur svo þær falli ekki. Látið kólna og skerið í tvennt. Setjið kremið inn í bollurnar og stráið smáveigis flórsykri yfir áður en þær eru bornar fram.

Höfundur: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir