Suður-Írland – Skemmtileg sveitasæla

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hægt er að gera margt fleira á Írlandi en að þræða pöbba og búðir í Dublin og í raun er alveg tilvalið að leigja sér bíl í 1-2 nætur og ferðast um landið. Fyrir 2 árum ferðaðist ég um Suður- Írland og það var einstaklega gaman og áhugavert enda er landið grænt og fallegt.

Hér bendi ég á nokkra skemmtilega staði til að skoða í nágrenni við Cork sem er þriðja stærsta borgin á eftir Belfast og Dublin.

Íbúarnir þar telja um 120.000 og borgin því róleg og notaleg. Verðlagið er almennt betra en í Dublin og hægt að fá góð hótel á sanngjörnu verði. Cork var valin menningarborg Evrópu árið 2005 og þar er fjöldinn allur af matsölustöðum, kaffihúsum og skemmtilegum börum.

Í Cork er smjörsafn sem enginn smjörunnandi ætti að láta fram hjá sér fara og við Princes Street er skemmtilegur yfirbyggður matarmarkaður með mikla sögu en hann er kallaður The English Market. Þar er hægt er að kaupa dásamlega írska osta og góðan fisk ásamt öðru spennandi hráefni. Smjörið í Cork er dásamlegt, það er borið fram með sódabrauði á mörgum matsölustöðum og fólk þarf að passa að borða ekki yfir sig af brauði og smjöri áður en maturinn er borinn fram.

Blarney-kastali er í u.þ.b. 8 km fjarlægð frá Cork en hann er mjög gaman að heimsækja. Blarney-kastali var byggður á miðöldum, nánar tiltekið í kringum árið 1446 og er hann enn í einkaeign en opinn almenningi. Ég mæli svo sannarlega með leiðsögn um staðinn, það breytir öllu að heyra söguna. Kastalinn er hár og ganga þarf upp mjög brattar tröppur og því er hann ekki fyrir þá sem eru lofthræddir eða eiga erfitt með gang en vissulega er hægt að skoða kastalann og garðinn án þess að fara upp.

Efst í kastalanum er frægur steinn festur við kastalavegginn og sagan segir að þeir sem kyssi steininn verði vel máli farnir á eftir. Starfsmenn aðstoða þá sem vilja kyssa steininn enda beinlínis hættulegt að gera það einn, þeir láta fólk leggjast á bakið og grípa í járnstangir fyrir ofan sig og svo þarf að sveigja sig að steininum og kyssa hann. Þetta er ekki fyrir alla og sér í lagi ekki fyrir lofthrædda en gaman þó! Vefsíða: blarneycastle.ie.

Cobh er lítill bær á eyju í Cork-höfn en þar var síðasti viðkomustaður Titanic áður en skipið sigldi á fullri ferð á ísjaka með hörmulegum afleiðingum. Búið er að útbúa lítið safn sem gaman er að skoða enda er það sérlega vel gert og þægilegt yfirferðar. Það voru 123 farþegar sem stigu um borð frá Cobh og ekki komust allir lífs af, hver gestur fær að vera einn af þessum 123 farþegum og gaman er að skoða í lok safnferðarinnar hvort viðkomandi lifði slysið af en það sést við útganginn! Vefsíða: titanicexperiencecobh.ie.

Gömlu Jamerson viskíbruggverksmiðjurnar á Suður-Írlandi

Þetta er áfangastaður sem enginn áhugamaður um viskí ætti að láta fram hjá sér fara, virkilega skemmtilegt er að skoða verksmiðjurnar og fræðast um hvernig viskí er og var búið til. Farið er í hópum um verksmiðjuna með leiðsögumanni sem útskýrir allt ferlið í framleiðslu þessa vinsæla drykkjar frá korni til flösku ef svo má að orði komast. Verksmiðjan var starfrækt í 150 ár eða frá árinu 1825 til 1975 þegar starfsmennirnir stimpluðu sig út á föstudegi og gengu inn í nýja verksmiðju á mánudegi ekki langt undan þeirri gömlu. Til allrar lukku var gamla verksmiðjan ekki rifin og er nú einn mest sótti ferðamannastaðurinn á Írlandi.

Ég mæli auðvitað með því að allir fari í viskísmökkun, þar er gaman og áhugavert. Sérlega skemmtilegt er líka að bera saman mismunandi viskí en ég smakkaði, amerískt, skoskt og írskt og ég læt bara liggja á milli hluta hvert þeirra mér líkaði best. Til fróðleiks má geta þess að írskt viskí verður að vera eimað þrisvar til að mega kallast írskt viskí! Skoskt viskí er eimað tvisvar og bandarískt er eimað einu sinni.

Það tekur tæpar þrjár klukkustundir að keyra í verksmiðjurnar og því mæli ég með því að fólk fái sér að borða á matsölustaðnum sem er í verksmiðjunum. Heimabakaða sódabrauðið þeirra með írsku smjöri var verulega eftirminnilegt, ég fékk sérlega góðan fisk og fyrir þá sem ekki aka þá mæli ég með einhverjum góðum viskíkokteil. Hægt er að kaupa viskí og ýmsa aðra muni í safnabúðinni en staðkunnugur Íri hvíslaði því að mér að ódýrara væri að kaupa viskíið á flugvellinum en hvort það er eins skemmtilegt verður hver og einn að dæma fyrir sig.

Vefsíða: jamesonwhiskey.com.

Farið í spa á Inchadoney Island Spa hótelinu sem er þekkt fyrir góðar meðferðir. Þarna er tilvalið að gista eina nótt og njóta Atlandshafsins og fara í göngutúr á hvítri ströndinni. Mikilvægt er að bóka sig í meðferðr fyrir þá sem vilja um leið og gistingin er bókuð og svo er bara að dekra við sig og láta þreytuna líða úr sér.

Á staðnum eru tveir matsölustaðir, annar er með léttum mat í kráarstíl en hinn er fínni og heitir því skemmtilega nafni The Gulfstream Restaurant en þar er boðið upp á írskan mat eldaðan á framandi og nýjungagjarnan máta, biðjið um sæti við gluggann.

WOW air flýgur til Dublin allt árið um kring. Verð frá 6.999 kr. aðra leið með sköttum.

Myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og úr safni

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira