2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stórkostlegur áfangastaður á Austurlandi

Allir sem heimsækja Egilsstaði ættu að koma við í Vök baths, bæði til að borða og baða sig. Böðin voru opnuð í júlí á síðasta ári og óhætt að segja að þau hafi fengið góðar viðtökur bæði hjá gestkomandi og heimamönnum.

 

Böðin eru í Urriðavatni sem er í um það bil 5 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en notast er við heitt vatn úr borholum í vatninu. Þetta heita vatn er það eina á landinu sem er hreint og hæft til drykkjar. Nafnið Vök er dregið af náttúrulegum vökum sem eru í vatninu en baðgestir geta tekið sundsprett í Urriðavatni sem ku ekki vera svo kalt, á sumrin, en föruneyti Gestgjafans kaus að liggja frekar í heitu böðunum og njóta hins dásamlega útsýnis í allar áttir. Öll aðstaðan og hönnunin á húsakynnunum Vök baths er einstaklega vel heppnuð og falleg.

Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Baðgestir geta valið á milli þriggja lauga, ein er með fallegum steinum og steyptum borðum en hún er við húsið sjálft og þar er bar svo hægt er að fá sér drykk á meðan heitt vatnið leikur við líkamann. Tvær misheitar laugar eru svo úti í vatninu á eins konar flotbryggju og þar er hreinlega unaðslegt að vera enda útsýnið fallegt og baðgestir fá á tilfinninguna að vera í vatninu sjálfu. Þegar rökkva tekur er kveikt á kertum en þó ekki of mörgum því gestir eiga að geta horft til himins þegar stjörnubjart er.

AUGLÝSING


Þegar hungrið kallar er tilvalið að koma sér upp úr og fara á veitingastaðinn sem býður upp á ýmsar kræsingar frá Héraði en þar ræður Gróa Kristín Bjarnadóttir matreiðslumaður ríkjum.

Mynd / Aleksandra Stanik

Á matsölustaðnum er útsýni yfir vatnið og hluta lauganna sem augljóst er að gestir nýta sér enda sátu flestir við gluggann þegar okkur bar að garði. Gróa segir að alltaf sé boðið upp á tvær súpur í hádeginu með heimagerðu brauði og ýmsu viðbiti sem hún og aðstoðarkokkur hennar, Bryndís Hjálmarsdóttir, geri af alúð. „Við vinnum okkar matseðil út frá nærumhverfinu og árstíðum, þannig að til dæmis á haustin geri ég súpur þar sem rótargrænmeti er í aðalhlutverki. Hér í kringum okkur er hægt að fá mikið af góðu hráefni eins og frá Vallanesi og Fjóshorninu og svo er Nordic Wasabi hér í túnfætinum sem kemur sér vel. Hér er líka mikið um gæðavillibráð sem ég nýti mér að sjálfsögðu. Við vinnum einnig með vatnið hér og þegar baðgestirnir koma upp úr, erum við með tebar þar sem hægt er velja sér jurtir héðan úr Héraði og blanda við heita vatnið sem er á krana og kemur beint úr vatninu. Baðgestir nýta sér þetta vel og njóta þess að setjast og horfa út á vatnið á meðan heilnæmt teið er sötrað.“

Veitingastaðurinn er notalegur og innréttingarnar eru úr grófum náttúrulegum spýtum og grænar plöntur setja einnig hlýlegan svip á umhverfið. Hægt er að sitja úti á góðviðrisdögum og sötra góðan drykk hvort sem er kaffi, bjór eða annað og njóta útsýnis. „Við erum með tvo bjóra á krana sem við létum brugga sérstaklega fyrir okkur með vatninu í Urriðavatni og þá er bara hægt að fá hér.

Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Bjórarnir heita Vökvi og Vaka og eru bruggaðir af brugghúsinu Austra á Egilsstöðum. Þeir hefur verið vinsæll með léttu réttunum sem við bjóðum upp á en við leggjum einmitt áherslu á smáréttaplatta og aðra létta rétti eins og hnetur sem renna ljúflega niður með bjórnum. Ég hugsa þetta svolítið þannig að fólk geti komið hingað og notið baðanna, fengið sér smárétti eða forrétti með góðum drykk áður en farið er út að borða. Það sem ég er að vinna með á plöttunum núna er anísgrafið lamb, grafin gæs með rósmarín, rauðrófugló frá Vallarnesi og osturinn Gellir sem er frá Fjóshorninu,“ segir Gróa um leið og hún færir mér góðan expressóbolla sem ég drekk um leið og ég sporðrenni góðri köku sem Gróa og Bryndís hafa bakað en allt bakkelsið er gert frá grunni.

Lestu meira

Annað áhugavert efni