2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Spennandi matarupplifun í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn er alþjóðleg borg þar sem margir innflytjendur frá ólíkum heimshornum hafa sett svip sinn á menningu borgarinnar og er matarflóran eftir því. Mikil uppbygging hefur verið í veitingabransanum í Kaupmannahöfn undanfarin ár og hafa danskir matreiðslumenn verið framarlega í að kynna sjálfbæra framleiðslu og elda með hráefnum úr nærumhverfinu.

Matreiðslumaðurinn Christian F. Puglisi er með einstaka sýn á matargerð þar sem lífræn framleiðsla er í hávegum höfð og áhersla lögð á hráefni úr nærumhverfinu. Christian er fæddur á Sikiley og er talinn vera meðal fremstu matreiðslumanna heims í dag.

Hann flutti til Danmerkur sjö ára gamall með ítölskum föður sínum og norskri móður þar sem hann byrjaði að vinna í eldhúsum einungis 17 ára gamall. Eftir að hafa unnið á stöðum eins og El Bulli og NOMA ákvað þessi metnaðarfulli matreiðslumaður að stofna sinn eigin veitingastað en lét þó einn ekki duga og rekur í dag fjóra staði sem tengjast allir saman þar sem við sjáum sýn hans á matargerð verða að veruleika. Relæ, Manfreds, Mirabelle og Bæst eru allt staðir sem hafa virkilega auðgað matarflóruna í Kaupmannahöfn.

Relæ
Jægersborggade 41

AUGLÝSING


Relæ er fyrsti staðurinn sem Christian opnaði í Kaupmannahöfn og hefur hann hlotið Michelin-stjörnu ásamt fjölda viðurkenninga, þar á meðal Sustainable Restaurant-verðlaunin tvö ár í röð. Hönnun staðarins er látlaus og matargerðin er hreinskilin og vönduð þar sem hráefnin fá að njóta sín. Það er einstök upplifun að borða á Relæ og ég mæli hiklaust með því að gestir panti sér svokallaðan Relæ menu með vínpörun. Hægt er að bóka borð bæði í hádeginu og á kvöldin en hafa skal í huga að þar sem Relæ er Michelin-veitingastaður þarf að panta borð með mjög góðum fyrirvara.

Manfreds
Jægersborggade 40

Hinum megin við götuna frá Relæ er Manfreds staðsettur. Þessir tveir veitingastaðir vinna náið saman við nýtingu á hráefni þar sem til að mynda er keyptur inn heill skrokkur af dýri og hjálpast staðirnir að við að nýta allt sem hægt er þannig að ekkert fari til spillis en þetta er einmitt hluti af matarsýn Christians. Hjá Manfreds er lögð áhersla á grænmeti sem eldað er með nýstárlegum hætti og breytist matseðillinn eftir árstíðum, en þrátt fyrir áherslu á grænmeti er staðurinn frægur fyrir nautatartarið sem talið er ómissandi. Manfreds var einnig fyrsti staðurinn í Kaupmannahöfn sem leggur áherslu á náttúruvín á vínseðli sínum. Frábært er að panta sér nokkra litla rétti og smakka öðruvísi náttúruvín. Hægt er að borða bæði í hádeginu og á kvöldin og mæli ég með því að panta borð, sérstaklega um helgar.

Mirabelle
Guldbergsgade 29

Á Mirabelle er lögð áhersla á lífræna danska framleiðslu sem innblásin er af Ítalíu þar sem heimagerðir ostar og pasta eru áberandi á matseðlinum. Mirabelle er opinn frá morgni til kvölds og er starfrækt bakarí innanhúss sem blasir við gestum þegar þeir ganga inn.

Andrúmsloftið á Mirabelle er afslappað og notalegt þar sem lögð er áhersla á að fólk panti nokkra litla rétti sem hægt er að deila með öllum við borðið, eins og er orðið vinsælt á mörgum veitingastöðum. Ef farið er í bröns mæli ég með ekta dönsku rúgbrauði sem borið er fram með linsoðnu eggi, spínati og hollandaise-sósu.

Bakaríið hjá Mirabelle sér einnig um bakstur á brauðum fyrir Relæ, Manfreds og Bæst þannig að frábæra súrdeigsbrauðið þeirra ætti ekki að fara fram hjá neinum sem leggja leið sína á þessa staði. Hægt er að panta borð yfir allan daginn og mæli ég með að panta borð enda staðurinn vinsæll.

Bæst
Guldbergsgade 29

Bæst blandar saman lífrænum dönskum hráefnum og vinnur þau samkvæmt gömlum ítölskum hefðum. Staðurinn býr til sitt eigið kjötálegg „charcuterie“, eða þurrkaðar pylsur úr dönsku svínakjöti og sinn eigin mozzarella-ost þar sem notast er við mjólk úr kúm sem eru í eigu staðarins, aðeins 40 km í burtu. Það verður ekki meira beint frá býli en það. Súrdeigpítsurnar á Bæst eru með þeim bestu sem ég hef smakkað þar sem eðalhráefnið skín í gegn.

Starfsfólk staðarins hefur mikla þekkingu á matnum og framleiðslunni og einnig er algengt að matreiðslumennirnir sjálfir komi fram og kynni matinn fyrir viðskiptavinum sem fá að sjá og heyra hversu mikill metnaður er lagður í matargerðina. Ég mæli með því að fólk fari í Bæst „experience menu“ þar sem boðið er upp á allt það besta á matseðlinum. Einnig eru þeir með frábæran vínseðil og góða kokteila. Vissara er að panta borð og þá sérstaklega um helgar.

Gott að vita

Frá Kastup-flugvelli er einfaldast og ódýrast að taka jarðlest frá brautarstöðinni undir stöðvarhúsi 3 inn í borgina. Vagnar fara til og frá á tíu mínútna fresti á daginn en á 20 mínútna fresti á kvöldin. Ferðin inn í borgina tekur rösklega tólf mínútur að Nørreport-lestarstöðinni í miðbænum en flestir vagnar halda áfram ferð sinni alla leið til Vanløse.

 

Kaupmannahöfn er frekar örugg borg en gott er þó að hafa í huga að vasaþjófar geta stundum verið á kreiki í kringum fjölfarnar götur og lestarstöðvar.

Auðvelt er að ferðast með strætisvögnum í Kaupmannahöfn og er hagstætt að kaupa kort sem hægt er að fylla á.

Gott er að kynna sér svokallað Copenhagen card en það gæti verið hagstætt þar sem mikið er innifalið í því svo sem aðgangur að söfnum og Tívolíinu og ýmsar samgöngur.

Sniðugt getur verið að leigja sér hjól í Kaupmannahöfn enda nota flestir íbúar hjól til að komast á milli staða. Víða er hægt að leigja hjól en um að gera er að kynna sér umferðarreglurnar áður en lagt er af stað.

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni